Frestur Súdans á enda

Frestur sá er öryggisráð Sameinuðu þjóðanna veitti stjórnvöldum í Súdan til að koma á friði í Darfur-héraði rann út í gær. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist á næstu vikum og hvort alþjóðasamfélagið muni grípa til aðgerða.

Það virðist fremur lögmál en undantekning að bardagar geysi í einhverju ríki Afríku. Sífellt heyrum við frásagnir af fólki á flótta og þjóðum sem verða hungri að bráð. Stundum virðist alþjóðasamfélagið dofið fyrir fréttum af þessu tagi og var atburðarásin í Rúanda fyrir tíu árum síðan dæmi um slíkan dofa.

Lengi vel leit út fyrir að hið sama gæti gerst í Súdan, þar sem mikið ófremdarástand ríkir í Darfur-héraði í norðvesturhluta landsins. Janjaweed, vopnaðar sveitir Araba, hafa barist gegn svörtum íbúum svæðisins frá því á síðasta ári með ógnvænlegum afleiðingum. Talið er að nú þegar hafi um fimmtíuþúsund manns látið lífið og um ein milljón manna sé nú á hrakhólum. Enn einu sinni virðist alþjóðasamfélagið hafa vaknað í seinna fallinu.

Ástandið er svo slæmt að meira að segja bandalög þjóða, sem láta nú ýmislegt yfir sig ganga, hafa mótmælt ástandinu. Afríkubandalagið leiðir nú friðarviðræður milli súdanskra stjórnvalda og uppreisnarhópa í Darfur-héraði, sem fram fara í Nígeríu. Miklar vonir eru bundnar við þessar viðræður, þótt sífellt fleiri telji að atbeina erlendra hersveita þurfi sem fyrst. Þá hafa stjórnvöld í Súdan nýlega liðkað fyrir hjálparstarfi á svæðinu og verður það að teljast spor í rétta átt.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um ástandið í Darfur-héraði 30. júlí síðastliðinn og gaf jafnframt stjórnvöldum í landinu þrjátíu daga frest til að lægja ófriðaröldurnar. Frestur þessi rann út í gær.

Fróðlegt verður að sjá hvað gerist á næstu vikum og til hvaða aðgerða alþjóðasamfélagið grípi. Talið er að Rússar geti sett sig upp á móti vopnasölubanni og bann við olíuviðskiptum verði hvorki Frökkum né Kínverjum að skapi. Beiting vopnavalds er því líklegasti kosturinn og það sem meira er mörg Afríkuríki eru reiðubúin að leggja til herafla. Íhlutun erlends herafla í Súdan yrði þá í einna fyrsta skipti skipuð eingöngu herflokkum Afríkubandalagsins, en með fjárstuðningi Vesturlanda.

Hvaða aðferðum sem beitt verður til að stöðva ástandið í Darfur-héraði er það ljóst að alþjóðasamfélagið getur ekki lengur skorast undan. Það hefur alltof oft sofið í gegnum tíðina og því bar að koma friði á í Darfur-héraði ekki síðar en í gær.

Heimildir: The Economist.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)