Evrópusambandið í hlutverki handrukkara

Öll réttarríki grundvallast á því að lögin komi í veg fyrir að hinir veikari lúti valdi þeirra sterku. Þegar lögum og reglum er vikið til hliðar á smáríkið Ísland ekki mikla möguleika gegn yfirgangi og valdbeitingu Evrópusambandsins.

Hafi mönnum hér á landi blöskrað framganga Breta gagnvart Íslendingum í upphafi Icesave deilunnar, þá hlýtur yfirgangur Evrópusambandsins nú að ganga fram af hverjum manni. Frá því er greint á forsíðu Morgunblaðsins í dag að Evrópusambandið í heild sinni leggist gegn því að Ísland fái aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema fyrst verði „samið“ um skuldirnar. Þeir samningar sem Evrópusambandið leggur til eru af sama meiði og samningar sem Vito Corleone, betur þekktur sem Guðfaðirinn, gerði við gagnaðila sína: „Either your brain or your signature will be on this contract“.

Ísland átti við ofurefli að etja þegar við Breta eina var fást en þegar Evrópusambandið í heild sinni setur Íslandi afarkosti er útlitið kolsvart. Íslendingar vilja láta á reyna á málið fyrir dómstólum þar sem skorið úr því hvort íslenska ríkið bæri ábyrgð á þessum reikningum. En af hverju hagar Evrópusambandið sér eins og handrukkari í stað þess að virða þær reglur sem gilda í samskiptum siðaðra þjóða sem leggja réttarríkið til grundvallar?

Ef niðurstaðan yrði sú að Íslendingar hefðu rétt fyrir sér og að íslenskir skattborgarar bæru ekki ábyrgð á skuldbindingum einkabanka umfram tryggingasjóðinn sjálfan, þá gæti það valdið stórkostlegu uppnámi í fjármálakerfi Evrópu. Í staðinn fyrir að viðurkenna galla á sinni eigin löggjöf, eða gefa nokkra möguleika á skoðun dómsstóla á álitaefninum, þá ætlar Evrópusambandið að knésetja Ísland með afarkostum sem ekkert vestrænt lýðræðisríki hefur nokkru sinni verið látið sæta.

Það liggur fyrir að íslensk stjórnvöld hafa gert áætlun um viðreisn efnahagslífsins í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sjóðurinn hefur sjálfur lýst því yfir að sú ætlun sé bæði trúverðug og metnaðarfull. Til þess að hrinda megi þeirri áætlun í framkvæmd þarf erlent fé að láni – ekki að gjöf, heldur að láni, með sama hætti og Bretar árið 1976. Fái Ísland ekki erlenda lánafyrirgreiðslu eru allar áætlanir um viðreisn efnahagslífsins í uppnámi og þrautarganga um langa hríð blasir við.

Öll réttarríki grundvallast á því að lögin komi í veg fyrir að hinir veikari lúti valdi þeirra sterku. Þegar lögum og reglum er vikið til hliðar á smáríkið Ísland ekki mikla möguleika gegn yfirgangi og valdbeitingu Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld sitja nú með pennann í höndunum og þurfa að gera það upp sig hvort ófæddar kynslóðir verði skuldbundnar upp fyrir haus eða hvort landið verði gert gjaldþrota – hvort undirskriftin eða heilinn verði á blaðinu.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)