Trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins

Verðbólga á Íslandi tók stóran kipp upp á við í þessum mánuði. Hún mælist nú 4,8% og er því komin upp fyrir þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í annað sinn á árinu. Flestir sérfærðingar eru ennfremur á þeirri skoðun að verðbólga muni haldast há í þó nokkurn tíma. Lítið sem ekkert útlit virðist vera fyrir að verðbólgumarkmið bankans náist í bráð.

Verðbólga á Íslandi tók stóran kipp upp á við í þessum mánuði. Hún mælist nú 4,8% og er því komin upp fyrir þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í annað sinn á árinu. Flestir sérfærðingar eru ennfremur á þeirri skoðun að verðbólga muni haldast há í þó nokkurn tíma. Lítið sem ekkert útlit virðist vera fyrir að verðbólgumarkmið bankans náist í bráð.

Verðbólgumarkmiðið kveður á um að Seðlabankinn eigi að halda verðbólgu sem næst 2,5%. Ef verðbólga víkur meira frá því marki en 1,5% þá er bankanum skilt að skila greinargerð til ríkisstjórnarinnar þar sem hann skýrir frá ástæðum fráviksins og lýsir því hvernig bankinn hyggst bregðast við og hversu langan tíma það muni taka að ná markmiðinu á ný. Seðlabankinn sendi slíka greinargerð til ríkisstjórnarinnar 19. september, síðastliðinn. Greinargerðin var stutt. Bankinn benti á að ný greining á stöðu efnahagsmála yrði birt í Peningamálum síðar í mánuðinum. Hann benti einnig á að stutt væri síðan hann hefði sent slíka greinargerð frá sér síðast og lítið hafi breyst í millitíðinni. Bankinn taldi því ekki þörf á því að fjalla ýtarlega um stöðu mála eða lýsa frekari aðgerðum í greinargerðinni.

Þessi viðbrögð Seðlabankans eru gagnrýniverð. Þau hafa það yfirbragð að bankinn telji það léttvægt að þolmörkin hafi verið rofin. Í nýjum lögum um Seðlabankann, sem samþykkt voru árið 2001 og veittu bankanum stóraukið sjálfstæði, eru lítil sem engin ákvæði um viðurlög ef bankanum tekst illa að ná markmiði sínu. Trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins byggist því alfarið á trúverðugleika starfsfólks og stjórnenda Seðlabankans. Þessi trúverðugleiki hefur vitaskuld beðið nokkurn hnekki á árinu þar sem verðbólga hefur vikið frá verðbólgumarkmiðinu. Það að Seðlabankinn hafi ekki gripið til neinna sérstakra aðgerða þegar verðbólgan rauf þolmörkin og hækkaði úr 3,7% í 4,8% á einum mánuði var ekki til þess að bæta úr skák.

Það er spurning til hvers ákvæði um þolmörk voru sett í verðbólgumarkmið bankans ef rof þolmarkanna hefur engin áhrif á aðgerðir bankans. Þolmörkin gætu verið gagnlegt tæki fyrir Seðlabankann til þess að halda aftur að verðbólguvæntingum ef rof þeirra merkti að Seðlabankinn “skipti um gír” í baráttu sinni gegn verðbólgu. Bankinn hefur því miður ekki nýtt sér þolmörkin á þennan hátt.

Eftir næstu mánaðamót er síðan hætt við að trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins veikist enn frekar þar sem Davíð Oddsson sest í sæti bankastjóra. Davíð hefur á undanförnum árum gagnrýnt bankann fyrir of mikið aðhald í peningamálum. Þar að auki bar hann ábyrgð á peningamálastjórninni á meðan hann var forsætisráðherra þar til Seðlabankanum var veitt sjálfstæði árið 2001. Á árunum 1998 til 2001 var aðhald í peningamálum of lítið með þeim afleiðingum að verðbólga fór fyrst í 6% árið 2000 og síðan í 9% árið 2001. Þessi saga mun að líkindum veikja trúverðugleika bankans til skemmri tíma. Eða þar til Davíð tekst að sannfæra almenning og þá sérstaklega fjármálamarkaði um það að hann sjá hlutina öðru ljósi ofan úr Seðlabanka og sé fullkomlega staðráðinn í að beita stjórntækjum bankans til þess að ná verðbólgumarkmiðinu.

Á fimmtudaginn gefur Seðlabankinn út nýtt hefti Peningamála. Flestir búast við að útgáfunni fylgi tilkynning um hækkun á vöxtum bankans. Það er afar mikilvægt fyrir trúverðugleika bankans að vaxtahækkunin veiti þau skilaboð að Seðlabankinn sé staðráðinn í því að ná verðbólgu niður eins fljótt og auðið er. Að mati Deiglunnar væri það best tryggt með því að bankinn hækkaði vexti um 0.75-1%.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)