Besta staðsetning innanlandsflugvallar

Augljósasti kosturinn í málefnum innanlandsflugs er sá sem er einna minnst í umræðunni. Við megum ekki láta eiginhagsmuni fárra og kjarkleysi stjórnmálamanna afvegaleiða okkur heldur krefjast skynsamlegrar lausnar.

Það er oft áhugavert að fylgjast með umræðu um það sem hægt væri að kalla eilífðarmál. Mál sem allir hafa skoðanir á en ráðamenn þora ekki að taka af skarið í af ótta við óvinsældir kjósenda.

Síðustu árin hefur flugvallarmálið verið eitt heitasta eilífðarmálið. Á að vera flugvöllur í Vatsmýri og hvar ef ekki þar?

Það er öllum ljóst að Vatnsmýrin er eitt verðmætasta „óbyggða“ svæði landsins. Svæði sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu skipulags í Reykjavík og í raun fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Það stendur allri umræðu um skipulag mjög fyrir þrifum að enginn virðist hafa kjark til að taka afstöðu í málinu.

Aðilar R-listans hafa reynt að þæfa málið með öllum mögulegum aðferðum og færa ábyrgð frá sér með kosningum um völlinn. Sjálfstæðisflokkurinn kynnti hugmyndir um skipulag í sumar en hafði ekki dug til að taka á Vatnsmýrarmálinu. Klassískt eilífðarmál.

Í mínum augum er augljóst að flugvöllur á ekkert erindi í Vatnsmýri. Svæðið á að nýta undir byggð, minna vega svo – en vega þó – sjónarmið um öryggi. Þá stendur eftir spurningin um hvar hann á að vera.

Löngusker í Skerjafirði hafa verið nefnd til sögunnar. Vissulega glæsileg hugmynd og mannvirki sem við gætum montað okkur af. Þannig yrði völlurinn nánast bara fluttur nokkra metra – landsbyggðarfólk gæti enn lent í 101, íbúar skerjafjarðar fengju enn að berja augum og hlýða á málmfuglana sína og stjórnendur Flugfélagsins gætu enn skroppið í miðbæinn í hádegismat. Augljóslega sigur fyrir alla…

…og þó. Eins glæsileg og snjöll og mér finnst þessi hugmynd líst mér ekki á hana. Kostnaðurinn er verulegur og varla réttlætanlegur á meðan til eru mun betri og hagstæðari kostir.

Af þeim hugmyndum sem lifað hafa af gagnrýni flug- og veðurfræðinga hefur Álftanesi verið haldið hæst á lofti. Þar er pláss ef hægt er að fá fugla merkurinnar til að færa sig um set. Kostnaðurinn yrði mun minni en við uppfyllingu á Lönguskerjum og þó leiðin að stjórnarráðsreitnum lengist er það óverulegt. Sérstaklega ef hugmyndir um vegtengingu við miðbæjarsvæðið yrðu að veruleika. Hins vegar er þaðan aðeins um 15-20 mínútna akstur að stærsta flugvelli landsins.

Þar komum við að valkosti sem hefur verið ótrúlega lítið í umræðunni. Keflavíkurflugvöllur er til staðar og með allt sem til þarf að bera. Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur þegar gjörbreytt umferð milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar og munurinn verður enn meiri þegar henni lýkur.

Trausti Valsson hugmyndasmiður Lönguskjerjavallar sagði í viðtali í Kastljósinu á dögunum að það væri lítið vit í að hafa tvo stóra flugvelli á svona litlu svæði. Ég get tekið undir það. Það er hins vegar enn meiri vitleysa að leggja þá báða niður og flytja út í Skerjafjörð. Gott og vel að það sé pláss fyrir flugbrautirnar þar, en hvað með byggingar, gríðarstór flugskýli og annað sem til þarf við alþjóðaflugvöll?

Langskynsamlegasta lausnin er að flytja miðstöð innanlandsflug á Keflavíkurflugvöll. Þó það taki núna aðeins 5-10 mínútur að aka frá Reykjavíkurflulgvelli að höfuðstöðvum bankanna eða stjórnarráðsreitnum er ekki sjálfgefið að það þurfi alltaf að vera þannig. Er það virði margra milljarðatuga af skattfé að sleppa við hálftíma akstur aukalega?

Auk landbyggðarfólks (sem ég telst sjálfur til) og alþingis- og bankamanna sem vinna í miðbænum og þurfa að ferðast innanlands eru nokkrir heimsborgarar sem vilja flugvöll áfram í miðbænum. Þeir segja að engin höfuðborg geti verið án flugvallar. Sumir benda meira að segja á að það er flugvöllur í næstum miðri London. Við þessu eru þrjú augljós svör:

London er ein stærsta borg – ef ekki sú allra stærsta – í Evrópu að flatarmáli svo skipulags og landfræðilega er það engan vegin sambærilegt við Reykjavík.

City-flugvöllur þjónar einu stærsta viðskipta- og fjármálahverfi heims í milljónaborg og þó Jón Ásgeir og Björgólfur Thor séu búnir að fá sér einkaþotur held ég þeir bæti ekki upp fyrir mannfæðina hér.

Takið tímann sem það tekur að fara frá flugvöllum í miðbæinn í þessum borgum sem menn vilja bera Reykjavík saman við og berið saman við akstur milli Reykajvíkur og Leifsstöðvar. Hugsið svo um þærsamböngubæturnar sem eru fyrirhugaðar og ekki síst: Þær sem eru mögulegar fyrir milljarðatugina sem sparast við að flytja innanlandsflug að Keflavíkurflugvelli.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)