Ökumenn, axlið ábyrgð

Stærsta umferðarhelgi ársins nálgast sem óð fluga með tilheyrandi álagi á vegakerfið, lögreglu og ökumenn landsins. Mikið hefur verið rætt um umferðaröryggismál að undanförnu og spurningin er hvað þú ökumaður góður ætlar að gera til að bæta öryggi í umferðinni.

Sumarið er tíminn þegar leið flestra landsmanna liggur um þjóðvegi landsins. Markmið hvers ökumanns er venjulega að komast á milli staða á sem skemmstum tíma. Þó verður hver einstaklingur að hafa í huga í upphafi ferðar að sá tími sem áætlaður er til ferðarinnar afmarkast af þeim hraðamörkum sem gilda á vegum landsins. Því miður virðast ekki allir ökumenn vera meðvitaðir um þá staðreynd og meðan það ástand ríkir er óhjákvæmilegt að eyða umtalsverðum fjármunum úr ríkissjóði til eftirlits með framkomu borgaranna á vegum landsins.

Til þess að auka umferðaröryggi stendur samgönguráðuneytið í samvinnu við Umferðastofu, Vegagerðina og ríkislögreglustjóra nú fyrir sérstöku umferðarátaki sem standa mun í þrjá mánuði. Um 40 milljónum króna verður varið til verkefnisins að þessu sinni en um er að ræða viðbót við hefðbundið eftirlit lögreglu. Áherslan er lögð á að stemma stigu við hraðaakstri og að auka bílbeltanotkun þar sem slíkt skilar mestum árangri í baráttunni við alvarlegri slys og banaslys.

Átakið er hluti af stærri aðgerðaáætlun í umferðaröryggismálum sem samgönguráðherra kynnti fyrir u.þ.b. ári síðan og samþykkt var af Alþingi í vor sem hluti af samgönguásætlun. Vonast er til að aðgerðirnar skili þeim árangri að alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 4,8 og dauðaslysum fækki að jafnaði um 2,5. Árangur af verkefninu verður metinn og er það markmið stjórnvalda að árið 2016 verði fjöldi alvarlegra slasaðra og látinnna sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum. Til að ná því markmiði hefur aðgerðum sem ætlað er að auka umferðaröryggi verið forgangsraðað. Á árunum 2005-2008 er áformað að eyða 1.540 milljónum króna til umferðaröryggisaðgerða. Meðal þeirra aðgerða sem grípa á til auk ofangreins umferðarátaks sem nú er í gangi eru leiðbeinandi hraðamerkingar sem þegar eru að einhverju leiti komnar til framkvæmda, eyðing svartra bletta, umferðaröryggi í námskrá grunnskóla, öryggisbeltanotkun í hópbifreiðum, forvarnir erlendra ferðamanna og girðingar til að hindra lausagöngu búfjár. Markmiðin sem sett erum fram í áætlun ráðherra eru skýr og mælanleg en oft er erfitt að finna mælanleg markmið í löggæslu. Vonandi kemur aðgerðaráætlunin til með að skila tilætluðum árangri. Kostnaður við áætlunina er mikill en að sama skapi er tjón af hverju banaslysi í umferðinni óbætanlegt.

Hér að ofan er rakið hvað ríkið ætlar sér að gera til að fækka alvarlegum slysum í umferðinni. En í raun og veru er það undir okkur ökumönnum komið hvort umrædd umferðaröryggismarkmið náist. Það gerum við með því að sýna ábyrgð í akstri og stilla okkur inn á að fara að gildandi reglum í umferðinni. Nú styttist í stærstu ferðahelgi sumarsins og því brýnt að við ökumenn tökum okkur tak. Aktu eins og barnið þitt sé statt í bílnum sem þú ert að mæta, eins og amma þín sé á reiðhjólinu sem þú tekur fram úr og sýndu í verki að þig langi til að koma farþegum þínum heilum heim. Góða ferð.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.