Nói og Evrópusambandið

sdfdÍ helgarnesti dagsins er leitað svara við þeirri spurningu hvort að Nóa hefði tekist að reisa örkina sína fyrir Syndaflóðið ef reglugerðafargani Evrópusambandsins hefði verið beitt gegn honum.

Óþekk(t)i embættismaðurinn.

Dæmisögur geta oft verið skemmtilegri og meira upplýsandi en nokkrir raunverulegir atburðir. Söguna af örkinni hans Nóa þekkja allir frá blautu barnsbeini enda er sagan hluti af kristnifræðikennslu grunnskólanna, eins hressandi og það nú hljómar. Pistlahöfundur efast hins vegar um að sú útgáfa sem hér birtist sé jafnmörgum kunn og full ástæða til að láta á það reyna hvort hún taki upprunalegu útgáfunni fram, enda um stílfærða útgáfu að ræða sem gengið hefur manna á milli. Hefjum því lestur: Árið 2005 kom drottinn til Nóa, sem bjó í einu aðildarlandi ESB og sagði digurbarkalegum rómi: „Of margir búa á jörðinni og hún er orðin syndabæli og ég sé fyrir mér endalok mannkyns. Nói, byggðu örk og bjargaðu karl og kvendýri af hverri tegund ásamt nokkrum vel völdum manneskjum.“ Að svo búnu rétti hann Nóa teikningar af örkinni og kilkkti út með því að segja: „Þú hefur hálft ár til að smíða örkina áður en steypiregn dynur í 40 daga og 40 nætur .“

Sex mánuðum síðar kom guð í heimsókn til Nóa og settist í sólstólinn hjá honum og skimaði yfir bakgarðinn en kom hvergi auga á umrædda örk.

„Nói!“, æpti hann hvað mest hann mátti. „Steypiregnið nálgast, en ég sé enga örk!“

Nói vaknaði af værum blundi og var snöggur til svars: „Fyrirgefðu, en aðstæður hafa breyst. Ég þarf að fá byggingarleyfi og ég er búinn að vera að rífast við byggingarfulltrúann hvort nauðsynlegt sé að koma úðarakerfi fyrir í örkinni, og hann þrástaglast á því að úðarakerfi þurfi að vera í öllum skemmtiferðaskipum. Að sama skapi hafa nágrannar mínir kvartað til umhverfisráðs um að örkin mín sé of stór og samræmist ekki deiliskipulagi hverfisins. Og vandamál mín eru rétt að byrja!“

Nói horfði í gaupnir sér og var greinilega mikið niður fyrir. „Samgönguyfirvöld kröfðust þess að ég leggði inn tryggingu hjá þeim vegna þess kostnaðar sem fallið gæti til við niðurrif háspennulína við sjósetningu arkarinnar. Ég reyndi að benda þeim á að til viðlíka flutninga myndi ekki koma — enda myndi hafið flæða að örkinni…“

Greyið Nói útskýrði í beinu framhaldi hvers lags vesen það hafi verið fyrir hann að verða sér út um almennilegan gæðavið í örkina. „Það er búið að leggja blátt bann við högg tjáa í skóglendinu hér í kring til að vernda skógarugluna sem er í útrýmingarhættu. Nákvæmlega! sagði ég og benti þeim á að ég þyrfti einmitt að höggva trén til að bjarga uglunni. En skriffinnarnir trúðu mér ekki.“

Nói útskýrði að honum hefði tekist að redda sæmilegu byggingarefni í gegnum Badda frænda en þegar hann hafi byrjað að safna saman dýrunum hafi dýraverndunarsamtök stefnt honum fyrir illa meðferð á dýrum og svo vitnað sé í stefnuna: „Að Nói sé að hefta frelsi dýra að þeim forspurðum!“

Þegar Nói hafði náð að snúa sig út úr öllum þessum vandræðum var örkin innsigluð af bæjaryfirvöldum þar sem enn væri beðið niðurstöðu umhverfismats á áhrifum arkarinnar á lífríkið í næsta nágrenni. „Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að örkin hefði ráðandi áhrif á lífríki heimsins í heild — en þeir héldu því fram að Syndaflóðið stæðist ekki umhverfismat!“

Greyið Nói var að niðurlotum kominn. „Að auki er ég upp fyrir haus gagnvart verkalýðsfélögunum sem saka mig um að ráða of einsleitan hóp manna til að aðstoða mig við að reisa örkina og þau hafa lagt inn formlega stjórnsýslukvörtun þar sem ég réði syni mína til að aðstoða mig. Þeir telja nauðsynlegt og affarasælast að ég ráði aðeins verkamenn sem hafa sannanlega reynslu í að reisa arkir.“

„Sem væri kannski allt í lagi, ef ég væri ekki nýkominn úr yfirheyrslum hjá skattinum sem sakar mig um að reyna að flytja verðmæti úr landi án þess að segja tollayfirvöldum á áfangastað frá tilætlun minni.

Svo þú verður eiginlega bara að sýna mér smá miskunn — jafnvel þótt mér hafi ekki tekist að ljúka við örkina.“

Skyndilega dró ský frá sólu og regnboginn teygði sig tignarlega yfir flatlendið fyrir framan híbýli Nóa.

Nói leit steini lostinn til himins og beindi orðum sínum til guðs: „Frábært, kæri guð — þú ætlar sem sagt ekki að eyða siðmenntuðu samfélagi?“

„Nei“, sagði guð — „Evrópusambandinu tókst það hjálparlaust.“

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)