Sjúklegur veðuráhugi

Sumarleyfin eru nú í fullum gangi og svo virðist sem að þessum árstíma fylgi ávallt sjúklega mikill áhugi á veðrinu. Ástæðan er sú að fólk bindur miklar vonir við veðrið telur að það ráði úrslitum um það hvernig fríið heppnist. Í þessum pistli er þessari áráttu landans gerð skil.

Frétt sem birtist í gær um met aðsókn Íslendinga eftir sólarlandaferðum í sumar kom fáum á óvart. Ferðaskrifstofur vinna nú hörðum höndum að því að fá fleiri sæti og hótelnætur til að stytta langa biðlista eftir sólinni, enda hefur veðrið ekki verið upp á sitt besta undanfarið. Rigning og skýjað. Íslenska þjóðin er sólelsk þjóð sem lætur ekki bjóða sér rigningu og ský. Víða heyrast því óánægjuraddir þar sem tíðinni er blótað og reynt að leita leiða til að koma kroppnum í sól og sumaryl – nokkuð sem margir eru búnir að láta sig dreyma um síðan í vetur.

Í fréttinni kom fram að fjöldi fólks væri að fresta sumarfríinu sínu vegna veðurs. Núna væri einfaldlega ekki nógu gott veður til að hafa það gott í fríinu. Það er nokkuð magnað til þess að hugsa hvað væntingar fólks eru bundnar veðrinu. Það fyrsta sem fólk minnist á þegar það hittist er veðrið og skoðun þess á því þá stundina. Spjall um veðrið er oft kallað kurteysishjal, en miðað við þann veðuráhuga sem nú stendur yfir, þá er ekki víst að um sé að ræða innantómt hjal, heldur er fólk gagntekið af áhuga á fyrirbærinu.

Ástæðan er að mörgu leiti sú að fólk tengir líðan sína við veðrið. Því líður vel þegar sólin skín, illa þegar rignir. Þess vegna er forsendan fyrir því að hafa það gott í fríinu sú, að veðrið sé gott. Halda mætti að einstaklingar sem alið hafa manninn hér á landi gerðu sér grein fyrir því að sá veðurguð sem ríkir yfir íslandi er óútreiknanlegur en því fer fjarri.

Þegar til sólarlandanna er komið, þá hættum við ekki að vera með veðrið á heilanum. Fyrsta verk á hverjum morgni er að horfa út um gluggann og mæna á skýin. Eða athuga hvort að það séu ský yfirleitt, því viðkomandi er jú í sólarlandi. Því næst sendir íslendingur nútímans sms skilaboð heim, til að gefa skýrslu. Hún gæti litið svona út: „Hæ! Hér er æðislegt veður! Steikjandi hiti og sól! 🙂 Skál!“ Eða svona: „Ömurlegt veður! Rigning, 🙁 garg!“ Ekki er minnst einu orði á guðdómlegan mat og fallegt umhverfi þar sem gott er að slaka á. Að því búnu eru önnur skilaboð send til að forvitnast um veðrið heima. Ef það reynist vera gott tekur við mikil eftirsjá eftir að hafa farið til útlanda þegar góða veðrið er heima.

Hægt er að koma sér hjá þessari miklu spennu og væntingum tengdum veðrinu. Lausnin er einfaldlega sú að koma sér í rétt hugarfar. Það er verðugt verkefni fyrir verkalýðsfélögin að gefa út kynningarbækling um efnið, þar sem skjólstæðingarnir eru undirbúnir andlega og þeim hjálpað að binda vonir sínar við aðra hluti en veðurfarið á meðan sumarfríinu stendur. Þá gætu ferðaskrifstofur einnig gert svipað rit og reynt að koma fólki í skilning um alla þá dásamlegu þætti sem hægt er að gera innandyra – ef svo ólíklega vildi til að það myndi rigna á Spáni.

Sagt er að erfitt sé að kenna gömlum hundi að sitja og líklega á það við þessa um þjóð sem er svo samgróin því að horfa til veðurs. Enda ekki nema von. Nútímalegi íslendingurinn sem situr inni á hótelhergerginu á sundskýlunni – (en ekki úti því það er svo mikil úrkoma) og sendir sms skilaboð til að fá fréttir af tíðinni heima, er afkomandi bænda og sjómanna sem áttu lífsafkomu sína undir því að tíðin héldist góð yfir sumarmánuðina.

Að lokum er rétt að skoða veðurlýsingu á júní mánuði frá Veðurstofu Íslands, en þar stendur oðrétt: „Júní var frekar hlýr og sólríkur í Reykjavík. Meðalhiti var 10,5°C sem er 1,5 gráðum yfir meðallagi. Úrkoma í Reykjavík var samanlagt 40,2 mm og eru það um 80% af meðalúrkomu. Sólarstundir voru 208 og er það 40 stundum meira en í meðalári.“ Ekki svo slæmt?