Þessi maður er ekki hægt!

Auðvelt er að færa rök fyrir því að þýska stálkempan, Michael Schumacher, sé einn fremsti íþróttamaður sögunnar. Hann er alla vega sá íþróttamaður sem er fremstur í sinni íþróttagrein þessa stundina og þarf að fara aftur til daga Michael Jordans til að finna raunhæfan samanburð. Vinsælustu greinar íþróttanna, fótbolti, körfubolti, tennis og golf eiga ekki sambærilega stjörnu.

Auðvelt er að færa rök fyrir því að þýska stálkempan, Michael Schumacher, sé einn fremsti íþróttamaður sögunnar. Hann er alla vega sá íþróttamaður sem er fremstur í sinni íþróttagrein þessa stundina og þarf að fara aftur til daga Michael Jordans til að finna raunhæfan samanburð. Vinsælustu greinar íþróttanna, fótbolti, körfubolti, tennis og golf eiga ekki sambærilega stjörnu.

Þýski ökuþórinn, vann um helgina sinn 10. kappakstur á keppnistímabilinu eftir að hafa ræst frá 4. rásstað. Sennilega hafa aldrei sést aðrir eins yfirburðir í Formúlu 1 og á þessu tímabili en ellefu mótum er lokið af átján. Til samanburðar vann Schumacher sjö keppnir á síðasta keppnistímabili í 16 tilraunum og varð heimsmeistari. Yfirburðir Ferrari hafa frekar verið á sviði herfræðinnar en í tækninni. Í síðustu mótum hefur Schumacher borið sigur úr býtum með frábærum keppnisáætlunum og sjálfsagt einhverri heppni.

Þeir sem þekkja vel til Formúlu 1 vita að „Schumi“ er sigursælasti ökumaður allra tíma. Hann kom fram á sjónarsviðið árið 1992 eins og Pallas Aþena í fullum herklæðum, varð meistari 1994 og 1995 fyrir Benetton (í eina skiptið sem ökumaður frá því keppnisliði hefur orðið heimsmeistari), skipti yfir til Ferrari árið 1996 og hefur fagnað meistaratitli 2000-2003. Sex heimsmeistaratitlar gera hann að sigursælasta ökuþór formúlunnar fyrr og síðar og fátt kemur í veg fyrir sjöunda titilinn. Líklega aðeins kraftaverk.

Dvergarnir 21

Meðal keppinauta „Schuma“ eru margir hörkunaglar eins og Alonso, Barrichello, Coulthard, Montoya, Raikkonen, Trulli og Ralf Schumacher, litli bróðir Michaels. Þeir eru þó einfaldlega að keppa um að verða næstbesti ökumaðurinn. Michael Schumacher hefur á ferlinum sigrað í 80 keppnum af 204 sem gefur um 39% vinningshlutfall. Næstur á eftir honum í sigrum talið er Frakkinn Alain Prost með 51 sigur. Af núverandi ökumönnum hefur aðeins David Coulthard sigrað í tíu keppnum eða fleiri eða alls 13 á ferlinum. Munar því 67 sigrum á „Schuma“ og næsti manni.

Efsta sætið í hverri keppni gefur tíu stig, annað sætið átta, þriðja sex o.s.frv. Á ferlinum hefur Schumacher krækt sér í 1.138 stig eða 340 stigum fleiri en næsti maður. Meðal núverandi keppinauta er Coulthard næstur með 463 stig, Barrichello, samherji „Schuma“ hjá Ferrari, er með 411 stig og aðrir enn neðar.

Einn tölfræðiþáttur segir e.t.v. mikið um hæfni ökumanna en sá þáttur er hversu oft þeir klára keppnir. Schumi hefur klárað 158 mót af 204 (þ.e. lýkur við keppnir í 77% tilvika) en bæði Coulthard (67%) og Barrichello (59%) hafa lokið við 113 keppnir. Finninn Mika Hakkinen, sem er okkur að góðu kunnur, kláraði t.d. ekki nema 101 keppni í 161 tilraun (63%). Alain Prost var með aðeins lægra hlutfall á sínum ferli og bæði Ayrton Senna og Nelson Piquet voru undir 70% hlutfalli. Það þarf meira en góðan bíl til að skila sér í mark þetta oft. Ökumaðurinn verður að þekkja bílinn eins og líkama sinn. Við sjáum það oft að Þjóðverjinn hægir verulega á ferðinni á lokasprettinum til að hlífa bílnum við álaginu. Staðreyndin er einfaldlega sú að ef ökuþór klárar ekki keppni þá fást ekki stig.

Er þá allt komið?

Sumum finnst skrýtið að jafn sigursæll íþróttamaður og Michael Schumacher, sem er orðinn 35 ára, skuli ekki vera sestur í helgan stein fyrir lifandi löngu til þess að njóta glæstra tíma og allra milljarðana sem hann hefur þénað. Hann er nú einu sinni búinn að slá öll met Formúlu 1. Og þó! Eitt met stendur enn. Það er hið ótrúlega ráspólamet Ayrton heitins Sennas. Ráspóll er svokölluð upphafsstaða (rásstaður) í Formúlu 1 og skera tímatökur, sem haldnar eru deginum fyrr, úr um hvar ökuþórarnir byrja keppnina. Sá sem nær besta tímanum í tímatökum ræsir fyrstur frá ráspól. Senna var 65 sinnum á ráspól á glæstum ferli og er það til marks um hversu frábær kappakstursmaður hann var. „Schumi“ er næstur í röðinni með 60 sigra og vantar því fimm ráspóla til að jafna metið.

Það sætir kannski furðu en margir vilja leynt og ljóst draga úr yfirburðum Schumachers og Ferraris. Meðal þeirra eru Bernie Ecclestone, eigandi Formúlu 1, og Max Mosley, formaður Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA), enda hefur sjónvarpsáhorf minnkað eftir því sem yfirburðir Þjóðverjans verða meiri. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk nenni ekki að horfa á sama manninn og sama liðið vinna alltaf. Þjóðverjinn hefur alltaf verið umdeildur íþróttamaður og ýmist áhugamenn eða fyrrum ökumenn hafa aldrei fyrirgefið honum hversu harðskeyttur og ósvífinn hann var fyrstu árin í formúlunni. Hins vegar er ekki hægt að neita því að á þessu tímabili hefur Michael Schumacher sýnt nýja snilldartakta og lyft sér á stall ódauðlegra afreksmanna.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)