Batman í Þjóðarbókhlöðuna

sdfdÞað ráku margir upp skaðræðisóp þegar þeir sáu einstæðan föður standa á gluggasillu Buckingham-hallar í vikunni og krefjast þess að einstæðir feður á Bretlandseyjum fengju aukin réttindi í samskiptum við börn sín.

Batman kallar ekki allt ömmu sína, nema kannski helst ömmu sína…

Það ráku margir upp skaðræðisóp þegar þeir sáu einstæðan faðir standa á gluggasillu Buckingham-hallar í vikunni og krefjast þess að einstæðir feður á Bretlandseyjum fengju aukin réttindi í samskiptum við börn sín. Hér var ekki um Karl Bretaprins að ræða því hann er vart fréttnæmur, enda er maðurinn álíka jafnspennandi og brauðrist, eða öllu heldur það sem í hana er sett, því prinsinn er grillaðri en góðu hófu gegnir. Nei, það sem kveikti í heimspressunni var sú staðreynd að mótmælandinn var íklæddur Batman-búning.

Það er löngu sönnuð staðreynd að ofurhetjur eiga auðveldara en hinn venjulegi meðaljón með að leysa hvers kyns verkefni af hendi. Á meðan við meðaljónarnir eigum fullt í fangi með að muna eftir að setja klósettsetuna niður þegar við erum búnir að pissa, þá eiga ofurhetjur til dæmis ofurauðvelt með að klifra upp hallarveggi. Á sama tíma og við meðaljónarnir berjumst af öllum okkar lífs og sálar kröftum við að koma okkur fram úr á morgnanna vaka Batman og hinir strákarnir yfir okkur meðan við sofum værum svefni.

Og við meðaljónarnir stöndum þeim aftar á fleiri sviðum, t.d. í námi. Þannig er ekki hlaupið að því að stunda háskólanám og þjást af krónískri svefnþörf, margföldum athyglisbresti, bleslindu og ríkri þörf til að horfa á Nágranna í hádeginu á öllum virkum dögum. Slíkt er nánast algerlega ósamrýmanlegt við fasíska stundatöflu háskólans og augljóst að eitthvað verður að víkja. Allir þurfa jú að eiga góða granna, svo fyrirlestrarnir eiga það til að falla á milli stafs og hurðar.

Jæja, best að koma sér að kjarna málsins: Að læra heima hjá sér er svona álíka jafnhressandi og að sofa í skólanum. Auðvitað gerist hvort tveggja annað veifið, en til lengdar er það algerlega ómögulegt. Viljastyrkur okkar háskólanema er bara ekki meira en svo að við getum ekki staðist þær freistingar sem heimili okkar hefir upp á að bjóða umfram námsbækurnar og því verðum við einfaldlega að húka á Þjóðarbókhlöðunni til að lesa eitthvað í hausinn á okkur. Auk þess sem það er algerlega óraunhæft að ætlast til þess að nemendur nái að plægja sig í gegnum batman.is og tilveran.is á Hlöðunni fyrir klukkan 19 án þess að það verði til þess að draga úr lestri okkar á helstu bloggum og vefritum!

Þegar einhver skriffinninn ákveður hins vegar að það sé sterkur leikur í stöðunni að loka þjóðarbókhlöðunni klukkan 19 svo að allir komist heim í kvöldmat er úr vöndu að ráða fyrir háskólastúdenta. Annars vegar geta þeir farið heim og reynt að læra þar. Slíkt er ekki líklegt til afreka, enda yfirgnæfandi líkur að eitthvert heimilistækið nái að fanga athygli okkar. Hins vegar er alltaf möguleiki á að reyna að snúa kolrangri ákvörðun skriffinnanns með vænum skammti af borgaralegri óhlýðni.

Háskóli Íslands á undir högg að sækja frá einkaskólum og stjórnendur skólans eru svo ótaktískir í aðgerðum sínum að þeir ættu eiginlega að taka við þjálfun íslenska handboltalandsliðsins. Á meðan einkaskólarnir veita nemendum sínum aðgang að lesstofum allan sólarhringinn þurfa nemendur HÍ að búa við skertan opnunartíma Þjóðarbókhlöðunnar sem verður að teljast algerlega óþolandi.

Vík ég þá aftur að Batman-búningunum. Sagna sannast veit ég ekki hvort að örlögin eru að spila með mig, en ég það vill svo skemmtilega til að ég fékk einmitt nákvæmlega eins Batman-búning í 25 ára afmælisgjöf og brúkaður var í mótmælunum við Buckingham-höll. Hins vegar vill svo til að pistlahöfundur er hvorki ungpólitíkus né sérstaklega virkur í hagsmunabaráttu nemenda. Hins vegar er hann afar virkur í sinni eigin hagsmunabaráttu og hefir því alvarlega velt því fyrir sér hvort Batman-búningurinn geti vakið þá athygli á þessu máli sem það á svo sannarlega skilið.

Venjulegar baráttuaðferðir eru bara úreltar. Mótmælastaða fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna er kannski góð og gild aðferð – en þegar í harðbakkann slær þá þarf ofurhetjur til að höggva á hnútinn.

Sjáumst í Batman-búning í skólanum á morgun.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)