Vafasamur glæpabani

Í síðustu viku var ársskýrsla lögreglunnar fyrir árið 2003 kynnt. Við það tilefni sá lögreglustjórinn í Reykjavík, Böðvar Bragason, ástæðu til að ganga fram fyrir skjöldu með tillögu um að settur yrði tölvukubbur í alla bíla landsins til þess að skrá upplýsingar um akstur og ökulag.

Í síðustu viku var ársskýrsla lögreglunnar fyrir árið 2003 kynnt. Við það tilefni sá lögreglustjórinn í Reykjavík, Böðvar Bragason, ástæðu til að ganga fram fyrir skjöldu með tillögu um að settur yrði tölvukubbur í alla bíla landsins til þess að skrá upplýsingar um akstur og ökulag. Þannig gæti lögreglan stöðvað grunsamlega bifreið, tengt tölvukukubb hennar við sínar eigin tölvur og séð aksturslag bifreiðarinnar. Sá Böðvar sérstaka ástæðu til að árétta að lögreglan gæti með þessu ekki bara séð aksturlag þann daginn heldur gæti líka séð það sem „hefði áður gengið á“.

Það þarf líklega ekki að eyða mörgum orðum í að lýsa hversu gífurlega skerðingu á friðhelgi einkalífs þessi hugmynd hefði í för með sér yrði hún að veruleika. Hún felur í sér virkt eftirlit ríkisins með notkun borgaranna á algengasta samgöngutækinu í dag. Þrátt fyrir að upprunalega hugmyndin gangi bara út á eftirlit með aksturslagi þá má auðveldlega misnota þessa tækni og fara að fylgjast með staðsetningu og ferðum einstaklinga. Þá má einnig spyrja hvort ekki sé rétt að banna innflutning á bílum sem komast upp fyrir 90 km hraða, enda er það jú hæsti leyfilegi hámarkshraði á landinu og hver ætti svo sem að hafa ástæðu til að keyra hraðar en það.

Það er vissulega skörp hugsun hjá lögreglustjóranum að ef hann skráir niður akstur og ökulag allra bíla á landinu þá mun hann líklega eiga auðveldara með að berjast gegn umferðarlagabrotum. Á sama hátt má færa prýðisrök fyrir því að ef við hefðum eftirlitsmyndavélar á öllum götuhornum og inn á heimilum okkar þá myndi glæpum líklega fækka að sama skapi upp að einhverju marki. Reyndar myndum við ekki eiga neitt einkalíf lengur en hver spáir svosem í svoleiðis smámuni þegar það er hægt að fækka glæpum? Í þessu samhengi er rétt að benda á að það hefur aldrei verið hægt að kvarta yfir hárri glæpatíðni í alræðisríkjum.

Þrátt fyrir að eingöngu sé verið að skemmta skrattanum með því að ræða efnislega um þessar tillögur þá verður að benda á nokkur atriði. Lögreglustjórinn hefur ítrekað notað tilfinningarök til stuðnings máli sínu og gert því í skóna að þetta sé nauðsynlegt til að fækka banaslysum í umferðinni. Við þurfum sem sagt að skerða friðhelgi einkalífs til að fækka umferðarslysum. Er þetta mjög klassískt því yfirvöld hafa iðulega einhvern misgóðan „æðri tilgang“ fyrir því að skerða mannréttindi borgaranna. Hins vegar verður að benda á að það er ekkert sem segir að slysum muni fækka verulega við þetta þrátt fyrir þessar forvarnir. Lögreglan stundar nú þegar virkt sýnilegt umferðareftirlit án þess að það hafi mikil áhrif á þá umferðarmenningu sem ríkir hér á landi. Eftir allt saman þá gera slysin ekki boð á undan sér.

Það eina sem mun bókað breytast er að lögreglan myndi eiga auðveldara með að sanna brot á umferðarlögum. Hægt er að fullyrða að tölvukubburinn myndi líklega eyða öllum möguleikum borgaranna til að verjast ákæru um umferðarlagabrot. Það sem meira er að lögreglan þarf ekki einu sinni að vera á svæðinu heldur getur hirt viðkomandi upp hvenær sem er og sektað hann. Það má því færa ágætis rök fyrir því að þessi hugmynd hafi letjandi áhrif á sýnilega umferðarlöggæslu þar sem lögreglan þarf ekki að standa viðkomandi að verki lengur.

Enn á ný verður að gera athugasemdir við þann móral sem virðist ríkja innan lögreglunnar. Sú tilfinning vaknar sterklega að sumir innan lögreglunnar og stjórnsýslunnar upplifi íslenskan veruleika á allt annan hátt en hinn almenni borgari. Hvernig dettur mönnum í hug að koma með svona hugmyndir eftir alla þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum í mannréttindamálum hér á landi?

Þrátt fyrir að það sé ekki efni þessa pistils þá er það ekkert launungarmál að undirritaður hefur verið ósáttur við stöðu þessa málaflokks hjá stjórnvöldum. Hafa lífsýnatökur á útlendingum, hleranir án dómsúrskurðar og fleira gefið tilefni til að gagnrýna stjórnvöld og dómsmálaráðuneytið harkalega.

Nú er tækifæri fyrir dómsmálaráðuneytið til að taka sig saman í andlitinu og slá svona atlögur að grundvallarmannréttindum út af borðinu. Reynslan sýnir að svona hugmyndir ganga sjaldnast til baka.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.