Réttarstaða geimfara I

Í mínum næstu átta greinum á Deiglunni ætla ég að fjalla um réttarstöðu geimfara og ýmis lagaleg vandamál sem tengjast geimferðum manna.

NAFNI ÚTÚRSPEISAÐUR

Í næstu átta greinum mínum á Deiglunni ætla ég að fjalla um réttarstöðu geimfara og ýmis lagaleg vandamál sem tengjast geimferðum manna.

Í þjóðréttarlegum skilningi tekur himingeimurinn við þar sem forráðasvæði ríkja enda í háloftunum, þ.e. þar sem lofthelgi ríkja endar. Aðilar þjóðaréttarins eru hins vegar ekki sammála um hvar þau mörk liggja. Því er hægt að draga þá ónákvæmu ályktun að þar sem lóðrétt lofthelgi ríkja endar tekur himingeimurinn við. Oft er miðað við að lóðrétt lofthelgi ríkja í háloftunum endi í þeirri lofthæð sem þær flugvélar sem hæst komast fljúga í, það er hins vegar breytilegur og óheppilegur mælikvarði þar sem tækninni fleygir fram og flugvélar komast hærra og hærra.

Ein af meginreglum geimréttarins er að himingeimurinn skuli vera sameign mannkyns. Af því leiðir að ekkert ríki hefur forráðasvæði í geimnum. Nú kunna einhverjir glöggir lesendur að spyrja sig hvernig lögsögureglur yfir geimförum eru háttaðar fyrst geimurinn er sameign mannkyns. Þeirri spurningu er svarað í 8. gr. samningsins um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum (Treaty on Principles Governing the Activities of States in the Exploration and Use of Outer Space, including the Moon and other Celestial Bodies). Í ákvæðinu, í lauslegri þýðingu undirritaðs, er kveðið á um að ríki sem sendir far út í himingeiminn skuli fara með lögsögu yfir því og áhafnarmeðlimum þess hvort sem þeir eru innanborðs eða á vappi um plánetur og tungl himingeimsins. Ljóst er af samningi þessum að lögsaga í geimskipum og á svokölluðum tunglgöngum er hjá skráningarríki geimskipsins. Eru það því lög þess ríkis þar sem farið er skráð sem gilda fyrir áhafnarmeðlimi hvort sem þeir eru um borð í geimskipinu eða á vappi um geiminn. Í samningnum um skráningu fara sem send er út í geim (Convention on Registration of Objects Launched into Outer Space), eru ítarlegar reglur um hvaða ríki skuli teljast skráningarríki fars.

Benda verður á að réttarstaða úthafsins og himingeimsins eru keimlík. Rétt er einnig að benda á að geimréttur og hafréttur eru náskyld fög. Því er sennilegt að hægt sé að nota ákvæði Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um lögsögu, sérstaklega þau sem eru þjóðréttarvenja, til skýringar og fyllingar á 8. gr. samningsins um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum en þau ákvæði eru mun ítarlegri en ákvæði geimréttarins.

Áhugaverður munur er á lögsögureglum yfir geimförum og yfir skipum en geimfarar sem eru í geimgöngu, eins og áður segir, eru undirorpnir lögsögu skráningarríkis geimskipsins. Stafar það af fyrrnefndri meginreglu geimréttarins um að himingeimurinn sé sameign mannkyns. Slíkt gildir ekki um farþega skipa. Um leið og þeir stíga fæti á erlendri grundu falla þeir undir lögsögu þess ríkis sem þeir eru staddir í enda landsvæði heims skipt á milli ríkja.

Í næsta pistli verður fjallað um skyldur geimfara í geimnum, m.a. gagnvart öðrum geimförum af öðrum geimskipum.

Biðið spennt þangað til!