Barack Obama

Í byrjun þessa mánaðar voru nýkjörnir þingmenn í Bandaríkjunum teknir inn í embætti sín. Meðal þeirra var Barack Obama öldungardeildarþingmaður fyrir Illinois. Hann vann sæti sitt í öldungardeildinni með um 70% atkvæða og er eini svarti fulltrúinn í deildinni.

Í byrjun þessa mánaðar voru nýkjörnir þingmenn í Bandaríkjunum teknir inn í embætti sín. Meðal þeirra var Barack Obama öldungardeildarþingmaður fyrir Illinois-fylki. Hann vann sæti sitt í öldungardeildinni með um 70% atkvæða og er eini svarti fulltrúinn í deildinni.

Barack Obama stimplaði sig rækilega inn í bandaríska stjórnmálaumræðu með ræðu sem hann hélt á flokksþingi demókrata síðast liðið sumar. Eftir þá ræðu var mönnum ljóst að þarna væri rísandi stjarna á ferð og kepptust fjölmiðlar um að ná viðtali við hann. Nafn hans kemur iðulega upp í umræðunni um hver verður næsta forsetaefni demókrata. Þó það verði að teljast harla ólíklegt að hann verði næsta forsetaefni demókrata er ljóst að hann á framtíðina fyrir sér innan flokksins ef hann stendur undir þeim miklu vonum sem gerðar eru til hans á þessu stigi.

Faðir Obama var frá Kenýa og stundaði nám í Bandaríkjunum þar sem hann kynntist móður hans, hvítri stúlku frá Kansas. Obama ólst upp hjá móður sinni og fjölskyldu hennar og þekkti föður sinn nánast ekki neitt. Obama var svartur strákur sem ólst upp í hvítu umhverfi. Eins og kemur fram í ævisögu hans, sem hann skrifaði þegar hann var 33 ára, var hann lengi að finna sjálfan sig og stöðu sína í þjóðfélaginu. Ævisaga hans er nokkurs konar uppgjör hans sjálfs við þjóðfélagið, fjölskyldu sína og hans innri baráttu. Í dag er bakgrunnur hans og arfleifð einn af hans öflugustu kostum. Hann nær jafnvel til svartra og hvítra og lítur fyrst og fremst á sig sem Bandaríkjamann eða eins og hann sagði sjálfur „There’s not a black America and white America and Latino America and Asian America; there’s the United States of America“.

Áður en hóf nám í lögfræði í Harvard vann Obama mikið og óeigingjart starf í svörtum fátækrarhverfum Chicagoborgar. Þaðan dregur hann gríðarlegan styrk og mörg af hans helstu stefnumálum varða fátækt fólk og hefur hann meðal annars að því leyti talist ansi vinstrisinnaður fyrir margan Bandaríkjamanninn. Þegar Obama segir að honum standi ekki á sama um veikt barn í fátækrarhverfi þó það sé ekki hans barn, þá hljómar það trúverðugt, en ekki eins og hvert annað röfl stjórnmálamanna.

Það virðist mörgum hulin ráðgáta af hverju Obama varð svona vinsæll í kringum síðustu kosningar. Hann var algjörlega óþekkt nafn sem skaust upp á stjörnuhimininn öllum að óvörum. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort honum takist að vera trúr sínum málstað og stefnumálum í þeirri hörðu pólitísku baráttu sem hann stendur nú frammi fyrir í Washington.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.