Hlutverk verkalýðsfélaga á nýrri öld

Kjör launafólks hafa tekið ótrúlegum stakkaskiptum á síðustu 100 árum. Þetta er vitaskuld að stærstum hluta því að þakka að framleiðni launafólks hefur aukist til muna með aukinni menntun og tækniþekkingu. En verkalýðsfélög hafa einnig átt hlut að máli.

Kjör launafólks hafa tekið ótrúlegum stakkaskiptum á síðustu 100 árum. Þetta er vitaskuld að stærstum hluta því að þakka að framleiðni launafólks hefur aukist til muna með aukinni menntun og tækniþekkingu. En verkalýðsfélög hafa einnig átt hlut að máli. Barátta þeirra fyrir hærri launum hefur reyndar líklegast aðallega skilað sér í aukinni verðbólgu í gegnum tíðina. Sú áhersla sem verkalýðsfélög hafa lagt á „hækkun lægstu launanna” á líklega stóran þátt í því að misskipting tekna er minni hér á landi en víða annars staðar. Erfitt er hins vegar að átta sig á því hvort þessi jöfnuður hefur leitt til þess að lægstu launin séu hærri en þau annars væru eða hæstu launin lægri en þau annars væru.

Mikilvægasta starf verkalýðsfélaga á liðnum hundrað árum hvað varðar kjör launafólks í víðum skilningi er líklega barátta þeirra fyrir auknum réttindum launafólks. Í dag gilda alls kyns reglur um vinnumarkaðinn. Sumar þeirra eru vísast óþarfar en margar hafa bætt réttarstöðu launafólks gagnvart vinnuveitendum sínum á mikilvægan hátt. Í þessu sambandi má nefna lög um vinnudeilur, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög og reglur um vinnutíma (þótt þau séu ef til vill orðin ögn íþyngjandi í seinni tíð) og lög um fæðingarorlof.

Til þess að verklýðsfélög haldi áfram að þjóna hagsmunum launafólks í framtíðinni er mikilvægt að starfsemi þeirra breytist í takt við þarfir launafólks. Sumt af því sem hingað til hefur verið á könnu verkalýðsfélaga, s.s. lífeyrissjóðir, ætti í dag að tilheyra verksviði annarra stofnanna. Hvað lífeyrissjóðina varðar horfa þessi mál vonandi til betri vegar. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinga. Þetta frumvarp kveður á um að launþegar eigi rétt á að velja sér lífeyrissjóð að vild. Hingað til hafa flestir kjarasamningar kveðið á um skylduaðild að ákveðnum lífeyrissjóðum sem oft er stjórnað af forystumönnum verkalýðsfélaga og forystumönnum atvinnurekenda. Slíkt er vitaskuld tímaskekkja eftir tilkomu þróaðra fjármálamarkaða hér á landi.

Enn mikilvægara er þó að breytingar eigi sér stað á starfsemi verkalýðsfélaga hvað vinnudeilur og kjarasamninga varðar. Eins og allir vita eigum við Íslendingar heimsmet í töpuðum vinnustundum vegna verkfalla. Verkföll eru svo tíð á Íslandi og vara að jafnaði svo lengi að þau hafa talsverð neikvæð áhrif á þjóðarframleiðslu og þar með á velsæld launafólks. Afar brýnt er að breytingar eigi sér stað á lögum um vinnudeilur sem gera aðilum vinnumarkaðarins kleift að leysa vinnudeilur án þess að langvarandi vinnustöðvanir komi til sí og æ.

Deiglan óskar verkafólki til hamingju með daginn.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)