Réttarstaða samkynhneigðra III

Ættleiðingar

Eins og áður hefur komið fram þá klofnaði nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra í afstöðu sinni til ættleiðinga samkynhneigðra á erlendum börnum og tæknifrjóvgunum samkynhneigðra. Í pistli dagsins eru rök nefndarmanna fyrir banni á ættleiðingum samkynhneigðra á erlendum börnum skoðuð gaumgæfilega.

Ættleiðingar

Í pistlum sem undirritaður hefur birt undanfarið hefur verið fjallað um nýja skýrslu um réttarstöðu samkynhneigðra. Þar hefur meðal annars komið fram að það væru mikil vonbrigði að nefndin hefði klofnað í afstöðu til ættleiðinga samkynhneigðra á erlendum börnum. Leggur helmingur nefndarinnar til að samkynhneigðum verði heimilað að ættleiða erlend börn en hinn helmingurinn studdi ekki þá tillögu.

Eins og kom fram í pistli um samkynhneigð og börn í gær þá sýna rannsóknir með óyggjandi hætti að samkynhneigðir eru alveg jafn góðir uppalendur og gagnkynhneigðir. Það er því ljóst að mjög veigamikil önnur rök þurfa að liggja fyrir til að réttlæta mismunun gagnvart þessum hópum. Þeir þrír íslensku nefndarmenn sem lögðust gegn ættleiðingum samkynhneigðra á erlendum börnum hér á landi bentu á aðallega á tvo hluti til stuðning banninu. Annars vegar að þetta gæti falið í sér ógn við erlenda samvinnu en hins vegar væri óvissa um sálræna líðan erlendra ættleiddra barna samkynhneigðra foreldra.

Ógn við erlenda samvinnu

Nefndarmennirnir þrír sögðu að mörg ríki heimiluðu ekki ættleiðingar til samkynhneigðra og að þeir óttuðust að þetta gæti stefnt í hættu árangursríkri samvinnu sem komist hefur á við erlend stjórnvöld um ættleiðingar barna.

Þessi rökstuðningur er undarlegur með tilliti til þess að nefndin fór ítarlega yfir rannsókn á vegum sænsku ríkisstjórnarinnar sem var undanfari þess að Svíar heimiluðu samkynhneigðum að ættleiða erlend börn. Sænska nefndin byggði niðurstöður sínar á meira en fjörutíu alþjóðlegum og innlendum rannsóknum um samkynhneigðar fjölskyldur og lét jafnframt fara fram ýmsar rannsóknir í Svíþjóð á þessu sviði. Rannsóknarnefndin sendi fyrirspurn til þeirra 25 ríkja sem Svíþjóð hefur verið í mestri samvinnu við undanfarin ár um erlendar ættleiðingar. Var spurt um það hvort heimild samkynhneigðra til að ættleiða myndi hafa neikvæð áhrif á ættleiðingar frá þessum löndum til gagnkynhneigðra. Þau 17 ríki sem svöruðu tóku öll fram að þau heimiluðu aðeins ættleiðingar til gagnkynhneigðra. Hins vegar sagði einungis Lettland að þetta kynni að hafa neikvæðar afleiðingar.

Það er því ljóst að þessi röksemd helmings íslensku nefndarinnar stenst ekki nánari skoðun enda er fátt sem bendir til þess að samvinnunni við ríkin verði ógnað verði samkynhneigðum heimilað að ættleiða erlend börn. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að ef erlend ríki eru mótfallin ættleiðingum samkynhneigðra þá mun ekki vera leitað eftir slíkum ættleiðingum frá þeim.

Óvissa um sálræna líðan

Í öðru lagi töldu nefndarmennirnir þrír að vegna óvissu um sálræna líðan erlendra ættleiddra barna væri rétt að hafna þessu. Rannsóknir hefðu sýnt að líkur eru á því að börn samkynhneigðra foreldra verði fyrir ákveðnu félagslegu álagi einkum á fyrri hluta unglingsára og töldu nefndarmenn að ekki væri rétt að leggja það aukaálag á ættleidd erlend börn sem skæru sig m.a. frá umhverfi sínu vegna ólíks uppruna síns.

Þarna vísa nefndarmennirnir meðal annars í upplýsingar sem er að finna í títtnefndri skýrslu frá sænsku ríkisstjórninni. Hins vegar verður þessi vísun að teljast ansi valkvæð. Í skýrslunni kemur nefnilega fram að vissulega hafi rannsóknir í Svíþjóð leitt í ljós að hærra hlutfall erlendra ættleiddra barna og unglinga þurfi að leita sálfræðilegrar aðstoðar en gengur og gerist meðal annarra barna og unglinga í samfélaginu. Á hinn bóginn bendir sænska nefndin á að traust tilfinningasamband ættleiddra barna við kjörforeldra sína og ást og öryggi á heimilinu ráði úrslitum um möguleika á að yfirvinna slík vandamál í uppvextinum, án þess að kynhneigð foreldra komi þar við sögu. Rétt er að geta þess að meirihluti sænsku nefndarinnar var fylgjandi því að heimila samkynhneigðum að ættleiða erlend börn.

Það er því ljóst að hægt er að benda á fátt haldbært til stuðnings þessari röksemd helmings nefndarinnar. Jafnframt verður að efast um að það sé barni í þriðja heiminum fyrir bestu að vera þar áfram og neita því um foreldra og nýtt líf hér á landi á þeirri forsendu að það gæti hugsanlega lent í sálarkrísu á unglingsárunum vegna kynhneigðar foreldranna.

Sýnum þor

Það er því ljóst að það er fátt til stuðnings því mati helmings nefndarinnar að leggja til að samkynhneigðum verði ekki leyft að ættleiða erlend börn. Enda styður eðlilega flest í skýrslunni þá ályktun að samkynhneigðir eigi að fá að gera það eins og aðrir. Sú tilfinning vaknar að helmingur nefndarinnar hafi einfaldlega ekki þorað að stíga skrefið til fulls þrátt fyrir að yfirgnæfandi rök styddu þá aðgerð.

Vonandi fellur Alþingi ekki í sömu gildru og sýnir þor og dug til að taka upplýsta ákvörðun byggða á íslensku skýrslunni um að heimila samkynhneigðum að ættleiða erlend börn.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.