Geimferðir NASA hefjast á nýÞrátt fyrir að geimferðir séu engin nýlunda og flokkist því varla undir nýjustu tækni og vísindi, þá ætlar ævintýraljóminn seint að hverfa af þessum lengstu ferðalögum mannsins. Á miðvikudag er fyrirhugað að geimflaugin Discovery hefji sig til lofts.Þrátt fyrir að geimferðir séu engin nýlunda og flokkist því varla undir nýjustu tækni og vísindi, þá ætlar ævintýraljóminn seint að hverfa af þessum lengstu ferðalögum mannsins. Það var því mörgum áfall þegar ferð geimskutlunnar Columbia endaði með ósköpum þann 1. febrúar 2003 eftir 16 daga rannsóknaferð um geiminn. Eftir slysið var öllum geimskotum NASA aflýst og var því framtíð geimferða og þó sér í lagi framtíð Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í hættu. Eftir ítarlega rannsókn á tildrögum slyssins setti rannsóknarnefnd fram kröfur um úrbætur á öryggismálum geimskota. Talsmenn NASA telja að ítrustu öryggiskröfum sé nú fullnægt og á miðvikudag er fyrirhugað að geimflaugin Discovery hefji sig til lofts.

Geimflaugin Discovery hefur áður gegnt svipuðu hlutverki. Eftir Challenger slysið í byrjun árs 1986 liðu um tvö og hálft ár þangað til geimferðir Bandaríkjamanna hófust á ný, einmitt með geimskoti Discovery. Til samanburðar má nefna að að þessum tveimur tímabilum undanskildum þá hefur geimskutlunum bandarísku verið skotið á loft í mesta lagi með örfárra mánaða millibili síðan þeim var hleypt af stokkunum í apríl 1981.

Mikið var fjallað um Columbia slysið á sínum tíma og muna því eflaust margir eftir örsökum slyssins: Lítið og fislétt brot af einangrun eldsneytistanka flaugarinnar brotnaði af og lenti á væng hennar á gífurlegum hraða. Orsakaði þetta rof í hitaeinangrun vængsins sem dugði til að granda flauginni við endurkomuna í lofthjúp jarðar. Eins og áður sagði þá telur NASA að nægilegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að geimferðir gangi örugglega fyrir sig. Meðal annars hefur 41 meiriháttar breyting verið gerð á geimskutlunni sjálfri auk fjölmargra minniháttar. Einnig er búið að stórauka möguleikana á að taka nákvæmar myndir af geimfarinu á öllum stigum geimferðarinnar. Yfir 100 myndavélar verða á 25 stöðum á jörðu niðri, tvær flugvélar í 60 þúsund feta hæð munu mynda flaugina í bak og fyrir og síðast en ekki síst þá mun flaugin stoppa nokkru áður en hún kemur að Alþjóðlegu geimstöðinni, þangað sem ferðinni er heitið, og taka 360° snúning á 9 mínútum. Á meðan mun áhöfn geimstöðvarinnar taka myndir af flauginni. Allar þessar myndi eiga svo að hjálpa sérfræðingum á jörðu niðri til að greina hvort skemmdir hafi orðið á ytra byrði flaugarinnar og þá hvort viðgerðar sé þörf. Ef til þess kemur hafa þrjár mismunandi aðferðir verið þróaðar til að gera við skemmdir á hitaeinangrun flaugarinnar.

Geimskutlur NASA eru komnar nokkuð til ára sinna og er áætlað að leggja þeim innan fimm ára. Þær eru hins vegar einn mikilvægasti hlekkurinn í smíði Alþjóðlegu geimstöðvarinnar því engar aðrar geimflaugar (á jörðinni) hafa sömu burðargetu. Þegar NASA frestaði geimskotum sínum fyrir rúmum tveimur árum stöðvaðist því uppbygging stöðvarinnar. Samstarfsaðilar NASA við Alþjóðlegu geimstöðina eru Rússneska geimferðastofnunin, Japanska geimferðastofnunin, Kanadíska geimferðastofnunin og nokkur aðildarríki Evrópsku geimferðastofnunarinnar en geimflaugar þessara stofnana gátu einungis sinnt brýnustu þjónustuverkefnum stöðvarinnar. Áhugamenn um geimferðir um heim allan munu því væntanlega krossleggja fingur á miðvikudaginn þegar Discovery hefur eina mikilvægustu för sína til þessa.

Latest posts by Óskar Hafnfjörð Auðunsson (see all)