Drekkum betri bjór

Þegar menn fara að búa sig andlega undir helgina og hin miklu átök við bjórinn sem mun fara fram þá er vert við hæfi að benda á að auk þess að vera gott sjálfstrausts meðal þá er bjór feikilega góður drykkur sem má einnig njóta bragðsins og gæðanna vegna.

Brooklyn Lager þykir einn besti sumarbjórinn

Undirritaður hélt á dögunum bjórsmökkunarkvöld heima hjá sér þar sem nokkrum vinum var boðið heim og voru smakkaðar nokkrar mismunandi tegundir af bjór. Það var farið vandlega eftir reglum bjórsmökkunarkvölda og þess gætt að blanda ekki of mikið af söltuðu snakki með (eyðir bragðinu) og að drekka drykkina í röð frá þeim ljósasta til þess dekksta.

Af þeim bjórum sem voru prófaðir þóttu þrír standa upp úr og skal þeim hér gerð frekari skil.

Hoegaarden Verboten Frucht

Hinn “forboðni ávöxtur” kemur frá hinum velþekktu bjórframleiðendum Hoegaarden. Þetta er ósýjað sterkt dökkt öl. Einkennandi maltsæta með ávaxtaundirtón og létt bragð af geri. Utan fagmáls þá er þessi bjór alveg feikilega bragðmikill og rennur ljúft niður. Menn skulu þó meðhöndla hinn forboðna ávöxt með gætni, áfengisstyrkurinn er 8,8%

Brooklyn Lager

Það er fleira gott heldur en Spike Lee og Woody Allen sem kemur frá Brooklyn, þessi bjór er bruggaður (að sögn bruggmeistaranna) á sama hátt og fyrir bannárin í Bandaríkjunum. Bragðið er gróft með humlum í aðalhlutverki, smá sítrusbragð nær endanum. Þessi bjór er alveg ómissandi sumarbjór og um að gera að skella sér með einn-tvo á ströndina. Styrkleiki: 5%

Fullers London Porter

Porter er sérstök tegund af bjór og kemur þessi frá Bretlandi eins og menn gætu hafa giskað á. Hann er margverðlaunaður fyrir gæði, bruggaður úr blöndu af brúnu Krista log súkkulaðimalti til að ná rjómakenndum keim og jafnvægi er náð með Fuggles humlum. Eins og innihaldið gefur til kynna er þessi bjór næstum meira nammi en bjór. Hann bragðast síðan jafnvel betur en hann hljómar. Alveg frábær til hátíðarbrigða. Styrkleiki: 5,4%

Fyrir utan það að vera afburðagóðir bjórar þá eiga þessir þrír bjórar annað sameiginlegt: þeir eru ekki seldir hjá áfengiseinokun ríkisins! Íslendingar búa nefninlega við það kerfi að það er líklegast einn starfsmaður ÁTVR sem ákveður hvaða bjór Íslendingar mega drekka frekar en annar.

Það má enginn kaupmaður prófa að flytja inn nokkra kassa af Hoegaarten Verboten Frucht til að sjá hvort einhver áhugi er fyrir honum. Þetta er hreinlega skelfilegt ástand.

Á síðasta ári jókst sala á innfluttum “premium” bjór í Danmörku um 300%. Allir helstu stórmarkaðirnir eru komnir með helstu bjórana eins og Leffe (frá Belgíu) upp á hillu hjá sér. Þar til viðbótar eru sérverslanir með vín komnar með mikið úrval af sjaldséðum bjórum.

Seinna í kvöld þegar menn byrja að hamra í sig Tuborg Grön tuttugustu og þriðju helgina í röð (fyrir utan smá Corona flipp í mars) þá mega þeir hugsa til þess að úti í hinum stóra heimi eru til lönd þar sem ríkisfyrirtæki ákveða ekki hvaða bjórar eru betri en aðrir heldur er það almenningur sjálfur sem ákveður það.

Góða helgi og skál!

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.