Æðruleysi, hugrekki og staðfesta

Pistlahöfundur kynntist rithöfundinum Joan Didion á síðum glanstímaritsins O-Magazine. Í viðtalinu komu fram viðhorf Didion til lífsins, til sjálfrar sín, ástarinnar og sambanda sinna við sína nánustu. Lesningin var í senn heillandi og lærdómsrík og er í pistlinum reynt að miðla þeim áhrifum til lesenda Deiglunnar.

Fyrir nokkrum vikum var ég svo heppin að rekast á nettilboð um ársáskrift af O-Magazine á hlægilega lágu verði. Ég sló að sjálfsögðu til og fékk fyrsta blaðið heim í hús um mánaðarmótin október/nóvember. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég settist niður með blaðið, enda eitt fárra glanstímarita sem raunverulega inniheldur lesanlegar og jafnvel fróðlegar greinar. Lesningin kom á óvart. Hún olli þó ekki vonbrigðum. Þvert á móti rakst ég þar á speki eldri konu sem ég bjóst síður við að finna á síðum glanstímaritanna.

Í blaðinu var að finna viðtal við rithöfundinn Joan Didion í tilefni af nýútkominni bók hennar The Year of Magical Thinking. Joan Didion (f. 1934) er fædd og uppalin í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum. Þegar hún nam ensku í Berkeley háskóla í Kaliforníu vann hún ritgerðarsamkeppni á vegum tímaritsins Vogue sem leiddi til þess að hún hóf störf hjá tímaritinu og bjó þá í New York á meðan hún vann sig upp í að verða einn af aðstoðarritstjórum blaðsins. Hún birti sína fyrstu skáldsögu, Run River, árið 1963 og sama ár giftist hún eiginmanni sínum og rithöfundinum John Gregory Dunne. Árið 1964 fluttust hjónin aftur til Kaliforníu, þar sem þau bjuggu næstu 25 árin, eða áður en þau fluttust aftur til New York.

Didion skrifaði 4 skáldsögur í viðbót eftir Run River en þrátt fyrir það hvíldi orðspor hennar að mestu á ritgerðarsöfnum hennar Slouching toward Bethlehem og The White Album. Auk þess að skrifa bæði blaðadálka, ritgerðir og skáldsögur, vann hún ásamt eiginmanni sínum að fjölda kvikmyndahandrita, þ.á.m. að kvikmyndunum Up Close & Personal og A Star is Born.

Bókina The Year of Magical Thinking skrifaði Didion um persónulega reynslu sína eftir að hafa misst eiginmann sinn og náinn samstarfsfélaga mjög skyndilega úr hjartaáfalli. Í viðtalinu talar Didion um missi lífsförunautar síns, líf sitt með honum, hjónabandið og leið sína til að vinna sig út úr áfallinu.

Það var ótal margt sem snerti mig við tilsvör og lífsýn þessarar sterku konu sem virðist hafa eins raunsæa og skynsama sýn á lífið og ástina og hægt er, en um leið svo rómantíska og einlæga. Í viðtalinu segir hún frá því hvernig ást hennar til eiginmanns síns breyttist eftir því sem leið á hjónabandið. Það sem hún elskaði undir lokinn var ekki það sem hún elskaði í upphafi sambands þeirra. Með tímanum urðu líf þeirra óaðskiljanleg vegna samhenti þeirra, samvinnu og sameiginlegrar sögu. Þau voru hluti af hvors annars lífi og í viðtalinu segist Didion ekki geta lýst ástandi sínu eftir dauða eiginmanns síns sem einmannaleika heldur sem söknuði eftir félaga sínum.

Didion lýsir í viðtalinu einnig þeirri staðfestu sem gott hjónaband byggir á. Didion trúir því að hjónaband sé ákvörðun sem hafi ekkert með heppni eða örlög að gera. „John og ég tókum meðvitaða ákvörðun um að vera hluti af hvors annars lífi.“ Samkvæmt Didion er lykillinn að vilja vera saman og leggja það á sig sem að til þarf til að samveran sé ánægjuleg og fullnægjandi. Hin rómantíska ást sé óspennandi. Hún sé tilbreytingalaus og hverfi með tímanum. Hins vegar sé hjónaband eitthvað allt annað og meira. Sú staðfesta sem ríki í hjónabandi sé djúp og dýpki og styrkist frekar en að dofna og hverfa. Þeim mun meira sem maður fjárfesti í henni, þeim mun meira fái maður út úr henni.

Á sama tíma og eiginmaður Didion lést lá dóttir hennar meðvitundarlaus á sjúkrahúsi vegna sýkingar og tvísýnt var um líf hennar. Dóttir hennar náði sér aftur af sjúkdómnum um stutta stund en lést í ágúst 2005 úr brisbólgu. Það lýsir ágætlega þeirri tilfinningu sem ég fékk fyrir konunni tilsvar hennar til eiginmanns síns stuttu áður en hann lést þar sem hann var að lýsa yfir áhyggjum sínum af því að ráða ekki við að horfa upp á veikindi dóttur sinnar. Svar Didion til hans var „þú færð ekkert val“.

Það hafði óvænt og sterk áhrif á mig að lesa um viðhorf Joan Didon til lífsins, til sjálfrar sín, ástarinnar og samferðamanna sinna. Það er erfitt að lýsa þeirri persónu sem endurvarpaðist í viðtalinu í fáum orðum í þessum pistli en í stuttu máli eru áhrif þess á mig líklega fólgin í þeirri visku sem aðeins verður fengin frá einhverjum sem er kominn á sitt síðasta skeið í lífinu, hefur upplifað lífsins sorgir og lystisemdir og veit hvaða ákvarðanir hennar voru réttar og hverjar rangar. Æðruleysið og staðfestan sem virðast, skv. þessu viðtali, hafa stýrt hennar lífi og sambandi hennar við sína nánustu er eitthvað sem vert er að setja í farteskið á leið sinni inn í framtíðina.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)