Ísland í framboði

Mun sigur í „kosningabaráttu“ meðal aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um laust sæti í Öryggisráðinu styrkja stöðu Íslands – eða skiptir kannski meira máli að valda því hlutverki sem felst í því að sitja í ráðinu?

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur vaxandi gagnrýni gætt meðal þingmanna og fleiri á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að sækjast eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna frá og með 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2010. Hefur gagnrýnin einkum beinst að miklum kostnaði sem hlýst af umsókninni en einnig hefur verið dregið í efa hvort Ísland eigi erindi í ráðið.

Íslendingar hafa aldrei verið neitt sérstaklega meðvitaðir um smæð sína á alþjóðavettvangi. Framgangur ráðamanna þjóðarinnar á alþjóðavettvangi frá stofnun lýðveldisins hefur verið með þeim hætti að engum þarf að dyljast að Íslendingar líta á sig sem þjóð meðal þjóða. Nægir í því sambandi að hin herlausa og fámenna þjóð taldi sig umkomna þess að verða stofnaðili að stærsta varnarbandalagi sögunnar árið 1949. Sama þjóð var í forystu strandríkja í heiminum þegar kom að útfærslu landhelginnar á sínu tíma og átti þannig stóran þátt í móta réttarskipan á sviði hafréttar.

Því verður réttilega fram haldið að þarna hafi hagsmunir Íslands legið til grundvallar og því hafi verið eðlilegt að Íslendingar létu til sín taka með svo afgerandi hætti í þessum tveimur málum. Herlaus smáþjóð hafði vissulega mikla hagsmuni af því að vera í sterku varnarbandalagi á viðsjárverðum tímum og útfærsla landhelginnar snérist auðvitað um lífsviðurværi þjóðarinnar. Engir slíkir augljósir hagsmunir eru af setu Íslands í Öryggisráðinu.

Í ræðu á Alþingi 13. nóvember 2003 fór Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, nokkrum orðum um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að sækja eftir sæti í Öryggisráðinu. Sagði ráðherrann þá:

„Fyrr í haust var framboð Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna formlega tilkynnt aðildarríkjum samtakanna í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Af þessu tilefni er tímabært að fara nokkuð ítarlega yfir það hvað í framboðinu felst og hverjar áherslur Íslands verða í baráttu um kjör í öryggisráðið og síðar í starfi öryggisráðsins. […] Markmiðið með framboði í öryggisráðið er að leggja af mörkum til varðveislu friðar og öryggis og framkvæmdar annarra stefnumiða Sameinuðu þjóðanna. Beinn ávinningur af slíkri þátttöku er ekki meginmarkmið en Ísland mun vissulega njóta góðs af með beinum eða óbeinum hætti.“

Mikilvægt er að gefa gaum þeim ummælum þáverandi utanríkisráðherra að markmiðið með framboðinu sé að Íslendingar leggi sitt af mörkum til varðveislu friðar og öryggis í heiminum. Traust réttarríki og virtur þjóðréttaraðili á borð við Ísland getur vissulega látið rödd sína heyrast í Öryggisráðinu. En til þess að svo verði þarf faglegur undirbúningur að vera í lagi og markviss stefnumótun að hafa átt sér stað.

Ef til vill eru það grundvallarmistök í þessu máli að líta á það ferli sem nú er í gangi sem framboð. Miklu nær er að líta svo á að með umsókninni sé Ísland að uppfylla þær væntingar sem gerðar eru til sjálfstæðs og fullvalda ríkis, þátttakanda í alþjóðlegu samstarfi, þjóðar meðal þjóða – að skorast ekki undan þegar röðin kemur að okkur.

Þeir sem lýst hafa efasemdum um framboðið vegna kostnaðar hafa að mörgu leyti rétt fyrir sér. Sérstaklega þegar litið er til þess að það mun engu breyta um afdrif umsóknarinnar hvort við eyðum 100 milljónum eða 5.000 milljónum – við munum ekki keppa við Austurríki og Tyrkland þegar kemur að þessum atriðum – og vissulega er þessum peningum betur varið með öðrum hætti, eins og flestum þeim fjármunum sem ríkisvaldið ráðstafar sjálft.

Í stað rándýrrar kosningabaráttu ættu íslensk stjórnvöld að leggja áherslu á það hvernig við getum staðið undir þeim kröfum sem gerðar verða til Íslands sem meðlims í Öryggisráðinu. Höfum við undirbúið okkur sem skyldi þegar kemur að þekkingu á eðli ráðsins og viðfangsefnum þess? Er til staðar sú þekking og færni sem nauðsynleg er til að geta sinnt þessu verkefni?

Fremur en að endasendast út um gervalla heimsbyggðina í atkvæðaleit og heyja kosningabaráttu með öllu tilheyrandi, ættu Íslendingar fyrst og fremst að huga að þeim þáttum sem verða að vera til staðar, fari svo að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna feli Íslendingum að fara með atkvæði í Öryggisráðinu.

Ef við ekki stöndum klár á okkar hlutverki, þá er betur heima setið en af stað farið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.