Íslensku auglýsingaverðlaunin

Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin verða afhent í 19. sinn á Íslenska markaðsdeginum föstudaginn 25. febrúar næstkomandi þar sem athyglisverðustu auglýsingarnar á árinu 2004 verða valdar.

Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin verða afhent í 19. sinn á Íslenska markaðsdeginum föstudaginn 25. febrúar næstkomandi þar sem athyglisverðustu auglýsingarnar verða valdar. Það er ÍMARK, Félag íslensks markaðsfólks, í samstarfi við Samband íslenskra auglýsingastofa sem stendur fyrir samkeppninni.

Fimmtán manna dómnefnd skipuð aðilum frá ÍMARK, SÍA, FÍT, Orðspori og Félagi kvikmyndagerðarmanna fer yfir innsendar tillögur. Fyrst er hverri tillögu gefið stig og svo eru 5 bestu auglýsingarnar valdar í hverjum flokki.

Veitt verða verðlaun í eftirtöldum flokkum:

• Sjónvarpsauglýsingar

• Útvarpsauglýsingar

• Dagblaðaauglýsingar

• Tímaritaauglýsingar

• Vöru- og firmamerki

• Umhverfisgrafík

• Veggspjöld

• Auglýsingaherferðir

• Markpóstur

• Opinn flokkur

• Almannaheillaauglýsingar: auglýsingar í ljósvakamiðlum (sjónvarps- og útvarpsauglýsingar) og auglýsingar í prentmiðlum/öðrum miðlum

Hægt er að skoða tilnefningarnar á visir.is.

Flestar tilnefningarnar hlaut Hvíta húsið, eða alls 14 tilnefningar. Þar á eftir Fíton með 12 tilnefningar og Íslenska auglýsingastofan fékk 10.

Veitt verða verðlaun í þrettán flokkum. Dómnefndir skera úr um val á athyglisverðustu auglýsingunni í flokkunum tólf sem hér eru nefndir en að auki verða afhent sérstök verðlaun fyrir vinsælustu auglýsinguna að mati almennings.

Landsmenn hafa tækifæri á að velja „bestu auglýsinguna“ úr sex flokkum á Vísi.

Sú auglýsing sem hlýtur flest atkvæði hjá þjóðinni sem besta auglýsingin fær sérstök verðlaun á hátíðinni. Hægt er að skoða allar ljósvakaauglýsingarnar sem tilnefndar eru í hverjum flokki og þar með hafa áhugasamir kost á að rifja upp auglýsingarnar og dæma þær sér til gamans.

Tilgangur verðlaunanna er að hvetja markaðsfólk til dáða í sínum störfum og auka metnað auglýsingagerðar á Íslandi. Það skiptir miklu að vel sé að málum staðið og að mati greinarhöfundar skiptir það ekki síður máli að auglýsingar séu skemmtilegar. Ef sjónvarpsauglýsingar eru teknar sem dæmi, þá fer töluverður tími í að horfa á þær á hverju kvöldi. Á þeim tíma kvölds sem fréttir, veður og Kastljósið er sýnt er miklum tíma varið í auglýsingar á milli þessara liða. Skemmtanagildi auglýsinganna hefur því töluvert að segja um gæði þeirra að mati höfundar, sérstaklega í ljósi þess að þær eru spilaðar óteljandi sinnum.

Fagfólk í markaðsfræðum er þó líklega ósammála í einhverjum tilvikum þar sem mestu máli skiptir að auglýsingin nái því markmiði sínu að minna neytandann á vöruna. Fjölmörg dæmi eru um leiðinlegar auglýsingar sem þó ná þeim tilgangi sínum að festa vöruna í sessi í huga neytandans, þannig að þegar hann er til dæmis beðinn að nefna bíltegund, að þá dettur honum fyrst í hug sú tegund sem auglýst var.

Það halda þó eflaust margir í vonina og biðja um skemmtilegar auglýsingar frá markaðsfólki í framtíðinni, þannig að aðdragandi Kastljóssins verði aðeins bærilegri.