Fyrir hönd hverra er samið ?

Á dögunum voru samþykktar breytingar á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Breytingarnar eru svo sannarlega með þeim róttækustu í langan tíma en þar má helst nefna að skerðingarhlutfallið lækkar um 19 %, en því ber svo sannarlega að fagna. Einnig var frítekjumarkið afnumið. En eru breytingarnar stúdentum við Háskóla Íslands fyrir bestu?

Í nýsamþykktum breytingum á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslensrka námsmanna er margt gott, en jafnframt margt sem betur mætti fara. Ljóst er að nokkur hópur lánþega mun tapa verulega á breytingunum. Með afnámi frítekjumarksins verða allir lánþegar með tekjur undir 521.000 kr fyrir kjaraskerðingu, þ.e. þeir fá lægri námslán í kjölfar breytinganna en þeir hefðu fengið ella.

Merkilegt hefur verið að fylgjast með undirbúningi og viðbrögðum við samningnum. Meirihluti lánasjóðsnefndar SHÍ, Röskva og Háskólalistinn, voru á móti því að beita sér fyrir lækkun skerðingarhlutfallsins og settu það ekki einu sinni inn í kröfur sínar. Frekar vildu þau leggja áherslu á hækkun grunnframfærslunnar. Afnám frítekjumarksins var heldur aldrei talin fær leið, heldur vildu þau þvert á móti hækka það. Þrátt fyrir þetta samþykktu þau tillögu stjórnarformanns LÍN um lækkunina og afnám fríítekjumarksins þegjandi og hljóðalaust. Þau státa sig svo af lækkun skerðingarhlutfallsins sem augljóslega er breyting tilkomin frá stjórnarformanninum, en ekki fyrir þrýsting þeirra. Stjórnarformaðurinn hefur nokkuð auðveldlega náð að snúa upp á námsmannahreyfingarnar og virðast hugsjónir meirihlutans því hafa fallið fyrir lítið.

Þrátt fyrir að forsvarsmaður Háskólalistans hafi í raun ekki verið svo hrifnn af tillögunum, sá hann sér ekki annað fært en að samþykkja þær þar sem fáránlegt þótti að skrifa ekki undir. Eins vildi hann meina að Stúdentaráð Háskóla Íslands myndi gera sig að fífli ef ekki yrði skrifað undir. Því er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að þessi fulltrúi okkar stúdenta hefði skrifað undir hvaða samning sem er til þess eins „að gera sig ekki að fífli“! Auk þess hefur hann bent á að það “útspil Vöku” að vera á móti samningnum ætti að sannfæra fólk um ágæti Haskólalistans og hans tilgang. Það virðist því sem svo að Háskólalistinn sé einvörðungu til, til þess eins að kjósa með annarri fylkingunni til að koma málum í gegn – eftir því sem hentar hverju sinni.

Fylkingarnar,Vaka og Röskva, eru ekki á móti hlutunum til þess að geta slegið því upp í næstu kosningabaráttu eða til þess eins að vera á móti. Þær eru einfaldlega oft ósammála um hugsjónir og aðferðir.

Röskva hefur í allri umræðunni státað sig af því og þakkað árangurinn því að námsmannahreyfingarnar eru sameinaðar á ný. Þó svo að það sé auðvitað gott og vel, er þó ekki að sjá að hagsmunum stúdenta sé á nokkurn hátt betur borgið. Virðist sem svo að meira púður hafi farið í að halda hinum námsmannahreyfingunum góðum en að vinna að bættari hag stúdenta við Háskóla Íslands. Þetta er auðvitað út í hött enda eru fulltrúar okkar kosnir af stúdentum við Háskólann til að vinna að þeirra hagsmunum og engra annarra. Engin fordæmi eru fyrir því að námsmannahreyfingar hafi samþykkt breytingar á úthlutunarreglum LÍN sem fela það í sér að hagsmunum hluta námsmanna er fórnað til að bæta kjör annarra.

Dagný Jónsdóttir, “alþingismaður námsmanna”, heldur áfram að sanna sig sem tryggur liðsmaður. Hún telur greinilega þörf á því að stíga fram fyrir sína gömlu fyllkingu og fagna niðurstöðunni. Hún talar um að lækkun skerðingahlutfallsins hafi lengi verið baráttumál námsmanna,- sem það hefur auðvitað verið. Hún var þó sem fyrrverandi háskólaráðsliði Röskvu í hópi þeirra námsmanna sem lengi komu í veg fyrir þessa hækkun með því að leggja eingöngu áherslu á hækkun grunnframfærslunnar. Dagný sér þó að sér, annað en gamla fylkingin, hvað varðar fögnuð við þessari niðurstöðu. Grunnframfærsla námslána hækkar um 3,8% með breytingunum en verðbólguspá fyrir mai 2005 – mai 2006 er um 4,1%. Ekki mikill sigur það!

Óviðunandi er að breytingar af þessu tagi sem gerðir eru í þágu kjarabaráttu stúdenta komi til með að skerða hagsmuni hluta þeirra. Meirihluti lánasjóðsnefndar SHÍ virðist þó vel geta sætt sig við þetta og skrifar undir breytingarnar fyrir hönd stúdenta við Háskóla Íslands. Það er áfellisdómur yfir meirihluta Stúdentaráðs við Háskólann að hann sé tilbúinn til þess að fórna mikilvægum hagsmunum hundruða stúdenta bara vegna þess að þeir sem græða á breytingunum eru fleiri en þeir sem tapa.

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)