Pekingbúum gert að taka pokann sinn

Í norðaustur hluta Pekingborgar er lifandi veitingahúsa- og barhverfi sem kallast Sanlitun. Þar um fer fjöldinn allur af ferðamönnum sem og heimamönnum dag hvern. Í kínversku höfuðborginni virðist allt vera á hreyfingu; fólk, fyrirtæki og jafnvel göturnar. Víða um borgina má sjá byggingakrana, önnur tæki og tól sem notuð eru við uppbyggingu og niðurrif húsa. Ljóst er að hið gamla mun víkja fyrir hinu nýja í Sanlitun hverfi líkt og annarsstaðar í borginni.

Chai = Eyðilegging

Í norðaustur hluta Pekingborgar er lifandi veitingahúsa- og barhverfi sem kallast Sanlitun. Þar um fer fjöldinn allur af ferðamönnum sem og heimamönnum dag hvern. Í kínversku höfuðborginni virðist allt vera á hreyfingu; fólk, fyrirtæki og jafnvel göturnar. Víða um borgina má sjá byggingakrana, önnur tæki og tól sem notuð eru við uppbyggingu og niðurrif húsa. Ljóst er að hið gamla mun víkja fyrir hinu nýja í Sanlitun hverfi líkt og annarsstaðar í borginni.

Það er engin leið að sjá fyrir hvað verður um þetta hverfi árið 2010, þessa dagana breytast hlutirnir svo hratt í Peking að fólk verður að hafa sig allt við til að fylgjast með hinni öru þróun. Nýjar byggingar rísa jafnskjótt og þær gömlu hverfa án þess að nokkur verði í raun var við breytingarnar.

Víða á Sanlitun svæðinu má sjá tómar og mannlausar byggingar sem allar eiga það sameiginlegt að vera merktar kínverska tákninu „chai“. Merkið hefur verið málað á fjölda bygginga og hvítur hringur í kringum það til að undirstrika það sem koma skal. „Chai“ táknið stendur fyrir eyðileggingu, en þegar fyrrgreint tákn hefur verið málað á byggingu í Peking merkir það að innan tíðar verði byggingin rifin niður og eyðilögð. Í mörgum tilfellum er íbúum húsanna eða verslunareigendum ekki tilkynnt formlega að til standi að jafna húsið þeirra við jörðu, heldur fær fólkið fréttirnar um leið og allir aðrir þ.e. þegar húsið hefur verið merkt „chai“. Það er lítið sem íbúarnir geta aðhafst þegar táknið er komið á húsið þar sem allar byggingarnar eru í eigu ríkissins. Íbúunum er gert að taka pokann sinn og flytjast í þar til gerð hús langt fyrir utan Sanlitun svæðið.

Allt er þetta partur af alþjóðavæðingu Pekingborgar, en til stendur að svæðið verði miðpunktur tískuverslana, veitingahúsa og skemmtistaða með alþjóðlegu ívafi. Ekki eru allir jafn hrifnir af þessari þróun, enda kunna margir enn að meta það sem kínverskt er. Sanlitun svæðið er reyndar alþjóðlegasta svæði borgarinnar. Flest ríki heimsins eru með sendiráð sín á þessu sama svæði og gengur svæðið jafnframt undir nafninu sendiráðssvæðið, en þau telja hátt á annað hundrað í Peking.

Sú þróun sem átt hefur sér stað í borginni síðastliðin ár er hreint út sagt ótrúleg fyrir margra hluta sakir, hún hefur að mörgu leiti verið til góðs fyrir íbúa borgarinnar, en þróunin á sér líka neikvæðar hliðar líkt og ofangreind frásögn er dæmi um.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.