Hávaxinn, dökkhærður og grannur KARLMAÐUR

Er það hinn fullkomni veruleiki? Að minnsta kosti eru allar líkur á því að þú sért með 23% hærri laun en feit, lágvaxin, ljóshærð kona!

Er það hinn fullkomni veruleiki? Að minnsta kosti eru allar líkur á því að þú sért með 23% hærri laun en feit, lágvaxin, ljóshærð kona!

Auglýsingaherferð VR vekur mikla athygli þessa dagana, ekki bara fyrir það að Þorgerður Katrín er óvenju myndarlegur karlmaður, heldur vekur hún okkur til umhugsunar um þá merkilegu staðreynd sem launamunur kynjanna er.

Íslendingar státa sig iðulega að því, eins og flestu öðru, að hér sé svo mikið jafnrétti. Við eigum, jú, alveg frábær lög um fæðingarorlof og allir hafa jafnan rétt til starfs og mennta. En hvað með launamuninum? Og hvað með þá staðreynd að innan við 6% þeirra sem sitja í stjórnum fyrirtækjanna sem mynda úrvalsvísitölu Kauphallarinnar eru konur?

Þýðir þetta jafnframt að karlmenn séu hamingjusamari en konur eða hafi það, þegar á heildina er litið, betra en konur eða meta kynin hlutina kannski bara á sitt hvorn háttinn? Ljóst er að margar konur telja fjölskyldu, vini og frítíma einfaldlega meira virði en hærri laun eða stjórnunarstaða.

Auðvitað er þetta mikil einföldun á flóknu samfélagslegu fyrirbæri. Erfitt er að segja hvaða þættir í þessari stöðu eru afleiðing samfélagslegs þrýstings, að hve miklu leyti er mismunandi uppeldi kynjanna áhrifavaldur og hver eru áhrif mörghundruð ára sögu þar sem karlmenn hafa stjórnað heiminum.

Að sjálfsögðu höfum við það öll miklu betra í dag en við gerðum fyrir 100 árum, 50 árum og jafnvel 10 árum. Hlutur kvenna í stjórnmálum og athafnalífi eykst samfara bættri stöðu allra í þjóðfélaginu. En hvað er orsök og hvað er afleiðing er óljóst.

Það er hagur okkar allra að við höfum það sem best og hver og einn fái að lifa því lífi sem gerir hann hamingjusamann. Við viljum öll að næsta kynslóð hafi það aðeins betra en við. Ef við erum meðvituð um það hver staðan er og gerum okkur grein fyrir því að hárlitur, hæð, vaxtarlag og jafnvel kyn eru ekki eðlilegar breytur til að meta fólk að verðleikum munum við sennilega öll geta haft það aðeins betra eftir 10 ár líka.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.