Fyrirtækjalegur Darwinismi

Rannsóknir í viðskiptafræðum leita víða hófanna við að finna módel til þess að geta skilið eðli fyrirtækja betur. Á meðal annarra hluta hefur verið leitað samsvörunar í náttúrunni og þar með í svokölluðum Darwinisma. Hér verður farið lauslega yfir hvað átt er við með því.

Rannsóknir í viðskiptafræðum leita víða hófanna við að finna módel til þess að geta skilið eðli fyrirtækja betur. Á meðal annarra hluta hefur verið leitað samsvörunar í náttúrunni og þar með í svokölluðum Darwinisma. Hér verður farið lauslega yfir hvað átt er við með því.

Án þess að fara mjög djúpt ofan í Darwinismann sjálfan þá snýst hann í fyrirtækjaskilning um þrjú atriði: breytileika (e. variety), samræmi í hegðun (e. heredity) og vali (selection). Þannig eru fyrirtæki mismunandi, þau eru yfirleitt samkvæm sjálfum sér, þ.e.a.s. þau umbreyta ekki viðskiptamódelinu sínu annann hvern dag og það er úr þessum breytileika sem sum fyrirtæki lifa á meðan önnur gefa upp öndina.

Á Íslandi þá voru eitt sinn stærri rekstrareiningar dagsskipunin og menn kepptust við að sameinast eins og þeir gátu. Þannig urðu smáfyrirtækin fórnarlömb þróunarinnar. Síðan fóru menn að tala um að fyrirtæki þyrftu að einbeita sér að kjarnahæfni sinni og byrjuðu að kaupa stór fyrirtæki til þess að skipta þeim upp og selja aftur. Ákveðnir tískustraumar virðast þannig geta haft áhrif á náttúruvalið.

Í dag er það heitasta á meðal íslenskra fyrirtækja að fjárfesta frekar í öðrum fyrirtækjum frekar en að einbeita sér að eigin rekstri. Þessi stefnu hefur verið kennd við orðið „Group“. Að sögn nýjustu „Grúppíanna“, Flugleiða sem ætla að breyta fallegu nafni í óskapnaðinn FL Group, þá undirstrikar nafnbreytingin nýtt hlutverk félagsins sem fjárfestingafélag.

Sumir hafa reglulega lýst yfir áhyggjum af því að einhverjir ákveðnir aðilar séu að eignast Ísland. Þeir hafa einmitt bent á þessi stóru eignahaldsfélög sem fjárfesta af miklum móð um allt land. Staðreyndin er sú að það er ekkert nýtt að til séu menn sem eiga stóran hlut í landinu.

Með Darwinismann í huga þá þurfa menn ekkert að hafa áhyggjur þótt ákveðnar „Grúppíur“ stækki of mikið. Breytileikinn innan þeirra minnkar yfirleitt með aukinni stærð og þar af leiðandi verða þau auðveldari bráð fyrir aðra tegund. Sagan hefur sýnt þetta síendurtekið. Samkvæmt Darwin er það nefninlega ekki hinn sterkasti, fljótasti eða klárasti sem sigrar, heldur sá sem bregst hraðast við breytingum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.