Að verðmeta fólk

Oft á tíðum getur verið erfitt að meta verðgildi hluta og fæst erum við sennilega sammála um hvaða aðferðir eru notaðar og hver niðurstaðan verður. Það hlýtur að teljast enn flóknara að verðleggja manneskjur og hvað þá heilu þjóðirnar. Hvernig verður t.d. 35 ára áströlsk kona skyndilega metin á 143 milljarða íslenskra króna?

Oft á tíðum getur verið erfitt að meta verðgildi hluta og fæst erum við sennilega sammála um hvaða aðferðir eru notaðar og hver niðurstaðan verður. Það hlýtur að teljast enn flóknara að verðleggja manneskjur og hvað þá heilu þjóðirnar. Hvernig verður t.d. 35 ára áströlsk kona skyndilega metin á 143 milljarða íslenskra króna?

Simon Anholt er einn helsti sérfræðingur heims á viðskiptalegri ímynd þjóða og hefur meðal annars orðið frægur fyrir beita nýstárlegum aðferðum við að leggja mat á raunverulegt verðgildi ákveðinna persóna fyrir þjóðir þeirra. Anholt vinnur meðal annars sem ráðgjafi breska ríkisins í málum sem varða almannatengsl og markaðssetningu á Bretlandi.

Nýverið lagði Anholt mat á dönsku þjóðina og þá sérstaklega krónprinsessuna Mary Donaldson. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Mary væri 143 milljarða í króna virði fyrir danska ríkið en til samanburðar var heildarverðgildi ímyndar Danmerkur ríflega 9200 milljarðar íslenskra króna.

Ástæðuna fyrir verðmæti prinsessunnar má að mestu leyti rekja til stóraukins útflutnings danskra vara til heimalands Mary, Ástralíu. Þá eru þau hjónin, Mary og Friðrik krónprins talin hafa mjög mikil áhrif á aukinn ferðamannastraum til Danmerkur. Þau eru talin stuðla að því með óbeinum hætti að landið er sé huggulegt og að þar búi viðkunnanlegt fólk, svipað og þau sjálf. Með því að koma saman fram fyrir hönd Danmerkur auka þau áhuga heimsins á danskri vöru sem svo leiðir til aukins útflutnings.

En hvað er það við Mary sem gerir hana svona verðmæta, hver er hún í rauninni? Mary Donaldson er fædd árið 1972 og ólst upp á eyjunni Tasmaníu sem er hluti af Ástralíu. Faðir hennar er prófessor í stærðfræði. Hann starfar nú við Háskólann í Oxford. Móðir hennar starfaði í stjórnsýslu Háskólans í Tasmaníu en lést árið 1997.
Mary útskrifaðist frá Háskólanum í Tasmaníu árið 1994 með gráður í viðskiptum og lögum. Þegar hún kynntist Friðrik á sumarólympíuleikunum í Sidney árið 2000 vann hún fyrir auglýsingastofu þar í borg.

Strax í kjölfar þess að fregnir bárust af kynnum þeirra jókst útflutningur danskra vara til Ástralíu til muna. Sá útflutningur hefur haldið áfram að aukast og eftir tilkynningu frá dönsku krúnunni um trúlofun parsins í október 2003 og giftingu í kjölfarið í mai 2004 hefur ekkert lát verið á vinsældum dönsku þjóðarinnar í Ástralíu og raunar víða um heim.

Áðurnefndur Simon Anholt telur þó ekki sjálfsagt að verðgildi Mary sé varanlegt. Hún verði stanslaust að vekja athygli á sér, meðal annars í verkefnum sem ná út fyrir dönsku landssteinana. Anholt telur að Díana prinsessa hafi t.d. aukið verðgildi sitt talsvert með þátttöku í slíkum verkefnum. Mary er þó langt frá því að ná verðgildi hennar en hvað gerist verður tíminn einn að leiða í ljós.

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)