Uppgjör og ábyrgð

Útgáfa skýrslu þremenninganna í Rannsóknarnefnd Alþingis og siðferðihópsins eru mikilvæg tímamót fyrir Íslendinga. Hún er í senn ákveðinn endapunktur á því efnahagslega hruni sem dundi yfir Ísland haustið 2008 og upphafið að því uppgjöri sem fram þarf að fara vegna hrunsins.

Útgáfa skýrslu þremenninganna í Rannsóknarnefnd Alþingis og siðfræðihópsins svokallaða eru mikilvæg tímamót fyrir Íslendinga. Hún er í senn ákveðinn endapunktur á því efnahagslega hruni sem dundi yfir Ísland haustið 2008 og upphafið að því uppgjöri sem fram þarf að fara vegna hrunsins. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er einnig algjörlega nýtt fyrirbæri í íslenskri stjórnmálamenningu. Engri nefnd hefur áður verið veittar jafn víðtækar heimildir og raun ber vitni. Nefndin hefur haft aðgang að tölvupóstum, sms skilaboðum, fundargerðum, minnisblöðum að ógleymdum munnlegum skýrslum frá öllum þeim einstaklingum sem hún óskaði eftir að tala við. Að þessu leyti er skýrslan einstök í íslenskri stjórnmálasögu.

Nefndin fer ítarlega yfir starfsemi bankanna og hegðun eigenda þeirra. Nefndin telur eina helstu ástæðu fyrir falli bankanna hafa verið ör vöxtur þeirra og áhættusækin hegðun eigenda þeirra. Það er ótvírætt að starfsemi bankanna var vægast sagt vafasöm. Óeðlilega greiður aðgangur stærstu eigenda bankanna að lánsfé hjá bönkunum, augljósar blekkingar um raunverulega stöðu bankanna, stöðutaka gegn krónunni og fífldirfska í fjárfestingum mynduðu banvænan kokteil sem á endanum varð bönkunum að falli. Um þetta efast enginn. Mörg dæmi úr skýrslunni um bein samskipti manna gefa innsýn inn í heim sem var orðinn gjörsamlega veruleikafirrtur.

Nefndin fer einnig rækilega yfir viðbrögð og aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að mistök hafi verið gerð við hagstjórn landsins á síðustu árum. Nauðsynlegt er að viðurkenna að yfirvöld hefðu þurft að huga betur að aðgerðum til að draga úr þenslu fremur en kynda undir bálið. Erfitt er þó að sjá að skattalækkanir á þenslutímum, breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs eða stefna Seðlabanka Íslands hafi beinlínis valdið gjaldþroti stóru bankanna.

Nefndin gerir einnig mikið úr verklagi þáverandi ríkisstjórnar og að aðgerðir hafi ekki verið nógu markvissar á árinu 2008. Það er margt í stjórnkerfi landsins sem þarfnast úrbóta og endurskoðunar og kemur nefndin með margar gagnlegar tillögur þar að lútandi. Tæplega höfðu þó starfsvenjur ríkisstjórnarinnar eða hverjir voru boðaðir á tiltekna fundi úrslitaáhrif þegar kom að hruni bankanna.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að grípa hefði þurft til aðgerða strax á árinu 2006 og eftir það hafi ekki verið nokkur leið að bjarga bönkunum frá falli. Það er því undarleg þversögn í skýrslunni að þrátt fyrir það eru athafnir manna frá febrúar fram í október 2008 undir smásjánni og lagðar til grundvallar mati um ábyrgð. Ráðherrum og fleirum er gefið að sök að hafa látið hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við hinni yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnhagslíf sem leiddi af versnandi stöðu bankanna. Því má hæglega halda fram að ásakanir nefndarinnar um vanrækslu ákveðinna manna séu byggðar á veikum grunni þar sem hvergi kemur fram hvernig hefði átt að bregðast við „á viðeigandi hátt“.

