Tillögur nefndar um viðskiptaumhverfið

Meginlínur í skýrslu viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi virðast flestar vera í ágætu samræmi við þær hugmyndir sem fyrirtækin sjálf hafa sett fram. Markmið stjórnvalda hlýtur að vera að efla atvinnulífið og ljóst er að ekki má ganga lengra en skýrslan segir ef löggjöf á þessu sviði á ekki að reynast hamlandi fyrir áframhaldandi framþróun íslensks viðskiptalíf. En mikilvægasta aðhaldið er markaðurinn sjálfur.

Skýrsla nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi hefur á sér vandaðri og yfirvegaðri blæ en skýrslan um fjölmiðla, sem hleypti hér öllu í uppnám fyrir skemmstu. Skýrslan sjálf er ákaflega akademísk og vandlega gerð. Þar er ekki verið að mála skrattann á vegginn, þar virðist ekki hafa verið farið út í hæpnar lagaskýringar og almennt virðist sem höfundar skýrslunnar hafi haldið sig mjög innan þess umboðs sem þeim var veitt við stofnun nefndarinnar. Enn fremur skín í gegn að nefndarmenn eru almennt trúaðir á markaðshagkerfið og frjálsræði í viðskiptum.

Deiglan hefur magsinnis fjallað um mikilvægi þess að frjáls markaður fái að þróast sem mest án íþyngjandi reglugerða- og lagasetningar af hálfu hins opinbera. Stór skref hafa verið stigin í þá átt og hefur atvinnulífið sjálft átt mikið frumkvæði í þeim efnum. Þannig eru tillögur Verslunarráðs og fleiri aðila um stjórnarhætti í fyrirtækjum vitnisburður um að heildarhagsmunir atvinnulífsins felast í því að gagnsæi og sanngirni ráði för í rekstri fyrirtækja. Fjölmargt í tillögum nefndarinnar er í góðu samræmi við þær hugmyndir sem forsvarsmenn atvinnulífsins hafa sjálfir stungið upp á.

Fátt bendir til þess að staða í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir sé tilefni til sérstakra aðgerða gegn frjálsræði í atvinnulífinu. Þvert á móti. Sjaldan hefur gróskan verið jafnmikil og sjaldan hafa kostir frjáls markaðar verið jafnaugljósir fyrir neytendur og almenning allan.

Það er rauður þráður í skýrslunni að lagt er til að ríkisvaldið grípi aldrei til annarra aðgerða en þeirra sem minnstu tjóni valda fyrir hlutaðeigandi. Þar er einnig dágóð umfjöllun um hina miklu ókosti þess að stjórnvöld geri tilraunir til að leysa upp fyrirtæki með valdi. Raunar er fullyrt í skýrslunni að slíkar aðgerðir virðist sjaldan skila nokkurri bót fyrir neytendur. Það er niðurstaða sem kemur fylgismönnum frjálsræðis lítið á óvart. Þeir sem hins vegar ala á tortryggni í garð viðskiptalífsins virðast hins vegar einna helst sakna þess úr skýrslunni að valdheimildir samkeppnisyfirvalda til að ráðskast með rekstur fyrirtækja séu ekki auknar stórum.

Það er jákvætt að skýrt er tekið fram, og margendurtekið, að dómstólar hafi endanlegt úrskurðarvald um hvort framfylgja þurfi kröfum Samkeppnisstofnunnar um endurskipulagningu fyrirtækja. Deiglan telur almennt óþarft að slíkar valdheimildir séu til staðar í lögum. Eðlilegra er að beita fésektum og öðrum hefðbundnum refsiúrræðum. Hins vegar er mikilvægt að séu slíkar heimildir veittar að þá sé ljóst að slíkar aðgerðir komi aldrei til framkvæmda nema að undangengnum málarekstri fyrir almennum dómstólum.

Meðal ánægjulegustu niðurstaðna skýrslunnar er að ekki er lagt til að auknar hömlur verði setnar á eignartengsl eða samstarf fyrirtækja. Óeðlilegar hringamyndanir geta vissulega haft neikvæð áhrif á hagkerfið og fært óeðlileg völd í hendur örfárra manna. Mikilvægt er að aðilar á markaði hafi stöðugt auga með því að slík staða sé ekki misnotuð á kostnað hluthafa.

Reynslan sýnir að félög sem ekki eru rekin í samræmi við eðilega arðsemiskröfu geta reynst bæði hluthöfum sínum og jafnvel almenningi dýrkeypt. Á frjálsum markaði er stjórnendum slíkra félaga refsað. Gerist það ekki er hætta á því að óeðlilegir viðskiptahættir festist í sessi og viðbrögð almennings verði kröfur um hamlandi inngrip ríkisvaldsins. Slíkar hömlur hitta bæði fyrir hina seku og saklausu og eru því óheppilegri leið heldur en aðhald markaðarins til að tryggja traust í viðskiptalífinu.

Deiglan geldur varhug við auknum valdheimildum samkeppnisyfirvalda. Almennir dómstólar eiga að vera úrskurðaraðili um brot á samkeppnislögum rétt eins og öðrum lögum. Þá er einnig illskiljanlegt ef lögfest verði einhvers konar bann við því að stjórnarformenn hafi fulla atvinnu af því starfi sínu. Það er ekki óeðlilegt að hluthafar feli stjórnarformönnum víðtækt stefnumótunarhlutverk og sé það vilji hluthafa að hafa stjórnarformenn í fullu starfi við slíkt er óeðlilegt að lagahindranir komi í veg fyrir þann ráðahag.

Ef ríkisstjórn og Alþingi fylgja þeim þræði sem lagður er í skýrslu nefndarinnar er lítil hætta á að pólitískt gjörningarveður skapist vegna hugsanlegrar lagasetningar um umhverfi viðskiptalífsins. Hvernig þær tillögur koma til með að líta út er auðvitað enn óvíst og nauðsynlegt er að taka afstöðu til þeirra þegar þar að kemur.

Hið mikilvægasta er hins vegar ekki það að spádómar um stórfelldar pólitískar sviptingar í kjölfar skýrslunnar verða ekki að veruleika. Hið mikilvægasta er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haldi áfram því verki að efla umhverfi íslensks atvinnulífs og þar með tryggja fólki síbatnandi lífskjör og aukin tækifæri. Það markmið næst ekki nema atvinnulífið fái áfram að þroskast og blómstra.

Til þess að slík niðurstaða fáist er mikilvægt að íslensk löggjöf verði ekki strangari eða meira hamlandi heldur en það sem tíðkast annars staðar – og raunar ættum við ekki einu sinni að þurfa að leita réttætingar með því að bera okkur saman við önnur lönd. Alþingi og ríkisstjórn hafa nægar sannanir til þess að sjá að auknar hömlur eru engin lausn, nema tímabundnir plástrar fyrir þá sem fara halloka í frjálsri samkeppni.

Löggjöf í markaðshagkerfi á ekki að snúast um réttindi þeirra sem fara halloka í samkeppni heldur tækifæri manna til að taka þátt í slíkri samkeppni og möguleika almennings á að njóta góðs af henni.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)