Lán í erlendri mynt

Er skynsamlegt að taka lán í erlendri mynt? Þetta er spurning sem margir Íslendingar eru að velta fyrir sér um þessar mundir. Og engan skyldi undra að margir viti ekki í hvaða fót þeir eiga að stíga þar sem þessi ákvörðun er bæði flókin og einkar mikilvæg fyrir þá sem eru að taka stór lán svo sem til húsnæðiskaupa.

Er skynsamlegt að taka lán í erlendri mynt? Skiptir í því sambandi máli hvort um langtímalán er að ræða eða skammtímalán? Hvaða mynt samsetning er skynsamlegust þegar lán er tekið í erlendri mynt? Þetta eru spurningar sem margir Íslendingar eru að velta fyrir sér um þessar mundir. Og engan skyldi undra að margir viti ekki í hvaða fót þeir eiga að stíga þegar kemur að þessum atriðum þar sem þau eru bæði flókin og einkar mikilvæg fyrir þá sem eru að taka stór lán svo sem til húsnæðiskaupa.

Vextir hafa yfirleitt verið talsvert lægri erlendis en hér á Íslandi. Þetta þarf þó ekki að þýða að hægstæðara sé að skulda í erlendri mynt. Það ræðst ekki aðeins af vöxtunum heldur einnig af hreyfingum á gengi krónunnar. Veiking á gengi krónunnar þýðir að það kostar fleiri krónur að kaupa ákveðið magn af erlendri mynt. Þetta þýðir að í krónum talið hækka afborganir og höfuðstóll erlendra lána þegar krónan veikist.

Ágætt er að miða við þá einföldu þumalputtareglu að það sé hagstæðara að skulda í erlendri mynt svo fremi sem gengi krónunnar lækki ekki meira en sem nemur vaxtamuninum milli íslenskra vaxta og erlendra vaxta. Ef íslenskir vextir eru til dæmis 4% hærri en erlendir vextir þá er hagstæðara að skulda í erlendri mynt svo fremi sem íslenska krónan fellur ekki meira en sem nemur 4% á ári. Ef krónan fellur einungis um 2% þá hagnast skuldari 2% á því að skulda í erlendri mynt frekar en í íslenskum krónum. Ef gengi krónunnar hins vegar hækkar um 2% þá hagnast hann um 6% á því að skulda í erlendri mynt frekar en í íslenskum krónum.

Um þessar mundir er munurinn milli íslenskra og erlendra vaxta um 5%. Gengi krónunnar hefur þar að auki verið að styrkjast ögn að undanförnu. Það hefur því verið mjög hagstætt að skulda í erlendri mynt að undanförnu. Það sem meira er, ef litið er yfir síðustu 10 ár þá kemur í ljós að stærstan hluta þess tíma hefur verið hægstæðara að skulda í erlendri mynt. Það hafa hins vegar komið tímabil þegar gengi krónunnar hefur lækkað talvert mikið á skömmum tíma. Á árunum 2000 og 2001 lækkaði gengi krónunnar um tugi prósenta. Á þessum árum var mjög óhagstætt að skulda í erlendri mynt. Þessi lækkun gékk síðan að mestu til baka á árunum 2002 og 2003. Á þeim árum var einstaklega hagstætt að skulda í erlendri mynt.

Það eru því nokkur atriði sem læra má af reynslu síðustu 10 ára. 1) Þegar til lengri tíma er litið eru miklar líkur á því að það sé hagstæðara að skulda í erlendri mynt. 2) En lánum í erlendri mynt fylgir talsverð áhætta, sérstaklega til skemmri tíma. 3) Stórar gengissveiflur eiga það til að ganga til baka. Það er því sérstaklega óskynsamlegt að breyta lánum sem eru í erlendri mynt yfir í lán í íslenskum krónum þegar gengi krónunnar hefur lækkað verulega.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.