Íbúðalánasjóður að sökkva

Bankarnir hafa heldur betur lífgað upp á tilveruna með sterkri innkomu sinni á íbúðalánamarkað á undanförnu. Íbúðalánasjóður svarar með hroka og Framsókn þakkar sér fyrir góðaveðrið.

Í síðustu kosningum lofaði Framsóknarflokkurinn 90% húsnæðislánum og hækkun á hámarkslánum upp úr öllu valdi. Í kjölfarið hófst mikil umræða í þjóðfélaginu þar sem flestir sem gagnrýndu félagsmálaráðherra harðlega, og raun var Íbúðalánasjóður eini aðilinn utan Framsóknarflokksins sem varði þessa fyrirætlan. Þessi kosningaloforð ganga þvert á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamörkuðum og er aðeins til þess fólgin að hrifsa til sín viðskipti frá bönkum sem nýbúið er að selja.

Umræðan um að viðskiptabankar taki við afgreiðslu þessara lána af Íbúðalánasjóði hafa gerst sífellt háværari, enda er ríkisvaldið hér í beinni samkeppni við þá á lánamarkaði. Ekki nóg með að ríkisvaldið sé í samkeppni við einkaaðila sem geta auðveldlega sinnt þessari þjónustu, heldur skekkir það samkeppnina með ríkisábyrgð og reglum um eiginfjárhlutföll og útlánaafskriftir sem eru mun rýmri fyrir Íbúðalánasjóð en aðra aðila.

Það hefur því verið sérstaklega upplífgandi að fylgjast með glæsilegri innkomu viðskiptabankanna inn á íbúðalánamarkaðinn. Bankanir hafa orðið mun samkeppnishæfari á síðustu mánuðum gagnvart ÍLS með bættu lánshæfi sem gerir þeim kleift að endurlána á lægri vöxtum. En til langstíma verður erfitt fyrir þá að keppa við ríkistrygginguna hjá ÍLS og því má velta fyrir sér í ljósi hinnar hörðu samkeppni hvort ekki væri best að færa starfsemi sjóðsins yfir til bankanna.

Augljósasti kostur lántakenda við það að fjármálafyrirtæki annist afgreiðslu húsnæðislána, er sá að öll viðskipti gætu verið á einum stað. Þau hafi heildarsýn yfir skuldbindingar viðskiptamanna sinna og eru því í betri aðstöðu til að fylgjast með og veita ráðgjöf um fjármál hvers og eins, ef húsnæðislán eru einnig á þeirra hendi. Þetta fyrirkomulag mun leiða til meiri vöruþróunar eins og raunin er í dag þar sem fólk getur valið á milli breytilegs vaxtarfyrirkomulags og á milli innlendra eða erlendra lána.

Hlægilegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðum ýmissa framsóknarmanna sem nú vilja eigna sér “góða veðrið”, þ.e. lækkun vaxta á fasteignalána. Það rétta er að ásetningur framsóknarmanna var sá að þrengja verulega að hinum frjálsa lánamarkaði með því að auka enn á ríkistryggð lán. Dæmigerð framsóknarmennska. Hins vegar brást hin frjálsi markaður svona glæsilega við með óvæntu og ánægjulega útspili. Viðbrögð framsóknarmanna eru barnaleg og til langstíma eru stolnar fjaðrir ekki vænlegar til skrauts.

Viðbrögð talsmanna Íbúðalánasjóð eru aftur á móti hrokafull, en slíkt einkennir oft sökkvandi ríkisbákn. Forstjóri ÍLS heldur því fram að sjóðurinn sé ekki í neinni samkeppni við viðskiptabankana þrátt fyrir að allir sjái það. Fagmennska starfsmanna sjóðsins hefur líka verið dregin í efa af aðilum hins frjálsa markaðs, til að mynda við útboð hans nú í sumar. Breytingin á húsbréfakerfinu í sumar var einmitt gerð til að laða að erlenda fjárfesta. Þau vinnubrögð sem ÍLS viðhafði þá eru ekki til að auka tiltrú útlendinga á íslenskum fjármálamarkaði.

Óskandi er að ríkisvaldið færði öll almenn húsnæðislán í áföngum yfir á hin frjálsa markað, en slíkt hefur einmitt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagt til, og ÍLS getur þá sinnt hlutverki sínu sem félagslegur sjóður og lágmarkað starfssemi sína.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.