Gleðilegur skattaléttir

Það var auðvitað að andstæðingar ríkisstjórnarinnar fussuðu og sveiuðu yfir tímasetningu skattalækkunarinnar sem tilkynnt var um fyrir helgi. Venjulegt fólk hlýtur hins vegar að fagna því að ríkisstjórnin hafi með svo myndarlegum hætti dregið úr álögum á almenning.

Það væri óskandi að fleiri stjórnmálamenn temdu sér auðmýkt í garð þeirra verðmæta sem landsmenn láta af hendi til ríkisins í stað þess að líta svo á að verðmætasköpun í samfélaginu sé eign ríkisins.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu báðir lækkun tekjuskatts á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar. Nú hefur ríkisstjórnin samþykkt frumvarp sem gerir þessi loforð að veruleika. Þetta eru mikil gleðitíðindi.

Ýmsir sérfræðingar hafa upp á síðkastið varað við lækkun skatta á almenning með þeim rökum að slíkt auki þenslu í samfélaginu og kunni að stefna efnahagslegum stöðugleika í hættu. Þessar raddir heyrast ætíð þegar skattar á almenning eru lækkaðir. Stjórnlyndir þingmenn tala á sama veg og þykjast vera býsna ábyrgir. Þeir halda að blessaðir bjánarnir, almenningur, fari á slíkt neyslufyllerí að allt keyri um koll.

Þetta viðhorf er alltof algengt. Það þarf ekki að koma á óvart að vinstrimenn í stjórnmálum vilji ekki að skattar á almenning lækki. Þeir líta svo á að hver króna í vasa launamanns sé króna sem allt eins væri hægt að úthluta á fjárlögum. Þeir trúa því að á meðan einstaklingar kunni ekki fótum sínum forráð í fjármálum þá geti ríkisvaldið jafnað efnahagssveiflur með því að hafa sem stærstan hluta efnahagslífsins undir sinni skynsamlegu stjórn.

Í öllu talinu um hættu á ofþenslu gleymist hins vegar hættan á ofþenslu ríkisins í góðæri. Í síðasta góðæri jukust útgjöld ríkisins, einkum launakostnaður, mjög mikið og af þeirri útgjaldaaukningu er erfitt að vinda.

Fólkið í landinu greiðir nú þegar háa skatta og stjórnnmálamenn hafa úr miklu að moða. Það er hins vegar furðulega algengt að stjórnmálamenn gleymi því að allir peningar ríkisins eru tilkomnir vegna verðmætasköpunar annars staðar í samfélaginu. Skattar eru leið til að þvinga þegnana til að taka þátt í kostnaði við verkefni sem stjórnmálamenn eru hrifnir af. Það væri óskandi að fleiri stjórnmálamenn temdu sér auðmýkt í garð þeirra verðmæta sem landsmenn láta af hendi til ríkisins í stað þess að líta svo á að verðmætasköpun í samfélaginu sé eign ríkisins.

Skattar eru langstærsti útgjaldaliður flestra heimila í landinu. Með lægri sköttum aukast tækifæri einstaklinganna og fjölskyldnanna til þess að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði sem er hverjum manni dýrmætt og stuðlar um leið að öflugra efnahagslfí. Það er mikils vert að ríkisstjórnin sýni þessum sjónarmiðum skilning og virðingu með því að halda áfram að draga úr skattheimtu. Að auki er það mikilvægt að ríkisstjórnir á hægri vængnum nýti færi sín til slíkra aðgerða því þannig verður erfiðara fyrir vinstristjórnir að snúa við blaðinu auk þess sem ofþenslu ríkisins eru settar skorður.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)