Síminn verði seldur hæstbjóðanda

Allt útlit er fyrir að tilkynnt verði um aðferð við sölu Símans á allra næstu dögum. Fjölmörg pólitísk sjónarmið eru uppi um hvernig standa beri að sölunni og mikilvægt er að þau verði látin lúta í lægra haldi fyrir eðlilegum viðskiptaháttum.

Ef marka má frétt Morgunblaðsins á laugardag hefur tekist samkomulag milli oddvita ríkisstjórnarflokkanna um tilhögun við sölu Símans. Þar kemur fram að niðurstaða þeirra Davíðs og Halldórs sé að fyrirtækið verði allt selt í einu lagi en að kaupandinn þurfi að samanstanda af þremur fjárfestum eða þremur aðskildum hópum fjárfesta sem hver um sig megi ekki eiga meira en 40 til 45 prósent í fyrirtækinu.

Af þessum fréttum er óljóst hvað nákvæmlega átt er við með hópi fjárfesta en vonandi er að nánari tilhögun kveði skýrt á um hvað átt sé við. Ekki er víst að þetta komi til með að skipta miklu máli þegar til kastanna kemur enda munu hópar sem bjóða saman í Símann hljóta að gera það á þeim grundvelli að þeir hafi sameiginlega hugmynd um hvernig þeir hyggist reka fyrirtækið.

Ef eina skilyrðið sem sett er við söluna er að enginn einn fjárfestir megi eiga meira en 40 til 45 prósent hlýtur það að teljast skárri niðurstaða en margir óttuðust. Ef þessir hópar geta svo gert tilboð í Símann og hæstbjóðandi hlýtur hann, án frekari skuldbindinga, þýðir það vitaskuld að menn geta tekið þátt í verkefninu á þeirri forsendu að ráðandi aðili í samstarfinu kaupi þá aftur út og þannig verði Síminn kominn undir stjórn eins kjölfestufjárfestis.

Skilyrðið um hámarkseign eins eiganda er því ekkert annað en friðþægingarákvæði fyrir stjórnmálamennina. Það er hins vegar mun alvarlegra ef satt reynist sem stóð í innsíðufrétt Morgunblaðsins að ásamt því að meta tilboð út frá verði þá verði framtíðarsýn bjóðenda um rekstur fyrirtækisins lögð til grundvallar ákvörðunar um við hverja skuli samið.

Svona þrugl býður hættunni heim. Eina vísbendingin sem eitthvað mark er takandi á um framtíðaráform er verðið sem menn eru tilbúnir að greiða. Öðrum skilyrðum hljóta menn að taka með miklum fyrirvara nema tilgangurinn sé sá að beita slíku fyrir sig til að rökstyðja sölu til einhvers annars en þess sem hæsta verðið vill greiða.

Það er klárt að eina eðlilega sjónarmiðið sem stjórnvöld geta haft við sölu á Símanum er að fá sem hæst verð fyrir félagið. Ef ríkisstjórnin hyggst nota söluna til að ná einhverjum öðrum pólitískum markmiðum þá er það siðlaust – rétt eins og það er siðlaust þegar stjórnendur hlutafélaga láta hagsmuni hluthafa víkja fyrir persónulegum markmiðum og ávinningi.

Þegar nýtt eignarhald hefur skapast á Símanum er óeðlilegt að þeim eignarrétti hvíli aðrar kvaðir en á eignarrétti almennt. Í eignarrétti felst meðal annars réttur til ráðstöfunnar og framsals. Þessi réttindi þurfa að vera til staðar og ómenguð ef Síminn á í raun að breytast úr ríkisstofnun í einkafyrirtæki.

Með sölu á Símanum afsalar ríkið sér öllum eignarréttindum. Það getur ekki verið öðruvísi. Þess vegna á ríkið að hegða sér nákvæmlega eins og allir aðrir seljendur eigna og hugsa eingöngu um að fá sem hæst verð.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)