Er Persónuvernd á villigötum?

Nú eru 2 ár liðin frá því að Persónuvernd var komið á fót með lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Deiglan fer yfir farinn veg.

Nú eru 2 ár liðin frá því að Persónuvernd var komið á fót með lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Lögin voru m.a. samin til að bregðast við jákvæðri athafnaskyldu sem hvílir á ríkisvaldinu skv. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) til að vernda friðhelgi einkalífs. Hlutverk stofnunarinnar er að annast eftirlit með framkvæmd laganna sjálfra og stuðla þannig að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. En umrædd grundvallarsjónarmið og reglur eru m.a. tryggð í áðurnefndri 8. gr. MSE um friðhelgi einkalífs og 71. gr. stjórnarskrár.

Stofnuninni er ætlað að hafa áhrif á alla réttarþróun á sviði persónuverndar þar sem gert er ráð fyrir að hún gefi álit, setji reglur um einstök málefni og hafi frumkvæði að lagasetningu á sviði persónuverndar. Upp á síðkastið hefur stofnunin látið töluvert til sín taka á þennan hátt í málum sem varða réttindi einstaklinga til friðhelgis einkalífs á vinnustöðum.

Þann 17. desember 2001 setti stofnunin leiðbeiningarreglur um eftirlit vinnuveitenda með tölvupóst- og netnotkun starfmanna. Af þeim má álykta að vinnuveitandi geti farið í tölvupóst launþega að undanskildum þeim sem er greinilega merktur eða flokkaður sem einkamál. Sé þessi flokkun eða merking ekki fyrir hendi skiptir engu máli hvort gögnin séu persónuleg eða tengd vinnunni. Eina skilyrðið sem vinnuveitandi þarf að uppfylla er að tilkynna starfsmönnum sínum hvaða reglur hann hefur sett um þetta. Einnig má álykta að vinnuveitendum sé veittur sambærilegur réttur til að rannsaka alla netnotkun starfsmanna án nokkurs tilefnis. Umræddar reglur áskilja ekki á nokkurn hátt að vinnuveitandi þurfi að hafa málefnalegan tilgang fyrir skoðun gagnanna s.s. vegna raunverulegra hagsmuna vinnuveitandans. Einnig banna reglurnar ekki að persónuleg gögn sem eru ekki merkt eða flokkuð sem „einkamál“ séu skoðuð, þrátt fyrir að þau beri það með sér að vera persónuleg, heldur segja reglurnar eingöngu að forðast eigi óþarfa íhlutun í einkalíf starfsmanna.

Á sama hátt átti stofnunin frumkvæði að því að dómsmálaráðuneytið samdi frumvarp til breytinga á lögunum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 sem varð að lögum síðasta mánudag (Deiglan fjallaði ítarlega um áhrif lagabreytinganna í pistli sem birtist síðasta þriðjudag). Lögunum var breytt til rýmka verulega heimildir til rafrænnar vöktunar þ.á.m. á vinnustöðum. Í lögskýringargögnum með lagabreytingunni kemur fram að almennt beri að túlka heimildir til vöktunar á vinnustað þröngt og virða einkalífsrétt starfsmanna. Hins vegar kemur þar einnig fram að lögmæti vöktunar á vinnustað sem miði að því að mæla gæði vinnu og afköst starfsmanna sé m.a. háð því að starfsmenn hafi fengið nauðsynlega fræðslu um tilvist hennar. Jafnframt segir að einu skilyrðin sem vinnuveitandi þarf að uppfylla til að geta vaktað starfsmann með eftirlitsmyndavélum séu að skv. „skipulags-, framleiðslu- og öryggissjónarmiðum“ sé slíkrar vöktunar þörf. Þannig að þrátt fyrir yfirlýsingar um virðingu fyrir einkalífsrétti starfsmanna þá eru sett skilyrði fyrir vöktun á vinnustað sem eru svo rúm að það er á mörkunum að þau flokkist undir það að vera skilyrði. Lagabreytingin er því keimlík fyrrnefndum leiðbeiningareglunum. Svo framarlega sem starfsmanni sé tilkynnt um hugsanlegan möguleika á vöktun þá er löglegt að mæla gæði og afköst hans í vinnunni með eftirlitsmyndavélum. Eðli máls skv. er næstum ómögulegt að mæla afköst einstakra starfsmanna nema með því að vakta hann allan daginn og fylgjast með honum.

Þetta er ákaflega varasamt. Réttur til friðhelgis einkalífs fellur ekki niður þegar einstaklingar mæta í vinnuna. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið afstöðu til verndar 8. gr. sáttmálans á vinnustöðum í máli Niemietz gegn Þýsklalandi (mál nr. 72/1991). Þar var tekist á um lögmæti húsleitar á lögmannsstofu. Þýska ríkið hélt því fram að 8. gr. MSE verndaði ekki lögmanninn fyrir leit á vinnustað hans. Mannréttindadómstóllinn fór ítarlega yfir álitaefnið, tók almenna afstöðu til verndar 8. gr. á vinnustað og er heildarrökstuðningur hans rökfastur og sannfærandi. Dómstóllinn nefndi einnig mikið af eigin dómafordæmuum máli sínu til stuðnings. Þar kemst dómstóllinn að þeirri almennu niðurstöðu að 8. gr. MSE um friðhelgi einkalífs verndi einstaklinga á vinnustað þeirra.

Það verður að teljast hæpið að sá réttur sem “skapast hefur” með reglum Persónuverndar og lagabreytingunni um rafræna vöktun sé í samræmi við 8. gr. MSE og þennan dóm Mannréttindadómstólsins. Greinin á m.a. að tryggja rétt einstaklinga til að njóta friðar um lífshætti sína, tilfinningalíf. tilfinningasambönd við aðra og einkahagi. Niemietzdómurinn tryggir að einstaklingar hafa einnig þennan rétt í vinnunni. Þegar eignar- og umráðaréttur vinnuveitanda yfir vinnustaðnum rekst á þennan hátt á rétt starfsmanna til friðhelgis einkalífs verður að fara fram hagsmunamat í hverju tilviki til að komast að því hvor réttur vegi þyngra. Ekki er að sjá í fljótu bragði að gífurlega rúmar heimildir til að skoða öll gögn, tölvupóst og til að fylgjast með starfsmönnum allan daginn með eftirlitsmyndavélum feli í sér slíkt hagsmunamat eða sé í samræmi við ofangreind markmið 8. gr MSE.

Það má spyrja hvort stofnunin Persónuvernd sé ekki kominn á villigötur. Hlutverk hennar er að hafa eftirlit með því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Í því felst að vernda friðhelgi einkalífs einstaklinga gegn hvers konar átroðningi einstaklinga, stjórnvalda, vinnuveitenda og/eða einhverra annarra. Það er ekki hlutverk hennar að gefa út nánast opnar heimildir fyrir vinnuveitendur eða aðra til að ráðast inn í friðhelgi einkalífs einstaklinga. Er Persónuvernd farin að ráðast gegn þeim hagsmunum sem henni var ætlað að verja í upphafi?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.