Einbýlishúsalóð á Manhattan fæst gefins

Verð á einbýlishúsalóðum á Manhattan er nú orðið svo hátt að venjuleg millistéttarfjölskylda á enga möguleika til að byggja þar þak yfir höfuðið. Michael Bloomberg hefur legið undir miklum ámæli vegna þessa og hefur borgarstjórinn ákveðið að leysa vandann á einfaldan hátt – með því að gefa einbýlishúsalóðir: Fyrstir koma – fyrstir fá…

Mikill skortur er á einbýlishúsalóðum á Manhattan

Það er auðvitað fásinna að borgarstjóri New York borgar, Michael Bloomberg ætli sér að leysa úr lóðaskorti á Manhattan með því að gefa þar einbýlishúsalóðir. Það er hverjum manni augljóst að slíkt myndi engan vanda leysa. Þeir sem væru svo heppnir að fá þessa lóð gætu selt hana aftur á milljónir dala og stórgrætt, en lóðaverð á Manhattan myndi ekki haggast við þetta.

Enda fjallar þessi pistill ekki um einbýlishúsalóðir á Manhattan, heldur í Reykjavík, þar sem sumir virðast halda að önnur lögmál gildi. Í umræðu undanfarinna daga hafa fulltrúar allra stjórnmálaflokka í borginni rifist um málið og stundum sagt eitthvað af viti. En allir hafa þeir líka haldið fram rökum sem engan vegin fást staðist. Án þess að ætlunin sé að benda á einhvern einn umfram annan vill pistlahöfundur kasta fram nokkrum punktum sem ættu að vera augljósir öllum aðilum málsins, en virðast því miður ekki vera það. Sér í lagi er þetta áberandi þegar menn rífast um hvaða þættir hafa áhrif á húsnæðis- og lóðaverð. Það er sama hvað menn snúa út úr, húsnæðis- og lóðaverð hegðar sér á eftirfarandi hátt:

 • Ódýrari fjármögnun hækkar húsnæðis- og lóðaverð

  Greiðslubyrði fólks hefur mikil áhrif á það hversu stórt húsnæði það velur sér. Aukið aðgengi að lánsfé og lægri vextir hafa því valdið aukinni eftirspurn og þrýst verðinu upp á við.

 • Skortur á úthlutuðum lóðum hækkar húsnæðis- og lóðaverð

  Verð á nýju húsnæði er nú talsvert yfir byggingakostnaði og menn eru tilbúnir að bjóða hátt verð fyrir lóðir. Það er augljóst að þarna er lögmál framboðs og eftirspurnar að verki og tilgangslaust að reyna að afneita því.

 • Aðferð úthlutunar hefur ekki áhrif á húsnæðis- og lóðaverð

  Þótt nú sé hátt verð boðið í lóðir sem borgin býður út er það ekki útboðið sjálft sem hækkar verðið. Markaðsverð á lóðum er einfaldlega mjög hátt. Breytingar á úthlutunarreglunum sjálfum munu aldrei leysa neinn vanda eða lækka lóðaverð. Ef lóðir yrðu gefnar með happdrætti eða í gegnum klíkuskap þýddi það einfaldlega að þeir sem fengju þær yrðu ríkir*.

Þegar þessi atriði málsins eru skoðuð verður ljóst að það er aðeins eitt af þessum atriðum sem borgaryfirvöld geta notað til að hafa áhrif á verðið – fjöldi úthlutaðra lóða. Það er því sorglegt hvað litlu púðri er eytt í að rökræða þann þátt málsins, en þar eru nokkrar mikilvægar spurningar sem enginn virðist hafa áhuga á að svara:

 • Hvar eru lóðirnar?

  Það er stöðugt rifrildi milli flokka um það hvort R-listinn úthluti nógu mörgum lóðum, en aldrei er rætt um tiltekin svæði þar sem mætti úthluta fleiri lóðum. Hvers vegna telur D-listinn að hægt sé að úthluta miklu fleiri lóðum en R-listinn gerir og hvers vegna úthlutar R-listinn ekki fleiri lóðum en raun ber vitni?

 • Hvenær á á úthluta lóðum?

  Það er ljóst að lóð sem er úthlutað í dag verður ekki úthlutað eftur í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er því út í hött að líta á kostnað við gatnagerð og lagnir sem eina kostnaðinn við úthlutun lóða eins og sumir virðast gera. Það er nauðsynlegt að sjá fyrir sér úthlutun lóða til langs tíma með tilliti til íbúaþróunar og skipulags höfuðborgarsvæðisins.

 • Til hvaða nota á að úthluta lóðum?

  Það er ljóst að lóð sem úthlutað er undir einbýlishús verður ekki úthlutað undir fjölbýlishús. Er nokkuð óeðlilegt að einbýlishúsalóðir á höfuðborgarsvæðinu séu dýrar? Ef rétthafi lóðar réði því einn hvað byggt yrði á lóðinni er ljóst að einn hektari af einbýlishúsalóð yrði ekkert ódýrari en einn hektari af fjölbýlishúsalóð. Þar sem nauðsynlegt er að skipuleggja byggðina er ekki hægt að leyfa rétthöfum að ráða þessu algerlega. Engu að síður eru engin rök fyrir því að einbýlishúsalóðir séu miklum mun ódýrari (á hektara) en fjölbýlishúsalóðir. Með því að úthluta of mörgum einbýlishúsalóðum er í raun verið að láta blokkarbúa niðurgreiða lóðarkostnað einbýlishúsabúa. Vilja borgarbúar það?

Að hætti stjórnmálamanna hafa málsaðilar eytt mikilli orku í að tala um aukaatriði en sneitt hjá þessum aðalatriðum. Í rauninni hefur aðeins eitt aðalatriði náð að stinga nefinu inn í umræðuna, nefnilega spurningin:

 • Hvenær fer flugvöllurinn?

  Þegar lóðaverð er eins og það er í dag verður enn augljósara hversu gríðarlega verðmætt Vatnsmýrarlandið er. Flugvöllurinn er einfaldlega fyrir.

Það væri óskandi að menn sneru sér í meira mæli að aðalatriðunum í umræðu um lóðamál í Reykjavík. Umræðan þarf að snúast um það hvar hægt er að bæta við lóðum og í hve miklum mæli, en ekki um það hverjum hækkanir undanfarinna ára eru kenna.


*Það er rétt að taka fram að mögulegt væri að lækka verð á lóðum með því að setja hömlur á notkun þeirra og sölu eftir úthlutun. En ef það yrði gert væru það hömlurnar eftir úthlutun sem þrýstu verðinu niður, en ekki reglurnar um sjálfa úthlutunina.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)