Líf eftir dauðann

Þessa dagana stendur yfir mjög óvenjuleg sýning í austurhluta London sem ber yfirskriftina Body Worlds. Sýningin hefur laðað að sér milljónir manna og þúsundir vilja nú ólmir ánefna líkama sinn læknavísindunum og listinni.

Þessa dagana stendur yfir mjög óvenjuleg sýning í austurhluta London sem ber yfirskriftina Body Worlds. Gunther von Hagens, þýski læknirinn og vísindamaðurinn, sem uppgötvaði plöstunaraðferðina í læknisfræði árið 1977, hefur sett upp sýninu um anatómíu mannslíkamans og til sýnis eru plöstuð sýni af líkömum og líffærum einstaklinga sem eitt sinn voru lifandi manneskjur eins og ég og þú.

Plöstunaraðferðin er í rauninni aðferð sem notuð er til að varðveita lífræn efni s.s. líkamsvef í þeirri mynd sem hann er þegar plöstunin er framkvæmd þannig að úr verður n.k. vaxmynd. Sýningin er fyrst og fremst anatómíusýning sett upp í þeim tilgangi að fræða almenning um leyndardóma mannslíkmans. Líkömunum hefur verið stillt upp í hinar ýmsu stellingar ekki ósvipað og á vaxmyndasafni og á öllum sýnunum hefur húðin verið fjarlægð til að sýna undirliggjandi bein, vöðva, taugar og æðar.

Gunther von Hagens hefur verið mjög umdeildur fyrir sýninguna og hefur meðal margra andstæðinga sinna hlotið viðurnefnið Frankenstein. Þeir sem helst hafa horn í síðu Gunthers finnst rangt að mannslíkaminn sé hafður til sýnis eins og dæmigerð listaverk. Gunther hefur líka verið ásakaður fyrir að sum líkanna á sýningunni séu fyrrum fangar úr fangelsum í Síberíu en í Rússlandi gilda mildari lög hvað líkamasgjafa varðar en víða annars staðar í heiminum. Þrátt fyrir þetta hefur sýningin fengið frábærar viðtökur og hún sögð hafa mikið kennslugildi fyrir almenning. Sýningin dregur að sér mörg þúsundir manna í hverri viku hefur nú þegar náð samtals yfir átta milljón gesta í fjórum löndum frá því hún var fyrst sett upp í Japan árið 1995.

Framfarir í læknisfræði áttu mikið undir því að vísindamenn gátu rannsakað mannslíkamann í smáatriðum. Því var að sjálfsögðu eingöngu viðkomið með því að skyggnast undir yfirborðið til að sjá hvernig mannslíkaminn væri uppbyggður. Fram eftir öldum voru slíkar krufningar mjög viðkvæmt mál og erfitt að nálgast líkama sem mátti kryfja. Í Bretlandi voru í fyrstu eingöngu lík hengdra morðingja brúkuð í þessum tilgangi og gátu grafræningjar auðgast verulega á þessum tíma með því að selja tennur og bein. Til að bregðast við vandamálinu heimiliaði breska ríkisstjórnin síðar að lík fátæklinga, sem ekki áttu aðstandendur eða efni á grefrun, yrðu notuð í þessum tilgangi, eitthvað sem væri algjörlega óóásættanleg í dag.

Tímarnir hafa mikið breyst og almenn lög og siðarreglur í rannsóknum kveða á um að einstaklingur þurfi að veita skriflegt samþykki fyrir þátttöku í hvers konar rannsókn og jafnframt ef viðkomandi vill gerast líffæragjafi eða líkamsgjafi að honum látnum. Líffærastuldur er svartur blettur á læknisfræðinni og því miður höfum við nýleg dæmi um slíkt. Skandalinn á Alder Hey sjúkrahúsinu í Bretlandi, sem uppkomst fyrir rúmum 3 árum, þar sem líffæri úr börnum og unglingum voru tekin án leyfis né vitneskju foreldra þeirra er líklega nýjasta dæmið. Sem betur fer er þetta einangrað tilfelli en þau gerast varla svívirðilegri.

Eignaréttur okkar sem einstaklinga yfir líkömum okkar jafnt í lífi og dauða er mikilvægur horsteinn í siðferði læknavísindanna í dag. Einstaklingar eru líka mun fúsari nú en áður til að veita vísindunum lið með því að ánefna háskólum og rannsóknarstofnunum líkama sína að þeim látnum. Nú þegar hafa yfir 3600 einstaklingar af fúsum og frjálsum vilja ánefnt verkefni Gunthers von Hagen líkama sína og yfir 100 gjafar hafa verið plastaðir. Það er því engin ástæða til að fetta fingur út í sýningu eins og Body Worlds nema að þessi réttur einstaklinganna hafi verið vanvirrtur.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.