Þær aðgerðir sem má hugsa sér að hefðu getað breytt einhverju hefðu falið í sér að þvinga bankana til að minnka starfsemi sína eða hreinlega loka bönkunum. Þar með hefði ríkið brotið gegn regluverki EES og átt yfir höfði sér málsókn og skapað sér mögulega skaðabótaskyldu gagnvart eigendum bankanna. Sú niðurstaða hefði ekki síður verið slæm fyrir ríkið og auðvelt að ímynda sér hvers konar réttarhöld væru þá í gangi.

Við lestur á vitnisburðum þeirra einstaklinga sem kallaðir voru fyrir nefndina endurspeglast starfsumhverfi sem hefur verið við lýði á Íslandi um langa tíð. Kunningjasamfélagið og náin tengsl manna í svo litlu landi varð til þess að traust varð sjálfsagður hlutur. Ein af þeim mistökum sem stjórnvöld gerðu var að ganga út frá því bankamennirnir væru heiðarlegir í atvinnu sinni. Að vissu leyti má skrifa það á tíðarandann þess tíma en því má ekki gleyma að þjóðin stóð með bönkunum á góðæristímunum og allar aðgerðir stjórnvalda gegn bönkunum hefðu verið mjög óvinsælar. Það má þó ekki vera afsökun sem slík, enda verða stjórnmálamenn að geta tekið óvinsælar ákvarðanir.

Einnig verður eftirlit með fjármálastarfsemi að hafa burði til að sinna hlutverki sínu en það virðist hafa gjörsamlega brugðist. Þeir aðilar, sem áttu að hafa eftirlit með starfi fjármálafyrirtækja, voru máttlausir, reynslulitlir og líklega undirmannaðir til að takast á við verkefnin. Þrátt fyrir að eftirliti hér á landi hafi verið ábótavant hljóta að vakna spurningar um regluverkið sjálft, en Ísland tók upp regluverk EES, sem nú hefur komið í ljós að er meingallað. Það regluverk sem við fylgdum hér á landi var einfaldlega ekki sniðið fyrir jafn lítið land og Ísland.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis markar ákveðin þátttaskil í íslensku þjóðlífi. Óhætt er að fullyrða að aldrei fyrr hafi stjórnarathafnir nokkurra stjórnmálamanna verið rannsakaðar jafn gaumgæfilega. Líklegt má telja að fleiri mál verði rannsökuð með sambærilegum hætti og er það af hinu góða. Það ber þó að hafa í huga að þó skýrslan sé vel unnin samantekt og vönduð þá er hún auðvitað ekki óskeikul um staðreyndir mála.

Þrátt fyrir að nefndin hafi skilað góðu verki þá ber að varast að líta á skýrsluna sem heilagan sannleika um það sem gerðist. Þeir aðilar sem unnu að gerð skýrslunnar eru ekki fullkomnir og það er kannski til marks um það að við lærum seint að nefndin, sem tók bankana og stjórnkerfið á beinið fyrir að hafa ekki virt lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti, fór sjálf ekki að lögum Alþingis um tímamörk verkefnisins. Þetta er vitaskuld smámál þar sem að lokum skilaði nefndin vel unnu verki en hún hefði þó hæglega getað gengið á undan með góðu formdæmi og sýnt af sér góða stjórnsýsluhætti.

Eins og áður sagði er niðurstaða skýrslunnar líka upphafið að því uppgjöri sem fram þarf að fara vegna hrunsins. Í ljósi þess sem kemur fram um hegðun bankamanna í skýrslunni er ljóst að þeir sem framið hafa lögbrot muni hljóta að þurfa að svara til saka og taka út refsingu. Veruleikafirringin og siðleysið sem kristallast í skýrslunni er erfiðara að láta menn svara til saka fyrir. Vonum að samfélagið okkar beri gæfu til þess að láta slíkt lönd og leið í framtíðinni. Þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem þátt áttu í stjórn landsins á árunum fyrir hrun þurfa að horfast í augu við ábyrgð sína, viðurkenna hvaða mistök voru gerð og læra af þeim. Með skýrslunni gefst hentugur tímapunktur til að taka stjórnkerfi landsins og verklag stjórnvalda til gagngerrar endurskoðunar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)