Stríðnir bankar

Á íbúðalánamarkaði geisar nú verðstríð sem engan hefði grunað að væri í uppsiglingu fyrir tveim vikum síðan. Umræður um stimpilgjöld og uppgreiðslu einfalda ekki málið og skeytin ganga á víxl milli bankastofnana, íbúðalánasjóðs og félagsmálaráðherra.

Á íbúðalánamarkaði geisar nú verðstríð sem engan hefði grunað að væri í uppsiglingu fyrir tveim vikum síðan. Árásaraðilinn í þessu stríði er KB Banki og hinar bankastofnanirnar virðast spila leikinn með í nokkru pati, þótt greinilegt sé að viðbragðsflýtir þeirra sé að aukast. Með útspili sínu í gær sýndi bankinn að markmið hans er að vera ávallt með lægstu vextina á þessum markaði, nokkurs konar Bónus Banki.

Titringurinn sem leiðir af aðgerðum bankans nær út fyrir bankana og sparisjóðina, því Íbúðalánasjóður berst nú fyrir tilverurétti sínum. Í ljósi lægri vaxta bankanna hafa ýmsir orðið til þess að leggja til að sjóðurinn verði lagður niður í einu vetfangi. Flestir sem hafa ljáð máls á því í þessari umferð hafa reyndar haldið fram þeirri skoðun í lengri tíma, og hafa ágæt rök fyrir því. Pistlahöfundur getur þó ekki tekið undir að tveggja vikna verðstríð séu sérstök rök í því efni. Verðstríð geta vel geisað á mörkuðum þar sem lítil samkeppni ríkir, markmið stríðenda er þá að hreinsa til í samkeppninni. Í dag er erfitt að sjá hverjar langtímaáætlanir bankanna eru eða hver áhrifin yrðu á vexti þeirra ef Íbúðalánasjóður yrði lagður niður.

En Íbúðalánasjóður er langt frá því að vera það eina sem skekkir myndina í húsnæðislánum. Stimpilgjald á lán, eða lántökuskattur eins og réttast er að kalla það, er 1,5% skattur sem lagður er á einstaklinga og fyrirtæki þegar lán eru tekin og einnig þegar lánum er skuldbreytt. Þetta gjald er ekki lagt á veltuskuldir og hvetur fólk því til að fjármagna sig með dýrum yfirdráttarlánum eða kreditkortaskuldum í stað þess semja um skuldabréfalán. Þar fyrir utan veldur kostnaðurinn af því að breyta um fjármögnun því að fólk hikar við að flytja lán sem það hefur þegar tekið. Þetta er því samkeppnishamlandi skattur sem minnkar þörfina fyrir lánveitendur að standa sig í samkeppni til að halda í sína skuldara. Fyrir utan lántökuskattinn þurfa íbúðakaupendur að greiða 0,4% stimpilgjald af verði íbúðarinnar þegar skrifað er undir kaupsamning.

Drottinn gaf og drottinn tók: Tekjur af stimpilgjaldi eru áætlaðar rúmlega þrír milljarðar kr. á næsta ári, en alla þá upphæð (og meira til) greiðir ríkið aftur til skuldara í formi vaxtabóta. Vaxtabætur nema rúmum fimm milljörðum á ári og draga úr kostnaðinum við að skulda. Vaxtabæturnar renna til þeirra sem minna hafa milli handanna, en líka til þeirra sem gíra sig svo hátt í húsnæðiskaupum að lítill höfuðstóll myndast.

Í þeirri uppstokkun sem nú á sér stað í húsnæðismálum ætti ríkisstjórnin að nýta tækifærið og taka þessa hluti til róttækrar endurskoðunar. Stimpilgjaldið ætti hiklaust að leggja af. Hluta af þeim tekjumissi sem þar skapast mætti vega upp með endurskoðun á vaxtabótum, og hugsanlega væri skynsamlegast að sameina vaxtabætur og húsaleigubætur. Úr yrði einfaldara kerfi, húsnæðisbætur. Slíkt kerfi ætti ekki að gera upp á milli kaupa og leigu, og greiðslur samkvæmt því kerfi ættu að miðast við áætlaðar húsnæðisþarfir fólks, frekar en hversu grand menn vilja vera á því.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)