Enn af „sameiningu“ Kópavogs og ReykjavíkurFlosi Eiríksson sendi hér inn á Deigluna aðsent bréf til þess að gera athugasemdir við nokkrar „staðreynarvillur“ eins og hann kallar þær varðandi dæmi sem ég tók í grein minni um sameiningar sveitafélaganna. Við Flosi erum sammála um ýmislegt eins og ágæti Kópavogs, mikilvægi samkeppni og glæsileika Salsins en á nokkrum stöðum ber á milli.

Dæmið sem ég tók var byggt á svokallaðri tilraunasagnfræði sem er byggð upp á „hvað ef“ spurningum. Mín spurning var „Hvað ef Kópavogur og Reykjavík hefðu sameinast árið 1991?“. Þegar spurningunni hefur verið kastað fram þá verða menn að giska dálítið út í loftið til þess að fá niðurstöðu. Ég einfaldlega horfði á þróun mála í Reykjavík og Kópavogi hlið við hlið og giskaði á að hefði Kópavogur verið hluti af Reykjavík þá hefði þróun hans verið sú sama og þróun Reykjavíkur. Því fer hins vegar fjarri að um nokkra vísindalega vissu sé að ræða.

Þetta myndi gefa okkur að skuldir Kópavogsbúa (per íbúa) væru þær sömu og Reykvíkinga en skuldir Kópavogsbúa per íbúa eru þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu (33% fólksfjölgun síðan 1991) á svipuðu reki og árið 1990. Skuldir eru ekkert slæmar þegar til þeirra er stofnað til þess að auka framtíðartekjur, sbr að reisa hverfi fyrir nýja íbúa sem munu greiða skatta til bæjarins. Á sama tíma þá hafa skuldir Reykjavíkur per íbúa vaxið gríðarlega en íbúum einungis fjölgað um 11%.

Einsetning grunnskóla kláraðist ekki í Reykjavík fyrr en árið 2002, hún var mun fyrr búin í Kópavogi og samkvæmt áðurnefndri aðferðafræði (ágiskunarfræði?) þá hefði viðbót Kópavogs við Reykjavík varla flýtt fyrir þróuninni.

Hvað varðar Sundlaug Kópavogs þá á ég bágt með að skilja af hverju Flosi vill minna fólk á að vinstri menn hafi verið 30 ár að byggingja hana en tek þó undir það að ímyndað sameinað sveitafélag Kópavogs og Reykjavíkur hefði kannski klárað hana fyrir árið 2004 – ég hljóp á mig þar.

Flosi svarar því ekkert sérstaklega hvort (ímynduð) sameining hefði tafið þessar framkvæmdir heldur vill frekar sýna fram á að þessar framkvæmdir hefðu þegar verið til komnar árið 1991.

Það virðist því vera að Flosi sé að höggva í annan hlut í orsakarununni en sameiningu. Þessi hlutur gæti verið að árið 1990 tók Sjálfstæðisflokkurinn (ásamt Framsóknarflokki) við stjórn bæjarins úr höndum annarra flokka (sem voru auðvitað líka með Framsóknarflokknum).

Það er auðvitað þannig að velgengni Kópavogs hefur verið vegna þeirrar frábæru vinnu sem Sjálfstæðismenn hafa unnið undanfarin ár. Framsóknarmenn hafa verið hér í góðum tímum jafnt og slæmum (fólk gleymir því einhvern veginn alltaf í kosningum) en það er með vinnu Sjálfstæðismanna sem Kópavogur hefur orðið öfund annarra sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu og Flosi veit það öðrum mönnum betur þar sem hann hefur haft sæti í fremstu röð á bæjarstjórnarfundum undanfarin ár.

Kópavogsbúar hafa í mörg ár farið geysilega í taugarnar á vinstri mönnum í Reykjavík vegna þess að við sýnum það hversu vel Reykjavík hefði getað verið rekin undanfarinn áratug ef sömu hugmyndir og aðferðir hefðu þar fengið að njóta sín.

Heimildir: www.rvk.is, www.mbl.is, www.hagstofa.is, www.grunnskolar.is, www.deiglan.is, www.gunnarbirgisson.is, www.kopavogur.is

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.