Fresta kosningum?

Samkvæmt Newsweek hafa hugmyndir um hugsanlega frestun forsetakosninga í Bandaríkjunum í tilfelli hryðjuverkaárása fengið alvarlega skoðun. Þótt engar líkur geti talist á að slíkt verði að veruleika vekur það mann til umhugsunar hversu langt slík hugmynd hefur náð.

Þeir eru hugmyndaríkir í bandarísku ríkisstjórninni um þessar mundir. Samkvæmt heimildum blaðamannsins Michael Isikoff hjá Newsweek hafa embættismenn í heimavarnarráðuneytinu bandaríska sent erindi til dómsmálaráðuneytisins þar sem óskað er eftir áliti á því með hvaða hætti unnt sé að slá fyrirhuguðum forsetakosningum í nóvember á frest ef hryðjuverkamenn gera árás.

Í frétt Newsweek kemur fram að í erindi heimavarnarráðuneytisins sé vísað til meintra áhrifa hryðjuverkaárásarinnar í Madríd 11. mars sl. á kosningarnar þar. En eins og margir muna voru þau áhrif helst talin vera þau að fólk hafi skipt um skoðun í geðshræringu eftir hryðjuverkið.

Samkvæmt heimildum Newsweek hefur tillaga um sérstök neyðarlög um kosningafrestun gengið svo langt að Tom Ridge heimavarnarráðherra hefur sjálfur óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að hún hljóti nána skoðun.

Við fyrstu sýn kynni einhverjum að þykja það eðlilegt að slík úrræði séu tekin til athugunar. Veigamikil rök hljóti að hníga að því að til slíks úrræðis yrði gripið – en að í raun þyrftum við ekki að hafa neinar áhyggjur þar sem þetta sé mjög ólíklegt – en kannski „sjálfsagt að skoða þetta.”

En það er ekki gæfulegt ef stjórnmálamenn ætla að fara að leggja mat á það hvenær andlegt ástand þjóðarinnar sé með þeim hætti að óhætt sé að leyfa henni að kjósa. Þess vegna er það óþægilegt að vita til þess að slíkar hugmyndir séu til alvarlegrar skoðanir á æðstu stöðum í einu helsta lýðræðisríki heims.

Þegar Bretar brenndu Washingtonborg árið 1812 voru haldnar kosningar; þegar borgarastyrjöld geysaði í Bandaríkjunum voru haldnar kosningar; og þegar Bandaríkjamenn áttu í heimsstyrjöld var kosið. Í öllum þessum tilvikum er klárt mál að það hefði verið miklum mun þægilegra fyrir valdhafa að sleppa því að láta kjósa – en Bandaríkin virðast hingað til ekki haft vilja til þess að raska lýðræðinu sökum tímabundinna erfiðleika – eða jafnvel hörmunga.

Þeir sem búa í lýðræðisríkjum taka lýðræði og mannréttindi sem sjálfsögðum hlutum – og frjálslynt fólk viðurkennir almennt ekki rétt manna til að stjórna í krafti annars en lýðræðislegs umboðs. En þau eru til dæmin um lýðræðisríki sem steyptust í einveldi á ný. Og það gerðist vitaskuld ekki í einni sviphendingu – heldur var það þróun sem tók tíma og þróun sem of margir áttuðu sig ekki á.

Auðvitað er það ekki ætlun bandarísku ríkisstjórnarinnar að fresta eða sleppa kosningum – og telja má fullvíst að hugmyndir um slíkt séu ræddar hvorki með vitund né vilja æðstu ráðamanna þar. Lýðræðislega kjörnir leiðtogar ættu auðvitað að vera manna hrifnastir af lýðræðinu og ættu síst af öllum að draga í efa dómgreind almennings til að velja sér leiðtoga eða taka mikilvægar ákvarðanir.

Hugmyndum um neyðarlög til að fresta kosningum í Bandaríkjunum verður án nokkurs vafa vísað umsvifalaust á brott úr þingsölum Öldungadeildarinnar nái hún svo langt. Lýðræðið í Bandaríkjunum er ekki í bráðri hættu. En það er samt umhugsunarefni að slíkar hugmyndir skuli koma fram og vera ræddar í alvöru í ráðuneytum í Bandaríkjunum.

Fyrir utan hættuna á minnkandi vægi lýðræðis með þeim hugmyndum sem hér hefur verið lýst ber að staldra við þau skilaboð sem þau senda þeim sem vilja Vesturlöndum – og sérstaklega Bandaríkjunum – illt. Með svona tali er það gefið í skyn að hryðjuverkamenn eigi ekki bara tækifæri til að valda dauða og eyðileggingu í Bandaríkjunum heldur geti þeir rústað stoðum lýðræðisins.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.