Bananar á Austurvelli

Á síðustu misserum hefur færst í vöxt að fólk mótmæli aðgerðum (og stundum aðgerðaleysi) stjórnvalda. Taka þessi mótmæli á sig ýmsa mynd en þó hefur vakið athygli að hópar mótmælenda hafa í auknum mæli gripið til þess ráðs að fjölmenna á Austurvelli til að leggja banana á stéttina fyrir framan Alþingishúsið.

Á síðustu misserum hefur færst í vöxt að fólk mótmæli aðgerðum (og stundum aðgerðaleysi) stjórnvalda. Taka þessi mótmæli á sig ýmsa mynd en þó hefur vakið athygli að hópar mótmælenda hafa í auknum mæli gripið til þess ráðs að fjölmenna á Austurvelli til að leggja banana á stéttina fyrir framan Alþingishúsið. Er skemmst að minnast mótmæla í kennaraverkfallinu og mótmæla við afgreiðslu þingsins á fjölmiðlafrumvarpinu.

Skýring Spaugstofumanna á þessari aðferð til að mótmæla, sem var snilldarlega útfærð í síðasta áramótaskaupi, var sú að bananar á tröppum Alþingishússins væru aðallega til þess hugsaðir til að fella þingmenn.

Þó að hægt er að ímynda sér margar skemmtilegar ástæður banana fyrir framan Alþingishúsið, er skýringin nú væntanlega sú að mótmælendur vilja gefa í skyn að Ísland sé bananalýðveldi og lýsa þannig óánægju sinni með stjórnvöld og framferði þeirra.

En er rétt að gefa í skyn að Ísland sé á einhvern hátt bananalýðveldi og gefur lagasetning á verkfall kennara og fjölmiðlalögin tilefni til að setja banana fyrir framan Alþingishúsið?

Hugtakið bananalýðveldi er komið frá Mið-Ameríku, nánar tiltekið frá Honduras. Í byrjun tuttugustu aldarinnar uppgötvuðu bandarísk fyrirtæki að hægt væri að græða dágóðar summur á bananarækt í Honduras. Þrjú fyrirtæki voru þar í fararbroddi: United Fruit (nú betur þekkt sem Chiquita), Cuyamel og Standard Fruit (sem selur nú ávexti undir nafninu Dole). Á skömmum tíma eignuðust fyrirtækin stór landsvæði í norðurhluta landsins og var bananaiðnaðinum, sem var langstærsti hluti útflutnings Honduras, stjórnað beint frá Boston.

Í tilraunum ríkistjórnar Honduras, sem er og var eitt af skuldsettustu löndum heims, til að bæta efnahag landsins voru fyrirtækjunum veitt ýmis fríðindi í skiptum fyrir atvinnutækifæri fyrir heimamenn og samgöngubætur.

Fyrirtækin tóku ekki neina áhættu og til að tryggja tangarhald sitt á bananaiðnaðinum gripu þau til þess ráðs að þvinga stjórnvöld með mútum og vopnavaldi. Gott dæmi um framferði fyrirtækjanna er frá árinu 1910 þegar Standar Fruit réði glæpagengi frá New Orleans í sína þjónustu til að koma nýjum forseta til valda í Honduras eftir að sitjandi forseti neytaði fyrirtækinu um skattafríðindi. Nýr forseti kippti vandamáli Standard fljótlega í liðinn og tryggði fyrirtækinu fríðindin næstu 25 árin. Lét einn forstjóri fyrirtækisins hafa eftir sér að í Honduras væri asni meira virði en þingmaður.

Er skemmst frá því að segja að banafyrirtækin urðu fljótt mjög valdamikil í Honduras og ráðskuðust, að því er virðist, fram og til baka með þarlenda stjórnmálamenn. Honduras fékk því þann vafasama titil að vera upprunalega bananalýðveldið.

Þó að uppruni hugtaksins sé frá Mið-Ameríku hefur það víða skotið upp kollinum í stjórnmálaumræðu og oftast þá til að líkja stjórnmálaástandi við ástandið í Honduras. Þó hefur merking þess aðeins breyst og orðið víðtækari með árunum. Oftast er þó átt við hagkerfi sem treysta að miklu leyti á sölu einnar vöru svo sem banana og í umræðu um stjórnmál er hugtakið notað til að lýsa stjórnskipulagi þar sem mikil spilling ræður ríkjum eða þar sem utanaðkomandi öfl, hvort sem það eru önnur ríki eða stórfyrirtæki, hafa mikil áhrif.

Fyrir mörgum virðist hugtakið hafa enn almennari merkingu og er þá notað um stjórnkerfi þar sem ráðandi aðilar sýna einræðistilburði og má ætla að íslenskir mótmælendur séu að vísa til þess.

Þó að bananar á Austurvelli passi kannski ekki fullkomlega við þau tilefni sem íslenskir mótmælendur hafa notað þá hingað til er ljóst að uppátækið vekur athygli og er skemmtileg tilbreytni við hefðbundin hróp, köll og skilti.

Því eru mótmælendur hvattir til að halda uppátækinu áfram og jafnvel brydda upp á enn fleiri nýjungum.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.