Hvernig á að ráðstafa söluvirði Símans?

Fyrir rétt rúmri viku setti Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fram þá skoðun að nota ætti hluta af söluvirði Landssímans til að byggja nýtt sjúkrahús. Vakti yfirlýsing þessi eðlilega mikla athygli og eru umræðurnar um hvar og hvernig eigi að reisa ýtt hátæknisjúkrahús þegar hafnar.

Fyrir rétt rúmri viku setti Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fram þá skoðun að nota ætti hluta af söluvirði Landssímans til að byggja nýtt sjúkrahús. Vakti yfirlýsing þessi eðlilega mikla athygli og eru umræðurnar um hvar og hvernig eigi að reisa ýtt hátæknisjúkrahús þegar hafnar.

Yfirlýsingar Davíðs Oddssonar hafa eðlilega meira vægi en flestra annnarra stjórnmálamanna á Íslandi. Þótt Davíð sé ekki lengur forsætisráðherra fer hann fyrir þeim flokki sem nýtur mests þingstyrks á Alþingi og hefur sem slíkur mikil áhrif. Því er skiljanlegt að margir líti svo á að söluvirði Símans hafi þegar verið ráðstafað að þessu leyti. Það er hins vegar heldur verra ef þessi yfirlýsing kemur af stað kapphlaupi þrýstihópa sem hver og einn telur að málsstaður sinn verðskuldi hlutdeild, ef ekki allt, söluvirði Landssímans.

Frá því að ríkisstjórnin setti fram það stefnumið að selja hlut ríkisins í Landssímanum hafa ófáar hugmyndir komið fram um það, hvernig ætti að ráðstafa söluvirðinu. Deiglan hefur litið svo á að söluvirði Símans væri ekki fundið fé eða happdrættisvinningur, heldur eign sem breytt væri í peninga með því selja hana. Eðlilegast væri að þeir fjármunir rynnu beint og milliliðalaust til eigenda sinna, annað hvort í formi skattalækkana eða niðurgreiðslna erlendra skulda ríkissjóðs.

Hver og einn getur vissulega sett fram ítarlegan óskalista um hvað mætti gera fyrir 50 milljarða króna – það hafa margir gert. Hugmynd formanns Sjálfstæðisflokksins er síður en svo fráleit og það má vissulega færa fyrir því rök að þörf sé á nýju hátæknisjúkrahúsi í stað hinna tveggja stóru sjúkrahúsbygginga í Fossvogi og við Hringbraut sem hýsa nú að mestu starfssemi Landspítala-Háskólasjúkrahúss.

Gífurlegum fjármunum hefur á undanförnum árum verið varið í rekstur Landspítala-Háskólasjúkrahúss, bæði hvað varðar framlög á fjárlögum og eins sérstök framlög í fjáraukalögum til að leiðrétta rekstrarhalla sjúkrahússins. Það yrðu mikil mistök að ætla að láta söluvirði Landssímans renna til sjúkrahússins og ætla með því móti að koma þeim málum í lag – það þýðir auðvitað ekki að dæla lofti í sprungið dekk. Og hugmynd Davíðs Oddssonar verður sem betur fer ekki skilin á þann veg, þótt ýmsir hafi kosið að gera einmitt það. Þetta er væntanlega ekki það sem vakir fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins, enda hefur það hvorki verið hans háttur né flokksins að verðlauna illa rekin ríkisfyrirtæki með því að dæla meiri peningunum inn í þau.

Sala ríksins á eignarhlut sínum í Landssímanum er mikið og sjálfstætt fagnaðarefni. Æskilegt er að ríkissjóður beri sem mest úr býtum við söluna en í því sambandi verður að hafa í huga að markaðurinn einn er fær um setja verðmiða eignina. Einnig er æskilegt að söluvirðinu verði varið með skynsamlegum hætti. Það hefur verið og er enn skoðun Deiglunnar að ríkið sé ekki að hagnast um neitt með sölunni á Símanum, heldur að losa um eignarhlut sinn. Salan mun ekki búa til neina fjármuni sem ríkið átti ekki fyrir. Þess vegna er eðlilegt og í anda ábyrgrar fjármálastjórnar að söluvirði renni annað hvort óskipt til skattgreiðenda eða til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Með því að greiða niður skuldir ríkisins verður ennfremur til svigrúm til að taka ný lán þegar henta kann að ráðast í einhverjar þær stóru framkvæmdir þar sem venjuleg framlög af fjárlögum duga ekki til. Það er því ekki rétt að aldrei verði af byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, þótt söluvirði Símans renni ekki í byggingu þess. Öll útgjöld ríkisins eiga að lúta sömu lögmálum varðandi það hvort það er skynsamlegt að ráðast í þau. Og öll tekjuöflun ríkisins á líka að lúta sömu lögmálum. Ríkið á að afla þeirra tekna sem það „þarf“ á sem hagkvæmastan hátt. Hagkvæm öflun tekna þýðir að ríkið á ekki að taka mið af útgjöldum sínum á ákveðnum tímapunkti þegar það ákveður hverjar tekjurnar eiga að vera á þeim tímapunkti. Og ef öll útgjöld lúta sömu lögmálum þá þýðir það að ríkið á ekki að taka mið af tekjum sínum á einum ákveðnum tímapunkti þegar það ákveður hver útgjöldin eiga að vera á þeim tímapunkti.

