Madonna

Óvægir gagnrýnendur hafa bent á að hana skorti framúrskarandi hæfileika í dansi, söng og lagasmíðum. Hver skyldi vera leyndardómurinn á bak við velgengni einnar dáðustu poppsöngkonu okkar tíma?

Það er ekki hægt að halda því fram að velgengni Madonnu sé framúrskarandi sönghæfileikum að þakka. Gagnrýnendur segja að hún búi yfir frekar hóflegum hæfileikum, meira að segja á mælikvarða poppmenningarinnar. Óvægir gagnrýnendur hafa bent á að hana skorti danshæfileika Michael Jackson, sönghæfileika Whitney Houston og lagasmíðar Sinead O’Connor. Madonna hefur komist áfram á einbeittum vilja og mikilli kænsku. Hún hefur ávallt haft skýra mynd af því hver hún er, bæði sem listamaður og viðskiptajöfur. Sterk sjálfsímynd hefur hjálpað henni að komast vel frá hvoru tveggja og finna jafnvægi á milli þessara tveggja ólíku hlutverka.

Madonna er ekki sköpunarverk framleiðanda eða fjölmiðlafyrirtækis í poppbransanum. Hún komst áfram af eigin rammleik. Snótin hóf feril sinn þegar hún fluttist til New York árið 1978 og vann fyrir sér sem dansari. Hún þótti sýna mikla áræðni þegar hún fór til Los Angeles árið 1981 og fékk á sitt band Freddie De Mann, sem þá var umboðsmaður Michael Jackson. Þau áttu eftir að starfa lengi saman og tíu árum seinn var hann orðinn forstjóri samsteypu Madonnu.

Útlit hennar hefur reglulega tekið stakkaskiptum og má segja að hún sé meistari á því sviði. Hún hefur breytt um útlit og ímynd milli platna og jafnvel á milli þess sem hún gerir myndband. Þetta er liður í markaðssetningunni og hefur skilað Madonnu ótrúlegum árangri. Í hvert sinn sem hún breytir útliti sínu er það mjög áhrifaríkt. Hún setur tóninn fyrir nýjustu tísku og strauma. Það er einsdæmi hve oft henni hefur tekist þetta og enn hefur henni ekki mistekist. Þá hefur hárlitur hennar hverju sinni haft mikil áhrif. Þróun ímyndar Madonnu hefur fylgt lífshlaupi hennar sjálfrar. Fyrst kom hún fram sem spilltur unglingur sem síðar breyttist í holdgerving kvenleikans. Eftir það breytti hún sér í létt ögrandi dívu og enn síðar í fallega móður.

Madonna er meistari í því að skapa sér sérstöðu í tónlistarheiminum. Hárnákvæm tilfinning fyrir fjölmiðlum og áróðri kom henni upp með að vera ávallt á mörkum þess að ögra og hneyksla. Hún gerði sér fljótt grein fyrir því að gott samband við framleiðendur og dreifingafyrirtæki væri lífsnauðsynlegt til að tryggja að ekki yrði lokað á efni frá henni ef hún skyldi ganga of langt.

Stúlkan þykir ótrúlegur vinnuþjarkur. Hún kemst af með lítinn svefn og býr yfir miklum sjálfsaga. Þetta er hennar leið til að vera ávallt með allt á hreinu og stjórna ferðinni sjálf þegar kemur að ákvörðunum sem eru mikilvægar fyrir feril hennar. Mikil vinna fer í markaðssetningu á ímyndinni ásamt því að halda við vinsældum með stöðugum breytingum á henni.

Flest sambönd hennar hafa verið mikilvæg fyrir feril hennar. Þegar hún fór úr dansinum yfir í tónlistina skipti miklu máli samband hennar við tónlistarmann. Þegar hún skellti sér í leiklistina í Hollywood, þá gerðist það í kjölfar hjónabands hennar og Sean Penn og ástarsambands hennar við Waren Beatty.

Segja má að Madonna hafi markvisst komið sér í réttan félagsskap sem tryggt hefur réttu samböndin og sýnt mikla herkænsku í baráttunni við að koma sér á framfæri. Það ásamt heppni í að vera á réttum stað á réttum tíma, hefur tryggt Madonnu varanlegan sess sem poppgyðja. Hæfileikar hennar eru óumdeildir á þessu sviði.