Framlagið þitt

Framamenn úr íslensku atvinnulíf keppast um að leggja fram sem mest fé til góðgerðarmála. Popplandsliðið dustar rykið af Sameinumst hjálpum þeim. Allir jafn undrandi og hissa á að til sé fólk sem hafi það skítt. Það er kominn desember.

Desember hlýtur að vera afar slæmur mánuður. Ekki vegna þess að kalt er á norðurhveli um þessar mundir heldur frekar vegna þessa að nú virðist fólk hafa það verr en á öðrum tímum ársins. Eða hvað? Ójöfnuður, örorka og hungur virðist vera meiri í desember en á öðrum tíma ársins ef almenn umræða er mælikvarðinn. En auðvitað er þetta ekki þannig, desember er ekkert verri en aðrir mánuðir. Það er nefnilega til fólk sem flest býr í fjarlægum löndum sem hefur það skítt allt árið.

Í síðustu viku styrktu Baugur Group, FL Group og Fons hjálparstarf Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNICEF) um 135 milljónir til að efla menntakerfið í Gíneu-Bissá sem er land á vesturströnd Afríku. 90 milljónir til viðbótar söfnuðust svo á sérstökum styrktarkvöldverði og rennur féð til sama verkefnis. Fleiri aðilar munu einnig að styðja verkefnið því kvenfélög landins sitja og sauma dúkkur í hundruðatali sem seldar eru nú fyrir jólin.

Án efa er brýnt að styrka skólakerfið í Gíneu-Bissá enda er landið eitt af fátækustu löndum heims. Sama hvers eðlis vandamálin eru sem hrjá íbúana, stríð, sjúkdómar eða matarskortur, þá er víst að framlagið mun standa straum af kostnaði við skólagöngu fjölmargra sem annars hefðu haft takmarkaða möguleika til menntunar. Menntun íbúa landsins mun skila sér með tímanum í bættum lífskjörum og bjartari framtíð íbúanna. .

Upphæðirnar sem UNICEF hér á landi hefur safnað eru háar. Til samanburðar má nefna að frjáls framlög til Rauða krossins árið 2004 numu um 153 milljónum króna. Hjálparstarf Kirkjunnar fékk ríflega 100 milljónir króna í framlög árið 2004.

Samkvæmt óformlegri samantekt á ársreikningum helstu góðgerðarfélaga landsins söfnuðust árið 2004 um 500 milljónir króna í frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Framlag ríkisins til sama málaflokks er í ár um 400 milljónir króna. Framlög einstaklinga og fyrirtækja eru því hærri en framlag ríksins til alþjóðlegs hjálparstarfs. Einstaklingar og fyrirtæki láta því sitt ekki eftir liggja í stuðningi við hjálparstarf.

Færa má sæmileg rök fyrir því að heppilegra sé að einstaklingar velji sjálfir þau málefni sem þeir telji að brýnt sé að styrkja í stað þess að vera neyddir til þátttöku sem hluthafar í félögum eða sem skattgreiðendur ríkisins. Að mörgu leyti er hægt að taka undir að skynsamlegra sé að treysta einstaklingum sjálfum til taka frumkvæðið í styrkjum til góðgerðarmála en á endanum skiptir það ekki höfuðmáli heldur hvað er verið að styrkja, niðurstaðan og árangur hjálparstarfins.

Samt sem áður er rétt að gera greinarmun á framlögum til góðgerðarmála fyrirtækja og einstaklinga því að grundvallarmunur er á þessu tvennu. Einstaklingar sem leggja fram fé til þeirra sem minna mega sín ætlast ekki til þess að þeir hagnist sjálfir af framlaginu. Fyrirtækin geta ekki leyft sér sömu óeigingjörnu markmið því að tilgangur þeirra er í eðli sínu sjálfhverfur, að hámarka hagnað hlutahafa sinna.

Þetta má þó ekki skilja sem svo að fyrirtæki hafi takmarkaða möguleika að láta gott af sér leiða. Í ljósi þess hversu vel það tvinnast saman að bæta lífskjör í þróunarlöndunum og á sama tíma vænka hag hluthafanna með því að auka verðmæti fyrirtækisins í kjölfar jákvæðrar ímyndar þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að fyrirtækin láti til sín taka og gott af sér leiða.

Og þegar öllu er á botnin hvolft skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Stúlkan í Gíneu-Bissá sem fær að borða og lærir að lesa lítur alltaf á það sem góðverk að hún fái tækifæri til að byggja grunn undir framtíð sína.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)