Ný og öflug Stúdentamiðlun

Nú þegar vorið nálgast eru vafalítið margir háskólastúdentar farnir að huga að því að sækja um störf fyrir sumarið. Aðrir eru búnir að ganga frá þeim málum en hafa áhyggjur af lokaprófum í maí og þurfa ef til vill að finna sér kennara sem getur tekið þá í aukakennslu. Stúdentaráð, í samvinnu við Félagsstofnun stúdenta hefur komið á fót Stúdentamiðlun sem getur greitt götu stúdenta í þessum málum, og fleiri.

Fyrir skömmu tók ný miðlun til starfa á vegum Félagsstofnunar Stúdenta og Stúdentaráðs Háskóla Íslands á vefsvæðinu www.studentamidlun.is. Um er að ræða nýjung í þjónustu við stúdenta þar sem nú er hægt að nálgast á einum stað allar þær miðlanir sem áður voru starfræktar á mörgum mismunandi stöðum hjá FS og Stúdentaráði.

Þær miðlanir sem standa stúdentum til boða eru m.a. húsnæðismiðlun, atvinnumiðlun, kennslumiðlun, lokaverkefnamiðlun, barnagæslumiðlun og fljótlega mun miðlun notaðra kennslubóka opna á vefnum.

Miðlunin er unnin með þarfir stúdenta í huga og hefur Stúdentaráð greint helstu þarfir og eftirspurn stúdenta eftir aðstoð með ýmis mál. Þetta er liður í því að auðvelda stúdentum lífið, enda verða oft miklar breytingar á högum fólks í upphafi háskólanáms.

Nafnið Stúdentamiðlun lýsir vel tilgangi þjónustunnar, en hún er tvíþætt. Annars vegar er miðluninni ætlað að miðla þjónustu til stúdenta þar sem þeir geta t.d. leitað sér að leiguíbúð, barnfóstru, aukakennslu og sumarstarfi og hins vegar er henni ætlað að miðla stúdentum til þjóðfélagsins. Stúdentamiðlunin er þar með kjörin vettvangur fyrir þjóðlífið til að nálgast stúdenta. Reynsla Stúdentaráðs er sú að mikil eftirspurn er hjá leigusölum að leigja stúdentum húsnæði, enda hefur ráðið rekið stærstu leigumiðlun landsins um árabil. Eins er það ljóst að fjölmörg fyrirtæki og stofnanir vilja leita í hóp stúdenta þegar kemur að því að ráða starfsmann í starf sem krefst sérfræðiþekkingar á einhverju sviði. Stúdentar við Háskóla Íslands eru jú flestir mjög dagfarsprúðir leigjendur og eiga það allir sameiginlegt að vera að mennta sig á afmörkuðu sviði.

Það er von aðstandenda miðlunarinnar að þjónustan muni efla Atvinnumiðlun stúdenta enn meira, en það er mikilvægt að skapa vettvang fyrir miðlun faglegra vinnukrafta. Töluverð eftirspurn er eftir þekkingu stúdenta Háskólans og það er ómetanlegt fyrir stúdenta að fá tækifæri til að starfa við sitt fag á meðan námstíma stendur, t.d. á sumrin eða með námi. Því er tilgangur miðlunarinnar að leiða saman krafta stúdenta og eftirspurn fyrirtækja eftir góðum starfskröftum með sérfræðiþekkingu og koma þar með á fót eins konar „lærlingamiðlun“.

Allir stúdentar eru hvattir til að skoða nýja vefinn og skrá sig, en það er forsenda þess að miðlunin nái markmiði sínu og að hún verði öflugt tæki til að koma stúdentum á framfæri – ásamt því að miðla þjónustu til stúdenta. Þjónustan er stúdentum að kostnaðarlausu.