Áhrifamesta smáríki heims?

Páfinn er án vafa einn valdamesti maður í heimi. Í hinni pólitísku alþjóðaumræðu gleymist oft að páfinn er æðsti leiðtogi einna fjölmennustu trúarbragða í heimi. Milljónir manna um heim allan hlusta á hann og hlýða boðskap hans, óháð landamærum, tungumáli og þjóðerni.

Páfinn er án vafa einn valdamesti maður í heimi. Í hinni pólitísku alþjóðaumræðu gleymist oft að páfinn er æðsti leiðtogi einna fjölmennustu trúarbragða í heimi. Milljónir manna um heim allan hlusta á hann og hlýða boðskap hans, óháð landamærum, tungumáli og þjóðerni.

Það þarf því engan að furða að um heim allan ríkir mikil sorg þessa dagana, þar sem hundruð milljóna manna syrgja trúarleiðtoga sinn.

Nú er farinn af stað langur og strangur ferill til að syrgja og kveðja nýlátinn páfa og undirbúa veginn fyrir þann næsta. Eftir um það bil tvær vikur munu kardinálarnir koma formlega saman og hefja kosningu næsta páfa. Miklar vangaveltur eru um það hver verður næsti páfi. Margir gera tilkall til þess að hann komi frá S-Ameríku, þar sem langflestir kaþólikkar búa. Aðrir telja að tími sé kominn á ítalskan páfa.

Kaþólska kirkjan með páfann í broddi fylkingar og Vatíkanið sem sitt einkaríki hefur gríðarleg áhrif um heim allan. Kaþólska kirkjan nær ekki eingöngu til kristinna manna um heim allan því Vatíkanið hefur einnig mikil áhrif á vettvangi alþjóðastjórnmála, svo sem innan Sameinuðu þjóðanna. Vatíkanið er ekki fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum, en frá því í júlí á síðasta ári hefur Vatíkanið algjörlega sambærileg réttindi og aðrar þjóðir að undanskildum réttinum til að kjósa. Vatíkanið virðist þó uppfylla flest skilyrði til að sækja um fullgilda aðild. Það skýtur þó óneitanlega skökku við að ríki þar sem hvorki búa konur né börn geti verið fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum.

Afstaða kaþólsku kirkjunnar til mikilvægra mála eins og getnaðarvarna og fóstureyðinga eru ekkert leyndarmál. Páfinn predikaði þau í boðskap sínum til kristinna manna og Vatíkanið vinnur að þeim málum á vettvangi alþjóðastjórnmála. Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, gagnrýndi til að mynda Vatíkanið harðlega árið 1994 með þessu orðum: „States that do not have any population problem — in one particular case, even no births at all — are doing their best, their utmost, to prevent the world from making sensible decisions regarding family planning.“

Sem æðsti yfirmaður páfagarðs og einn áhrifamesti maður heims fylgir embætti páfa gríðarleg ábyrgð. Enginn þjóðarleiðtogi getur státað sig af þeirri útbreiðslu og þeim áhrifum sem orð og predíkanir páfa hafa. Með tilliti til þess hversu lengi páfi getur setið við völd er gríðarlega mikilvægt fyrir mannkynið í heild að næsti páfi taki hálft skref inn í nútímann og boði mildari afstöðu til mála sem gætu bjargað fjölda mannslífa á hverjum degi.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.