Hipsumhaps í vikulok

Í helgarnesti dagsins er tilvalið að staldra aðeins við og líta um öxl á atburði vikunnar sem er að líða.

Í helgarnesti dagsins er tilvalið að staldra aðeins við og líta um öxl á atburði vikunnar sem er að líða.

Þessi önnur vika í kennaraverkfalli var um margt merkileg. Hún byrjaði á sjokkfrétt úr sjóbissnessnum. Rauðhærði lögfræðingurinn úr Beðmálum í borginni, Miranda, kom út úr skápnum, hefur víst búið með kvenmanni í hálft ár. Eflaust hefur hún Cynthia okkar Nixon, sem túlkar Miröndu í þáttunum, apað þetta upp eftir hinni lauslátu Samönthu sem vildi prófa svona samband tímabundið. Lái Cynthiu hver sem vill, a.m.k. ef karlmenn raunveruleikans eru jafnspennandi og þeir sem birtast á tíðum í þessum annars ágætu þáttum.

Meðan Miranda kom út úr skápnum voru aðrir sem fóru inn í hann. Framsóknarskápnum var lokað á miðvikudaginn og Kristni H. Gunnarssyni, aka Kidda sleggju , var hent inn, slagbrandur og þreföld ASSA skrá. Lok, lok og læs og allt í stáli. Spurningin er hvern hann láti taka stálið? Hvort verður það Ömmi eða Össi sem fær að taka stálið? Eða kannski Addi Kidda Gau?“Nú læt ég Ömma taka stálið, nú læt ég Össa taka stálið, nú læt ég Adda Kidda Gau taka stálið og opna fyrir Kristni”, raular hann eflaust með sér og reynir að gera sér í hugarlund hvað af þessu hljómar best. Í það minnsta má telja líklegt að í Framsókn dvelji hann ekki öllu lengur. Sérframboð eða smánarlegt fall af hátindi stjórnamálafjallsins – hættur í pólitík fyrir fullt og allt? Fylgjumst spennt með því.

Kennarar og fulltrúar sveitafélaganna hittust ekkert fyrr en í gær. Hvernig ætli standi á því? Menn í verkfalli og sáttanefndirnar neita að hittast oftar en einu sinni í viku? Nei, það má ekki leggja of mikið á þetta sama fólk og klúðraði síðustu samningum fyrir kennarana. Reyndar var boðaður annar fundur í dag svo kannski er smá vonarglæta að deiluaðilar séu að ná saman. Nema þetta sé enn eitt þaulhugsaða almannatengsla útspilið hjá Eiríki og kennaraforystan sé að plotta eitthvað nýtt, stórkostlegt. Hann hefur allavega spilað þann leik stórkostlega hingað – þ.e.a.s. illa. Líklega fátt sem hann hefði getað gert til að almenningsálit á kennurum hefði tekið verri dífu niður á við.

Löggæsluaðilar létu heldur betur hendur standa fram úr ermum í vikunni. Á meðan athugulir tollverðir stoppuðu fínu frúrnar í búnkum í milljón króna pelsum, réðist lögreglan til atlögu gegn ósvífnum harðdisksdeilurum (e. sharing). Tólf aðilar í haldi lögreglu í stóra höfundarréttarmálinu. Meira en 250 terabæt af gögnum gengu milli manna frítt. Jafngildir næstum gígabæti á hvern einasta Íslending. Það er milljarður bæta á mann. Erum allavega milljarðamæringar að meðaltali í einhverju.

Nú svo má ekki gleyma dýraríkinu. Rauðsokkóttur kálfur kom í heiminn í húsdýragarðinum. Kemur nú vel á vondan fyrir að hafa neitað að fara í sveit í gamla daga. En pistlahöfundur getur ekki fyrir sitt litla líf ímyndað sér hverju lýsingarorðinu ‘rauðsokkóttur’ er ætlað að lýsa. Er þetta litarháttur, göngulag, þyngdarflokkur eða er þetta kannski bara nafnið á honum – Rauðsokkóttur Hvítingsson? Í gamla daga lærði ég í skóla að minnsti fugl á Íslandi væri músarindill. Skipverjar á Ægi geta ekki tekið undir það, þetta eru svo miklir glókollar á varðskipunum okkar.

Annars var vikan nokkuð hefðbundinn. Jón Steinar fór í hæstarétt og halli var á ríkissjóði í góðærinu. Að lokum er kannski best að benda lesendum á að halda sig innan dyra um helgina. Ekki nóg með að haustlægðirnar komi í hrönnum heldur er von á gömlum Íslandsvini til landsins sem flestir vilja forðast að hitta. Inflúensan er víst að koma. Eigiði góða helgi en fariði jafnframt gætilega.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)