Piparprinsar – Nú fer hver að verða síðust

Mér til mikils hryllings komst ég að því að flestir prinsar á mínu reki eru hreinlega gengnir út. Draumur minn um konunglegt brúðkaup er svo gott sem úr sögunni. Ég hugsað með mér af hverju í ósköpunum ég hafi verið að samgleðjast þeim stöllum Mary Donaldson og Marie Cavalier, þær voru að stela mínum draumi! Hvað í ósköpunum er svona gleðilegt við það?

Á dögunum horfði ég á Jóakim prins í Danmörku gifta sig í annað sinn. Þetta var alls ekki fyrsta konunglega brúðkaupið sem ég fylgdist af gaumgæfni með í sjónvarpi og vafalaust ekki það síðasta.

Ég hef lagt það í vana minn að fylgjast vel með viðburðum sem þessum. Ég ákvað það nefnilega frekar ung að aldri að seinna meir skildi ég sjálf leika aðalhlutverkið í svona viðburði. Alla tíð síðan hef ég lifað mig inn í sjónvarpslýsingar Elísabetar Brekkan, kynnt mér gestalistann rækilega og ímyndað mér hvað mætti fara betur þegar ég sjálf geng inn kirkjugólfið í augsýn margra milljóna áhorfenda.

Það var svo núna um daginn, þegar umræddur Jóakim gekk að eiga Marie Cavalier, að ég áttaði mig á því. Mér til mikils hryllings komst ég að því að flestir prinsar á mínu reki eru hreinlega gengnir út. Draumur minn um konunglegt brúðkaup er svo gott sem úr sögunni. Ég hugsað með mér af hverju í ósköpunum ég hafi verið að samgleðjast þeim stöllum Mary Donaldson og Marie Cavalier, þær voru að stela mínum draumi! Hvað í ósköpunum er svona gleðilegt við það?

Ég greip því til minna ráða og komst að því að ekki er öll nótt úti. Ég fór í huganum yfir þau brúðkaup sem ég hef fylgst með undanfarin ár og tók saman lista yfir þá prinsa sem ég hef horft á festa ráð sitt og það sem meira er – og enn mikilvægara – útbjó ég lista yfir þá sem ég hef enn ekki horft uppá gifta sig í beinni útsendingu.

Fyrsta og fremsta ber að sjálfsögðu að nefna prinsana á Englandi, þá William og Harry. Því er ekki að neita að ég hef lengi ímyndað mér hvernig brúkaup okkar Willams verður. Þess vegna eru þær ansi ónotalegar fréttirnar sem berast mér reglulega frá Englandi þess efnis að erkióvinkona mín Kate Middleton sé um það bil að klófesta kauða. Það skal þó engin gefast upp, drengurinn er enn ógiftur og þau hafa hætt saman að minnsta kosti tvisvar sinnum undanfarin ár.
Það sama má segja um yngri bróður Williams, hinn rauðhærða og funheita Harry. Hann er enn ógiftur þó hann hafi reyndar undanfarin ár verið í tygjum við hina suður-afrísku Chelsy Davy. Í vor bárust þær (gleði)fréttir af þeim að sambandinu væri lokið en það var þó eitthvað borið til baka. Það er að minnsta kosti ljóst að Harry er ógiftur maður.

Eins og fram hefur komið eru þeir bræður í Danmörku, Jóakim og Friðrik, því miður gengnir út. Jóakim hefur þar að auki gifst tvisvar sinnum og því frekar óspennandi að verða hin þriðja heppna í hans efnum. Friðrik hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri en hann virðist vera hamingjusamlega giftur. Það er því óhætt að ráðleggja stúlkum í leit að prinsum að halda sig fjarri kóngsins Kaupmannahöfn enda engir kóngar í boði þar.

Í Svíþjóð er að finna hinn mjög svo myndarlega Carl Philip, hann er enn ógiftur þó hann hafi reyndar lengi verið í sambandi með Emmu Pernald. Carl er grafískur hönnuður en hefur undanfarin ár ferðast og unnið að heimildarmyndum. Allar líkur eru á að systir hans, krónprinsessan Viktoria verði fyrri til að gifta sig. Gangi það eftir eru að minnsta kosti tvö ár í að Carl Philip festi ráð sitt og því nægur tími til að næla í prinsinn.
Eini prinsinn í Noregi, Hákon Magnús, er giftur og því er óþarfi að fara nánar yfir málin þar á bæ.

Albert annar, prins af Mónakó er eins og flestum ætti að vera kunnugt enn ógiftur. Maðurinn er sonur Grace Kelly og því ekki einungis af konungsættum. Hann hefur um nokkurt skeið verið orðaður við sundkonuna Charlene Wittstock og hafa sögusagnir um meint brúðkaup þeirra á þessu ári verið háværar. Enn hefur þó ekkert verið staðfest í þeim efnum. Þó ber að taka fram að Albert verður fimmtugur í ár og setur það vissulega strik í reikninginn hjá undirritaðri. Einhverjar gætu samt sem áður verið áhugasamar og það er á hreinu að Albert er ógiftur maður í dag.

Að mínu mati eru framangreindir prinsar þeir allra eftirsóknaverðustu. Þó er listinn hvergi nærri upptalinn. Fyrir þær sem hafa mikinn áhuga á ólofuðum prinsum er vert að nefna Philippos prins á Grikklandi. Þó fjölskylda hans hafi reyndar verið rekin úr höllinni þar í landi áður en hann fæddist bera þau enn konunglega titla. Hann stundar nú nám við Georgetown háskólann í Washington. Wenzeslaus prins í Liechtenstein, eða Vince eins og hann er oftast kallaður, hefur verið orðaður við undirfatamódelið Adriana Lima um nokkurt skeið en hann og bróðir hans, Rudolf, eru þó báðir enn ógiftir og á besta aldri.
Þá má einnig nefna Azim prins af Brunei. Hann er af vellauðugum ættum og hefur lengi verið orðaður við hinar ýmsu kvikmyndastjörnur og módel en er þó enn ógiftur. Það er nokkuð ljóst að hér væri um að ræða ansi veglegt brúðkaup þar sem gestir í 25 ára afmælinu hans fengu að gjöf safariferð til Kenýa og veglegt gjafabréf í tannviðgerðir eða –endurbætur.

Það er ljóst að enn er um nokkuð auðugan garð að gresja þegar kemur að ógiftum prinsum í heiminum. Það er samt sem áður ekki hægt að líta framhjá því að nokkrir af þessum prinsum eru í samböndum og hafa verið um þó nokkurn tíma.

Þeim stúlkum, sem lengi hefur dreymt um konunglegt brúðkaup með öllu tilheyrandi er varla til setunnar boðið og er þeim ráðlagt að grípa strax til sinna ráða. Undirrituð hefur ákveðið, að vandlega íhuguðu máli, að sætta sig við að vera prinsessan á sínu heimili, fjarri kastljósi alheimsins, þó það hafi vissulega heillað um stund.

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)