Venjulegt fólk á kannski erfitt með að meðtaka svona hugsun þar sem heimilisbókhaldið lýtur aðeins öðrum lögmálum. Ástæða þess er að það er erfiðara fyrir heimili að taka taka lán en það er fyrir ríkið. Heimilin þurfa að láta enda ná saman dag frá degi í ríkari mæli en ríkið sem á auðveldara með að taka mjög stór lán ef það þarf að ráðast í mikil útgjöld á ákveðnum tímapunkti (eins og byggingu spítala). Það getur síðan borgað lánið einhvern tímann seinna þegar það hentar að afla mikilla tekna (eins og til dæmis þegar það hentar að einkavæða). Það liggja því engin sérstök sjónarmið því til grundvallar að tengja saman sölu á hlut ríkisins í Landssímanum og byggingu nýs háskólasjúkrahúss, ekki frekar en rök séu fyrir því að tengja umfang skattsvika við útgjöld til menntamála.

Deiglan tekur þó undir með formanni Sjálfstæðisflokksins að því leyti að bygging nýs hátæknisjúkrahúss er með því besta sem hægt væri að gera við söluvirði Landssímans, standi á annað borð til að verja því í fé í eitthvað annað en niðurgreiðslu skulda eða lækkun skatta. Auðveldlega má sýna fram á það að núverandi húsnæði sjúkrahússins er óhentugt sem leiðir til hærri rekstrarkostnaðar en ella. Þá má enn fremur leiða að því líkum að gæði heilbrigðisþjónustunnar myndu aukast með tilkomu nýs húsnæðis sem væri þaulskipulagt í þeim tilgangi. Aðrar hugmyndir sem fram hafa komið eru langtum síðri en þessi. Æskilegt væri síðan að í ljósi þessa mikla framlags til uppbyggingar á húsnæði sjúkrahússins yrði leitað nýrra leiða til að gæta þess að kostnaður ríkisins við rekstur sjúkrahússins yrði í lágmarki og er þar átt við aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Það væri viðeigandi að Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir því samhliða byggingu nýja sjúkrahússins.

Verði af því að söluvirði Símans renni til þess að reisa nýtt hátæknisjúkrahús, mun ein afleiðing þess vera sú að ríkið eignast fleiri fasteignir. Nú fer starfssemi LHS fram í tveimur stórum byggingum, annars vegar í Fossvogi, þar sem áður hét Borgarspítali, og hins vegar í gamla Landspítalahúsinu við Hringbraut, sem er eitt fallegasta hús landsins, þótt það henti afskaplega illa undir nútíma heilbrigðisþjónustu.

Þeirri hugmynd er komið hér á framfæri að nýtt háskólasjúkrahús rísi við hlið gamla Borgarspítalans í Fossvogi og að gamla Landspítalahúsið við Hringbraut fái nýtt hlutverk. Í stað þess að byggja stóra stjórnarráðsbyggingu á svokölluðum stjórnarráðsreit í Kvosinni verði starfsemi allra íslensku ráðuneytanna flutt í hið gamla og virðulega Landspítalahús við Hringbraut. Húsið er glæsilegt og hæfir vel sem aðsetur íslensks framkvæmdavalds. Vissulega þyrfti einhverju til að kosta við að breyta húsnæðinu en sú fjárhæð yrði umtalsvert minni en kostnaður við byggingu nýrrar stjórnarráðsbyggingar í Kvosinni. Þar við bætist að ríkið gæti selt allt húsnæði sem nú er bundið undir starfsemi ráðuneytanna tólf. Þar til viðbótar er líklegt að einhverjir fjármunir myndu sparast við að hafa alla æðstu stjórnsýsluna samankomna á einum stað.

Þannig mætti loka þessum hring þannig að ríkissjóður bæri ekki skarðan hlut frá borði, nýju háskólasjúkrahúsi yrði komið fyrir á besta staðnum, gamla Landspítalahúsið fengi hlutverk sem sæmir glæsileika þess og æðsta stjórnsýsla ríkisins yrði öll sameinuð á einum stað.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)