Lyfið dýra leyst af?

Samkvæmt fréttum virðist undralyfið NovoSeven í þann mund að lenda í samkeppni við fiskprótín með sömu virkni. Mun fiskprótínið leysa lyfið dýra af?

Prótínbygging storkuþáttar.

Í liðinni viku vakti athygli frétt um að nú væri hægt að nota erfðabreyttan fisk til að framleiða ákveðið prótín, factor VII, eða storkuþátt VII. Ákveðnu mannageni er þá bætt í genamengi fisksins sem veldur því að fiskurinn framleiðir og seytir prótíninu út í blóðið sem það er síðan unnið úr.

Þetta prótín hefur þó áður verið framleitt, en þá verið notast við hamstrafrumur. Það var markaðssett undir nafninu NovoSeven árið 1988 og verið notað í lækningaskyni síðan.

Prótínið var framan af eingöngu notað við ákveðnum tegundum dreyrasýki, t.d. við aðgerðir á slíkum sjúklingum til að koma í veg fyrir lífshættulegar blæðingar. Notagildi lyfsins, eða prótínsins jókst síðan til muna þegar fréttir fóru að berast af árangursríkri notkun þess við alvarlegri blæðingum sem tilkomnar væru af öðrum storkusjúkdómum en dreyrasýki eins og t.d. í bráðahvítblæði við alvarlegri blóðflagnafækkun. Nú er það einnig notað við græðingu sára, jafnvel skotsára sem og innvortis blæðinga.

NovoSeven hefur verið notað á sjúkrahúsum hér á landi í einstökum tilvikum síðan 1999. Tilfellin hafa öll verið mjög bráð og mismunandi, alveg frá bráðahvítblæðistilfelli til stöðvunar stórfelldrar blæðingar af völdum mótorhjólaslyss. Erlendis frá hafa borist fregnir um að prótínið hafi komið að ótrúlegu gagni við ýmsar blæðingar, lungnablæðingar, heilablæðingar, blæðingar í skurðaðgerðum og jafnvel eftir fæðingar. Ennþá hafa tiltölulega fáar rannsóknir verið gerðar á þessu breikkaða virknisviði NovoSeven, en einhverjar eru í gangi. A.m.k er ljóst að alvarlegar aukaverkanir eru aðeins í minna en 1% tilvika.

Þessi takmarkaða notkun NovoSeven kemur ekkert sérstaklega á óvart enda kostar einn skammtur af því nærri eina milljón króna, og það því aðeins verið notað í völdum tilvikum hjá sjúklingum sem hafa verið í stórfelldri lífshættu vegna blæðinga.

Prótínið hefur hinsvegar sýnt fram á ótrúlega virkni sína við alls kyns aðstæður sem ekkert eiga skylt með dreyrasýkinni sem því var upphaflega beint að. Flestir þeir sem láta lífið af slysförum deyja einmitt vegna blæðinga. Þess vegna er það heldur blóðugt að lyfið sé notað afskaplega takmarkað vegna kostnaðarþátta, sem einhvern veginn virðast alltaf lítilvægir þegar mannslíf eru annars vegar.

Það væri því mikill sigur, ef fiskiprótínið sem rætt hefur verið um reynist jafnvígt NovoSeven. Væri þá kominn á markað keppinautur sem gæti verið allt að tíu sinnum ódýrari, en ljóst er að framleiðsluferlið í fiski er miklu mun ódýrara. Ef allt gengur upp, og storkuþáttarprótínin fengin úr fiskum reynast jafngóð og hin, eru e.t.v ekki meira en þriggja ára bið í það að fiskprótínið komist á markað.

Heimildir og ítarefni:

New Scientist

Læknablaðið

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.