Borgarstjórinn í Lundúnum

Stærsta samhangandi borgarsvæði Evrópu er samsett úr 33 sveitarfélögum. Engu að síður fengu Stór-Lundúnir borgarstjóra árið 2000, hinn ‘Rauða’ Ken Livingstone. Af hverju? Og hvernig hefur honum reitt af?

Í kjölfar hryðjuverkanna sem framin voru í Lundúnum í þar síðustu viku mátti sjá í sjónvarpinu viðtöl við ýmsa ráðamenn Í Bretlandi og víðar. Borgarstjóri Lundúna var þeirra meðal og kom fram fyrir hönd borgarbúa. Ef sprengingarnar fjórar hefðu hins vegar sprungið fyrir sex árum síðan hefðu ekki verið tekin viðtöl við borgarstjóra Lundúna. Ástæðan er sú að þá var embættið einfaldlega ekki til.

Borgarsvæðið Stór-Lundúnir (Greater London) er saman sett úr 33 misstórum sveitarfélögum. Þeir sem hafa heimsótt Lundúnir kannast væntanlega að einhverju leyti við City, Westminster, Southwark og Greenwich svo dæmi séu nefnd. Allt eru þetta dæmigerð sveitarfélög með kjörna fulltrúa.

Eðli málsins samkvæmt þá taka borgarsvæði fremur lítið tillit til innri sveitarfélagamarka þegar úr er orðin ein samfelld byggð (e. urban area) eða jafnvel samfellt atvinnusvæði (e. metro area). Langt um liðið síðan þetta varð veruleikinn í borginni við Thames, en um um miðja síðustu öld var orðið til verulegra baga. Augljóst var að sameiningar eða mjög skipulagðrar og virkrar samvinnu var þörf til að stuðla að skilvirkni og ná samlegð út úr helstu innviðum borgarsvæðisins, einkum samgöngukerfis.

Ekki kom til sameiningar, hver sem ástæðan er, en niðurstaðan varð Höfuðborgarráð Lundúna, The Greater London Council, stofnað eftir lagasetningu breska þingsins árið 1965. Höfuðborgarráðið var hins vegar ekki langlíft. Það var lagt niður árið 1986 eftir þrálátar deilur milli Margaret Thatcher, þáverandi forsætisráðherra, og ‘Rauða’ Ken Livingstone, forstöðumanni Höfuðborgarráðsins. Þessi borgarfulltrúi Verkamannaflokksins í Lambden átti hins vegar síðasta orðið í orrahríð sinni við Járnfrúna. Hann var kjörinn fyrsti borgarstjóri Lundúna árið 2000 í kjölfar þess að Lög um Höfuðborgarstofu Lundúna, The Greater London Authority Act, tóku gildi árið áður. Greater London Authority eða GLA var eitt af loforðum Breska Verkamannaflokksins fyrir kosningarnar 1997. Fyrsta kosningin til embættis borgarstjóra þótti æði spennandi en endaði á þá vegu að Ken Livingstone sem í upphafi sóttist eftir embættinu fyrir hönd Verkamannaflokksins hlaut kosningu sem óháður frambjóðandi.

Bæði borgarstjóraembættið og Höfuðborgarstofan virðast hafa verið tilefni þó nokkurra deilna og umræðu í Bretlandi, bæði í aðdraganda og fyrstu ár sín. Vikublaðið Economist hefur t.a.m. bent á að valdsvið borgarstjórans í Lundúnum sé frekar óljóst og raunverulegt vald sé enn í höndum sveitarstjórnum hinna 33 sveitarfélaga (Economist: “How Powerful”, 9.des. 1998). Livingstone sjálfur hefur einnig hlotið bæði sanngjarnt hrós og ósanngjarna gagnrýni fyrir að vera mun kapitalískari í hugsun nú en á árum áður.

Megintilgangur embættisins virðist þó ekki vera sá að drottna yfir Lundúnum og sveitarfélögum þess, a.m.k. ef taka má mark á heimasíðu embættisins. Þar virðist borgarstjóri Lundúna fyrst og fremst hlutverki málamiðlara og ímyndarsmiðs.

Hvoru tveggja virðist vera mjög gagnlegt fyrir Lundúnir þegar tekið er mið af þeim aðstæðum sem borgarsvæði heimsins nú búa við. Bæði virðist krafa almennings um aukna sjálfbærni borgarsvæða aukast jafnt og þétt auk þess sem borgarsvæði heimsins eiga í síharðnandi samkeppni sín á milli um fólk, fjármagn og þekkingu. Ímynd út á við og leiðarljós og strategía inn á við eru slíkri baráttu nauðsynleg ef raunverulegur árangur á að nást.

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að mæla beinan árangur embættisins til þessa. Tímaskali verkefnanna er langur og þau oft erfið viðureignar. Livingstone og félagar hafa þó rutt brautina fyrir gjaldtöku af bílaumferð og segja ýmsir að þarna megi mæla eina raunverulega árangur embættisins til þessa (Economist: “London’s Congestion Charge”, 7. júlí 2005).

Maður hefur þó efasemdir um að jafn pólitískt fyrirbæri og GLA sé virkilega nauðsynlegt til að skapa sameiginlega sýn og samþætta helstu mál. Er ráð með 25 kjörnum fulltrúum og borgarstjóra úr röðum allra helstu flokka Bretlands virkilega nauðsynlegt til að samræma og skapa sameiginlega ímynd og stefnu í málaflokkum sem ná yfir sveitarfélaga-mörk?

Hvað sem efasemdunum líður þá virðist framtíð GLA nokkuð björt, hvort sem það er í jafn pólitískum búningi og nú er eða ekki. Samkeppni milli borgarsvæða um fólk, fjármagn og þekkingu virðist vera rétt að hefjast, og Lundúnir hafa not fyrir samþættingu á þeim vettvangi ekki síður en önnur borgarsvæði sem saman standa úr mörgum sveitarfélögum.

Helstu heimildir:

Vefur vikublaðsins Economist

Vefur Höfuðborgarstofu Lundúna

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.