Að koma út úr kústaskápnum

Eru konur að koma út úr kústaskápnum og viðurkenna að kaup á húshjálp grafi ekki undan „stöðu“ þeirra innan heimilsins? Karlmenn greiða fyrir bón og þvott fyrir bílinn kinnroðalaust og virðast sallarólegir yfir sinni stöðu.

Það er af sem áður var. Þegar ég gifti mig fékk ég að gjöf gamalt kver sem innihélt góðar dyggðir fyrirmyndar eiginkvenna. Þetta kver var skrifað fyrir miðja 20. öldina og þykir í dag fyndið og öfgafullt. Þó hef ég orðið vör við þá skoðun í samfélagi systra minna, annarra eiginkvenna, að miklar skyldur liggja á herðum okkar gagnvart eiginmanni og börnum. Ábyrgðin liggur enn í dag að miklu leyti hjá okkur konum þegar kemur að hversdagslegum verkum eins og matarinnkaupum, matseld og húsverkum.

Einnig hafa margar konur gefið það í skyn við mig að þrátt fyrir að fyrrgreind ábyrgð liggi hjá þeim, að þá séu þær ekki óánægðar með það. Þvert á móti eru þær stoltar af (hús)verkum sínum og leggja mikla rækt í að halda fallegt heimili með myndarbrag. Fjölmargar giftar konur líta svo á að þar með hafi þær hlutverki að gegna innan veggja heimilisins, sem þær eru glaðar að inna af hendi (sérstaklega ef þær eru með töluvert lægri laun en makinn). Þessi launamunur ýtir því undir það að þær vilja halda í sinn sess á heimilinu. Þær leggja sem sagt þó sitt af mörkum umfram makann.

Þetta hefur samt verið að breytast. Konum í sjálfstæðum rekstri hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Þetta eru konur sem vinna langan vinnudag og hvort heldur sem þær eru tekjulægri eða -hærri en makar þeirra, hafa þær hreinlega ekki tíma til að sinna hlutverki húsmóðurinnar ásamt rekstrinum.

Þetta var gert að umræðuefni í Helgarútgáfunni á Rás 2 í gær. Í þættinum var tekið viðtal við konu sem rekur verslun í Reykjavík og í inngangi viðtalsins kom fram að hún lætur þvo allan sinn þvott úti í bæ og sefur á næturnar í pressuðum náttfötum. Hananú, hugsaði ég með mér, hvað með hlutverk hennar innan heimilisins? Í viðtalinu kom í ljós að blessuð konan áttaði sig dag einn á því, þar sem hún stóð í lok vinnudagsins í drulluskítugum lörfum og átti ekkert hreint til að fara í daginn eftir, að dæmið var ekki að ganga upp. Hún komst ekki lengur yfir það að sinna starfi sínu ásamt því að gegna skyldum sínum innan heimilisins. Í kjölfar þessa viðtals var tekið viðtal við aðra konu sem rekur fyrirtæki sem sérhæfir sig í húsverkum. Allt frá því að skipta um rúmföt yfir í að sjá um matarinnkaup og skipuleggja matseðilinn fyrir vikuna.

Þetta fannst mér merkilegt að heyra. Ekki bara fyrir okkur eiginkonurnar, því ekki má gleyma því að einstæðar konur eru hvort eð er með alla ábyrgðina, þar sem enginn er til staðar til að deila henni með, nú eða deila við um hana. Þau tíðindi sem útvarpsþátturinn bar mér vakti mig líka til umhugsunar. Bílaþvottur er dæmi um verk sem sjálfsagt þykir að kaupa á mörgum heimilum, enda þar á ferð verkefni sem þykir staðlað karlmannsverk. Karlar hafa nefninlega fyrir löngu gefið það út að smáatriði eins og bílaþvottur er hreinlega allt of tímafrekt fyrir þá og því ekkert sjálfsagðra en að kaupa þá þjónustu.

Konur eru kannski smám saman að koma út úr kústaskápnum og þora að viðurkenna það að ofurkonan er löngu dauð og það að fá húshjálp er hinn sjálfsagðasti hlutur – hafi þær efni á henni.