Tvíhöfðar í borgarstjórn

sdfdÍ aðdraganda borgarstjórnarkosninga er rétt að velta því fyrir sér hvort glasið sé hálffullt, hálftómt eða hvort þingheimur sé jafnvel orðinn uppfullur af sjálfum sér.

Geta menn skipt starfskröftum sínum jafnt milli tveggja starfa, eða situr annað alltaf á hakanum?

Það er segin saga að það segi ekki af einum. Í íslenskum stjórnmálum er það regla frekar en undantekning að menn reyna að ota sínum tota á sem flestum stöðum. Kannski er það ekkert skrítið: lungi allra stjórnmálamanna kom á þing með keimlíkan bakgrunn. Ferillinn hófst jafnan á stólauppröðun á flokksfundum uns menn klifruðu hægt og rólega upp flokkstigana og lögðu sig í framkróka við að stoppa stuttlega við á öllum réttu stöðunum – og umfram allt: pössuðu sig á að styggja enga! Sökum þessa er því miður einsleitt um að litast á Austurvelli. Það kemur því kannski fáum á óvart, að eftir að einn þingmaður lagði á vaðið og tók sæti í borgarstjórn samhliða þingstörfum sínum hafi hersingin tygjað klárinn. Niðurstaðan: jú, fjöldi þingmanna er orðaður við sæti á framboðslistum flokkanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Hvatar stjórna aðgerðum manna – flóknara er ekki. Þetta er svo sem ekkert mín speki, en er ágæt engu að síður, enda hafa menn fengið eins og eitt stykki Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir þessa einföldu rökhugsun. Friedman orðaði það samt örugglega best þegar hann benti á að ef þú tekur peninga af þeim sem vilja vinna til borga þeim sem sitja auðum höndum – surprise, surprise! – þá muni atvinnuleysi aukast!

Nei, segja sumir – hvatar hafa engin áhrif! Jæja, spyrjið Svía: á degi hverjum tilkynna 300.000 manns veikindaforföll í landinu. Hvers vegna, eru Svíar kannski heilsuveilli en aðrir? Nei, rúmar reglur um veikindadaga eru mönnum hvati til að sitja heima. Kæru lesendur – kyrjum nú nú öll saman í kór! – hvatar hafa nefnilega áhrif á hegðan manna.

Líka stjórnmálamanna.

Laun alþingismanna hafa gjarna verið bitbein. Sumum þykja þau of lág og það sé ástæða þess að hækka þau. Gott og vel, það er önnur umræða. Sumir þingmenn drýgja samt tekjurnar: fara á sjó, sitja í bankaráði Seðlabankans – eða slá þessa bara upp í kæruleysi, fá sér sjúss, fara á ball á Austurlandi, trylla lýðinn og skora 3ja stiga körfu á eigin vallarhelmingi.

Enn aðrir setjast í borgarstjórn samhliða þingstörfum.

Bökkum aðeins. Er það skilningur lesenda á gangvirki vinnumarkaðar að menn geti almennt gegnt tveimur dagvinnum án þess að annað starfið sitji á hakanum? Varla! Eða eru þingmenn kannski svo rosalega uppfullir af sjálfum sér að telji að hálfir starfskraftar þeirra séu verðmætari en full atorka flokkssystkina þeirra? Eða – og ræðum nú aðeins um hvata! – eru þingmenn virkilega að sækja í borgarráð til að drýgja tekjurnar?

Kannski.

Peningar eru nefnilega besti hvati sem til er. Þeir eru í senn smurolían, nítróið og spoilerkittið á markaðshagkerfinu – og hvers vegna ættu þeir ekki að setja mark sitt á stjórnmál eins og alla aðra kima þjóðfélagsins?

Auðvitað vinna menn vonandi ánægjunnar og atorkunnar vegna – þingmenn líka! – en fáir myndu hins vegar mæta til vinnu ef viðurkenningarskjal leysti launaumslagið af hólmi.

Við hljótum að vona að þingmenn sýni kjósendum þá lágmarksvirðingu að sinna dagvinnu sinni af fullu kappi og hverfa frá þeirri hugmynd að sitja í borgarráði samhliða þingsetu. Annað ætti að útiloka hitt. Láti þeir sér ekki segjast sýna þeir kjósendum, samstarfsmönnum sínum á þingi – og umfram allt vinnandi fólki í landinu meiri vanvirðingu en orð fá lýst.

Einhverjir þingmenn munu samt áreiðanlega freistast til að tvöfalda launaumslagið og setjast í borgarstjórn. Hvatinn er einfaldlega of sterkur. En munið: um leið læðist sá grunur að okkur, að ekki sé um nauðsynlega hlekki í flokkskeðjunum að ræða – heldur týnda hlekki sem hafa of lengi verið bundnir á klafa flokkanna.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)