Ert þú efni í sveitarstjórnarmann?

Senn líður að kosningum. Víst er að margir íhuga þann möguleika að gefa kost á sér til setu í sveitarstjórn fyrir sinn flokk í sínu sveitarfélagi. Áður en hægt er að taka slíka ákvörðun er rétt að kynna sér hvaða skyldur það eru sem starfinu fylgja. Hér verður farið yfir nokkur atriði varðandi hlutverk og pólitíska ábyrgð sveitarstjórnarmanna.

Sveitarstjórnarmenn eru þeir menn sem kosnir eru til setu í sveitarstjórn samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Hlutverk sveitarstjórnarmanna er margþætt enda eru verkefni sveitarfélaga margvísleg. Sveitarstjórn fer með yfirstjórn sveitarfélagsins samkvæmt 8. gr. sveitarstjórnarlaga og því er það hlutverk sveitarstjórnarmanna að taka ákvarðanir í þeim málum sem sveitarfélögum eru falin. Því má segja að meginhlutverk sveitarstjórnarmanna að taka ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins en umboð sitt til þess að fara með það vald sækja sveitarstjórnarmenn beint til kjósenda. Sveitarstjórnarmaður er aðeins bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála en honum ber skylda til að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi, skv. 28. gr. svsl. Sveitarstjórnarmaður verður ávallt að hafa rannsóknarreglu stjórnsýslulaga í huga við ákvarðanatökun þ.e. að hann sé nægjanlega upplýstur um mál til að hann geti tekið ákvörðun.

Sveitarstjórnarmaður fer með stjórnunar og eftirlitshlutverk með starfsemi og rekstri sveitarfélagsins þar sem hann er hluti af æðstu stjórn sveitarfélagsins. Hluti af stjórnunarhlutverkinu er að sinna stefnumótun í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn er auk þess opinbert stjórnvald og ber sem slíkt ábyrgð á framkvæmd ýmissa laga. Sveitarstjórnarmaður starfar í umboði íbúanna og hefur því umboðshlutverki að gegna gagnvart þeim. Þrátt fyrir að framkvæmdastjóri sveitarfélags sé æðsti yfirmaður starfmanna sveitarfélagsins er sveitarstjórnarmaðurinn í vinnuveitandahlutverki gagnvart starfsmönnum sveitarfélagsins í ljósi þess að hann er hluti af æðstu stjórn sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnarmenn bera pólitíska ábyrgð á störfum sínum. Sveitarstjórnarmaðurinn er á fjögurra ára fresti dæmdur af verkum sínum í kosningum og má segja að pólitísk ábyrgð hans verði virk þegar kjósendur láta í ljós skoðun sína á verkum hans með því að endurkjósa hann eða ekki. Á milli kosninga fær sveitarstjórnarmaðurinn viðbrögð við pólitískum athöfnum sínum í gegnum opinbera umræðu þ.e. umfjöllun fjölmiðla og viðhorfi almennings gagnvart störfum hans. Þar sem sveitarstjórnin er æðsta stjórnvald sveitarfélagsins bera sveitarstjórnarmennirnir hina endanlegu pólitísku ábyrgð á allri starfsemi sveitarfélagsins óhað því hvort þeim sé persónulega kunnugt um allar þær ákvarðanir sem teknar eru. Verk starfsmanna sveitarfélagsins heyra jafnframt þar undir. Má í þessu sambandi minna aftur á eftirlitshlutverk sveitarstjórnarmannsins. Sveitarstjórnarmaðurinn getur ekki vikið sér undan pólitískri ábyrgð þar sem hann er hluti af æðsta stjórnvaldi sveitarfélagsins.

Nauðsynlegur þáttur í því að sveitarstjórnarmaður geti uppfyllt skyldur sínar er að hann hafi aðgang að þeim gögnum sem varða málefni sveitarfélagsins. Samkvæmt 30. gr. svsl. skulu aðalmenn í sveitarstjórn, vegna starfa sinna í sveitarstjórn, hafa aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi. Sveitarstjórnarmaður hefur því rétt til upplýsinga en honum ber einnig skylda til að vera upplýstur. Þeir varamenn sem taka sæti í sveitarstjórn eiga jafnframt þennan rétt og bera þessar skyldur, sbr. 37. gr. svsl. Rétturinn er þó ekki ótakmarkaður því ákveðnar upplýsingar geta verið undanþegnar samkvæmt ákvæðum sérlaga en það á einkum við þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar. Sem dæmi má nefna 2. mgr. 13. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn sé óheimill aðgangur að gögnum um einstök barnaverndarmál. Hér ber að hafa til hliðsjónar ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996 og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Rétt er að minna á að samkvæmt 32. gr. svsl. skulu sveitarstjórnarmenn gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls og helst þagnarskyldan eftir að setu í sveitarstjórn lýkur.

Heimildir

Anna Guðrún Björnsdóttir „Hlutverk sveitarstjórnarmanna“, fræðslurit Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 24 af heimasíðu Sambands Íslenskra sveitarfélaga www.samband.is

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.