Ljúfar lyfleysur

Margsinnis hefur í rannsóknum komið fram að inntaka lyfleysu virðist oft hafa áhrif á líðan fólks til jafns við það sem virkt lyf gerir. Er þá ekki bara þjóðráð næst þegar að tvær verkjastillandi eru ekki við höndina á slæmum degi að taka bara tvær sakkaríntöflur – og sjá hvað gerist!?

Oft og margsinnis hefur komið fram í samanburðarrannsóknum að inntaka lyfleysu (efni án nokkurra virkra lyfjaþátta, e. placebo) virðist oft hafa áhrif á heilsu og líðan til jafns við það sem raunverulegt virkt lyf gerir. Þannig er oft að ef fólki er t.d. sagt að verið sé að gefa því verkjadeyfandi lyf, þá finnur það til minni sársauka. Áhrifin hafa hingað til verið rakin til sálfræðilegra þátta.

Í nýlegum rannsóknum hefur þó verið sýnt fram á að sálfræðilega útskýringin sé ekki alls kostar rétt. Að hún sé að minnsta kosti ekki eina skýringin. Í ljós hefur komið að þegar lyfleysu er blandað við lyf sem hindrar virkni endorfíns – sem eru náttúruleg ‘verkjalyf’ líkamans – þá koma engin lyfleysuáhrif fram. Þannig er ljóst að endorfínin hljóta að spila eitthvert hlutverk í áhrifunum sem lyfleysan virðist orsaka.

Rannsókn gerð þessu til stuðnings hefur nú sýnt fram á að lyfleysur virka verkjastillandi með því að ýta undir losun endorfíns í líkamanum. Í henni voru fjórtán karlmenn fengnir til þess að taka inn lyf sem þeim var sagt að gætu – eða gætu ekki virkað verkjastillandi. Til að vekja sársauka fengu mennirnir ákveðna inngjöf í kjálka, sem þeir áttu á 15 sekúndna fresti að meta á skalanum 1-100. Flestir mátu þeir sársaukann á um 30.

Þetta var hinsvegar gert til þess að rannsakendur gætu að viðföngunum forspurðum stjórnað því að stöðugur sársauki væri til staðar. Á þann hátt var hægt að leika á líkamann sem undir venjulegum kringumstæðum seytir sínu endorfíni sem síðan linar sársaukann lítillega með tímanum. Þannig voru aðskilin áhrif endorfínsins frá áhrifum lyfleysunnar, svo að öll verkjastilling sem fram kæmi yrði þá af völdum hennar.

Eftir inngjöf lyfleysunnar fullyrtu allir að sársaukinn hefði minnkað. En fullyrðingar þeirra einar og sér hefði eftir sem áður verið hægt að flokka undir það að vera af sálfræðilegum toga. Því var brugðið á það ráð að setja í lyfleysublönduna geislavirkt efni sem binst sömu viðtökum og endorfínið gerir og heilinn síðan skannaður. Þetta gerði þeim kleift að fylgjast með því hversu mikið af endorfíni var framleitt í heila mannanna fjórtán á hverjum tímapunkti. Fyrir sársaukann, eftir sársaukann og síðan eftir lyfleysuinngjöf.

Skannið leiddi í ljós að eftir að lyfleysan var komin í kerfið, byrjaði heilinn að losa meira af verkjastillandi endorfíni. Rannsóknin sýnir því fram á að lyfleysuáhrifin virðast vera í samkurli með hinu eðlislæga verkjastillandi kerfi líkamans. Lyfleysuáhrifin séu því fjarri því að vera eingöngu sálfræðileg – heldur verkar lyfleysan í gegnum eðlilega varnarferla líkamans.

Það er því spurning hvort að næst þegar tvær verkjastillandi eru ekki við höndina á slæmum degi sé ekki ráð að taka bara tvær C-vítamín eða tvær sakkaríntöflur – og sjá hvað gerist!

Heimildir:

New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.